Enda þótt enn skorti á að jafnrétti karla og kvenna sé náð á Íslandi má eygja vonarglætu. Jafnvel dálítið meira en glætu.
Þegar Páll Pétursson félagsmálaráðherra setti morgunverðarfund ráðuneytisins og fjölskylduráðs um feður og föðurhlutverkið miðvikudaginn 15. maí, sem var alþjóðlegur dagur fjölskyldunnar, sagði hann frá því að 85 af hundraði íslenskra karlmanna hefðu nýtt rétt sinn til að taka foreldraorlof vegna fæðingar barna sinna, samkvæmt lögum um fæðingar og fæðingarorlof, sem tóku gildi vorið 2000. Þarna hefur orðið gríðarleg hugarfarsbreyting á aðeins tveimur árum.
Ólafur Þ. Stephensen, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Garðar Baldvinsson, formaður félagsins Ábyrgir feður, og Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður fluttu stutt erindi en fundarstjóri var Drífa Sigfúsdóttir, formaður fjölskylduráðs.
Það var samdóma álit framsögumanna að þessi nýi réttur íslenskra feðra hefði verið þýðingarmikið skref í áttina til aukins jafnréttis kynjanna og bættrar stöðu fjölskyldna. Garðar Baldvinsson sagði meðal annars að gamla hlutverkaskiptingin, sú að konurnar voru heima og önnuðust börn og bú en karlarnir unnu fyrir heimilinu, hefði svipt feður börnunum rétt eins og hún hefði svipt konunum möguleika til starfsframa. En eftir að karlar tóku að skipta sér af heimilisstörfum urðu þeir fyrir fordómum, bæði fyrir að vera „mjúkir“ og vegna þess hvað þeir kunnu lítið fyrir sér í á heimilinu. Og hann varpaði fram því athyglisverða en fáséna sjónarmiði að konur sækja sér styrk í að komast til jafns við karla á vinnumarkaði en karlar sækja sér ekki styrk í sókn sína inn á heimilin. Því sagði hann að nauðsynlegt væri að fjalla um breytta sjálfsmynd karla, rétt eins og fjallað er um breytta sjálfsmynd kvenna, meðan þessi átök standa milli gömlu hefðarinnar og nýrra tíma.
Gjörbreyttur hugsunarháttur
Í þessu ljósi var erindi Ólafs Þ. Stephensens aðstoðarritstjóra einmitt einkar athyglisvert. Hann tók fæðingarorlof fyrir fjórum árum og aftur nú nýverið, og það kom þægilega á óvart hve mikið hugsunarháttur fólks virðist hafa breyst á ekki lengri tíma. Fyrir fjórum árum voru þau hjón staðráðin í að bera jafna ábyrgð á barni sínu sem þá var von á og Ólafur var staðráðinn í að taka sér leyfi frá störfum til þess að annast það í upphafi. Vissulega var ákvæði um fjögurra mánaða fæðingarorlof á launum í kjarasamningum Blaðamannafélags Íslands, en þar var einungis átt við konurnar. Vinnuveitendur Ólafs á Morgunblaðinu höfðu aldrei áður fengið ósk um að karlkyns starfsmaður fengi fæðingarorlof en brugðust vel við, hann fékk að taka sumarfrí og flýta töku svonefnds þriggja mánaða frís sem blaðamenn eiga á fimm ára fresti. Þannig tókst honum að fá fjögurra mánaða launað fæðingarorlof og var heima í mánuð eftir fæðinguna og þrjá þegar dóttirin var átta til ellefu mánaða.
Ólafur sagðist hafa vakið óskipta athygli á gönguferðum sínum með barnavagninn, bláókunnugt fólk gaf sig jafnvel á tal við hann og spurði hvort hann væri virkilega heimavinnandi! Og hann mætti á „mömmumorgna“ í sóknarkirkjunni sinni, fyrstur pabba, og eftir það var farið að tala um „foreldramorgna“. Þetta vakti líka mikla athygli meðal vinnufélaga á Morgunblaðinu. Ólafur hafði þá þokast eitthvað upp eftir skipuritinu, eins og hann komst sjálfur að orði, og fékk þá athugasemd frá konu einni að hann hlyti að vera dýrasta barnapía á Íslandi!
