Lausnin er ekki aukið atvinnuleysi

Þjóðarsáttarsamningarnir 1990 sköpuðu forsendur fyrir þeim efnahagslega uppgangi sem verið hefur í íslensku efnahagslífi síðustu ár. Síðastliðin fimm-sex ár hafa Íslendingar búið við afar hagstæð skilyrði. Næg atvinna hefur verið fyrir alla og kaupmáttur launafólks farið vaxandi. Nú eru hins vegar blikur á lofti og margt bendir til að framundan sé samdráttartímabil, ekki aðeins á Íslandi heldur einnig í þeim löndum sem við höfum mest viðskipti við. Gengisþróun síðustu mánaða hefur leikið íslensk fyrirtæki illa sem kemur fram í mikið verri afkomu fyrrihluta þessa árs en var á síðastliðnu ári. Þetta hefur leitt af sér hækkandi verðlag og vaxandi verðbólgu og nú er hún með því hæsta sem þekkist í okkar heimshluta. Þessi þróun síðustu mánaða hefur leitt til þess að kaupmáttur umsaminna launataxta hefur farið lækkandi.

Verkalýðshreyfingin hefur um margra mánaða skeið varað stjórnvöld við því að ef ekkert yrði að gert gæti orðið hörð lending í íslensku efnahagslífi. Stjórnvöld hafa látið eins og allt væri í stakasta lagi og ekki gripið til neinna aðgerða til að undirbúa efnahagslífið og tryggja mjúka lendingu. Afleiðingin er vaxandi verðbólga og minni kaupmáttur.

Vextir á Íslandi eru með þeim hæstu sem þekkjast. Þessir háu vextir eru farnir að hafa veruleg áhrif á afkomu almennings og fyrirtækja. Háir vextir samfara óhagstæðri gengisþróun er nokkuð sem ekki getur gengið til lengdar og mun leiða til rekstrarerfiðleika fyrirtækja, minnkandi kaupmáttar og minni atvinnu.

Seðlabanki Íslands hafnar því að lækka vexti og ber fyrir sig þenslu á vinnumarkaðnum. Menn þar á bæ tala um að of mikið framboð sé af störfum og gefa til kynna að æskilegt sé að atvinnuleysi aukist. Jafnframt tala þessir góðu herrar um að laun hafi hækkað of mikið. Það er spurning hvort menn sem hafa engin önnur ráð séu stöðu sinni vaxnir.

Nú er mikilvægara að leita leiða til að tryggja þann árangur sem náðst hefur en að skapa sundrungu með hótunum um atvinnuleysi og lækkandi kaupmátt.

Mörg íslensk fyrirtæki standa sig ágætlega og eiga mikla möguleika en það rekstrarumhverfi sem þeim er skapað af stjórnvöldum, Seðlabankanum þar á meðal, geta ráðið úrslitum um hvort þau eiga framtíð fyrir sér eða ekki. Það hlýtur að vera hlutverk Seðlabankans að leggja sitt af mörkum til að skapa jákvætt rekstrarumhverfi en ekki að framkalla kreppu og atvinnuleysi.

Verkalýðshreyfingin hefur lagt áherslu á að laun á Íslandi væru svipuð og annars staðar á Norðurlöndum. Í síðustu kjarasamningum hefur verið unnið markvisst að því að ná þessu markmiði og fullyrða má að verulegir áfangar hafi náðst. Nú gæti þessi árangur verið í hættu og bilið á milli Íslands og annarra norrænna ríkja gæti aukist á ný. Þetta er óásættanlegt því efnahagslegar forsendur eru ekki fyrir slíku, Ísland er meðal ríkustu landa heims. Krafa verkalýðshreyfingarinnar er því að allt verði gert til að varðveita þann árangur sem náðist með þjóðarsáttarsamningunum og þeim samningum sem fylgt hafa í kjölfarið. Ef nú á að fara að leika gamla leikinn og velta öllu út í verðlagið þá er ekki til staðar það traust sem er forsenda langra kjarasamninga. Þá erum við komin í gamla farið sem fyrirfram er vitað að allir tapa á, ekki bara launamenn heldur allt samfélagið.