Þegar yngri dóttir hans fæddist var allt breytt. Engum þótti merkilegt að hann skyldi fara í fæðingarorlof, það þótti sjálfsagt. Og aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins finnst þetta jafnrétti foreldra til fæðingarorlofs mikilvægt. „Ef það er almennt viðurkennt að foreldrar skipti jafnt með sér barnaummönnun og heimilishaldi er búið að taka burt forsendurnar fyrir ójafnri stöðu kynjanna á vinnumarkaðnum, búið að fyrirbyggja að þegar dætur mínar mæta í fyrsta atvinnuviðtalið sitt fái þær nærgöngulu spurningarnar sem konur fá enn í dag, um það hvort þær ætli nokkuð að fara að eignast börn á næstunni. Það verður búið að koma í veg fyrir að þær detti út af framabrautinni vegna þess að þær þurfi að sinna börnum og heimili í meiri mæli en karlarnir sem þær vinna með,“ sagði Ólafur.
En hann bætti því við að fólk yrði að gæta þess að föðurhlutverkið yrði ekki „einhvernveginn afleidd stærð út frá móðurhlutverkinu. Pabbar eru ekki mömmur. Þeir eiga að vera hæstráðendur til sjós og lands á meðan þeir eru heima í fæðingarorlofi. Klæða börnin eins og þeim sýnist. Ekki hlusta á forskriftir um það hvernig maður á að haga sér í fæðingarorlofi. Gera pabbahluti með börnunum, hluti sem mann langar sjálfan til að gera,“ sagði Ólafur Þ. Stephensen og bætti því við að karlar yrðu að vera reiðubúnir að hægja á í vinnunni um tíma til að geta sinnt nýfæddu barni sínu og varaði við „ofurkarlinum“ sem vill í senn baka sjö sortir, spila við börnin, fara í framboð, vera formaður handboltadeildarinnar og fá launa- og stöðuhækkun í vinnunni.
Dæmi um misnotkun feðraorlofs
Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði að jöfnun fjölskylduábyrgðar milli kynjanna væri til hagsbóta fyrir atvinnulífið, jafnrétti ætti erfitt uppdráttar nema því aðeins að hugað væri að jafnrétti karla til fjölskyldulífs, það kæmi fyrirtækjunum í koll væri fólki mismunað eftir kyni eða öðrum ómálefnalegum aðferðum. Ari gerði að umtalsefni misnotkun á réttinum til feðraorlofs, sagði að dæmi væri um að menn færu alls ekki heim heldur í aðra vinnu, en sjálfsagt væri erfitt að koma algjörlega í veg fyrir það, og hann upplýsti að SA hefðu í hyggju að kanna hjá fyrirtækjunum hvernig þessi lög hafa reynst.
Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður fjallaði um aðra hlið hjónabandsins, sem sé skilnaði. Hún sagði að breytt hlutverk foreldra hefði hiklaust haft áhrif á forsjármál, nú stæðu feður jafnfætis mæðrunum þegar að því kæmi að úrskurða hvort þeirra skyldi fá forræði barnanna. En afleiðingar bættrar stöðu feðra á heimilinu eru ekki allar ánægjulegar. Dögg telur að einmitt það verði til þess að forsjármál eigi eftir að harðna og fólk grípi til ýmissa vafasamra vopna til þess að fá forræðið dæmt sér, en allir tapi á slíku, börnin mest. Að áliti Daggar er þess að vænta að í framtíðinni verði sameiginleg forsjá barna eftir skilnað foreldra meginreglan, en nú þarf að semja sérstaklega um slíkt.
Það verður víst aldrei skortur á vandamálum í mannlífinu. En þau eru til þess að leysa þau, og full ástæða til að taka eftir þeim ávinningi sem sameiginlegt fæðingarorlof foreldra er – og fagna honum.