– Við tökum væntanlega helminginn af þakinu fyrir núna, þetta er vandasamt verk og seinlegt og því miður eru takmarkaðar fjárveitingar í svona verk í ár, segir Magnús sem hefur sinnt viðhaldi húsanna í Neðstakaupstað um nokkurt skeið. Húsin á þeim bletti eru meðal elstu húsa landsins og hefur þeim verið sýndur sómi með því að gera þau upp í upprunalegri mynd. Hýsa þau meðal annars sjóminjasafn staðarins, veitingahús og íbúðir. – Ástand þessa húss er ótrúlega gott miðað við aldur. Þakið sem ég er nú að lagfæra hefur gengið í gegnum ýmislegt en sem betur fer hafa allar þær breytingar sem gerðar hafa verið á því ekki skemmt upprunalega þakið sem nú á að endurgera, segir Magnús sem bersýnilega hefur gaman af því að við kljást við þenna gamla við. – Hér er hver spýta sem tekin er niður merkt, og ef skemmd kemur í ljós er hún lagfærð, og borðin svo sett á sinn stað. Þakið var neglt niður með handsmíðuðum nöglum sem við varðveitum og notum aftur, segir Magnús, og bætir við að menn verði að gefa sér tíma til að sinna svona verki, það þýði ekkert að ana að neinu.
Atvinnuástand ágæt
Magnús rekur eigið verkstæði á Ísafirði og segir atvinnuástand trésmiða ágætt þótt fátt sé um nýbyggingar á svæðinu þessa dagana. – Menn eru í viðhaldi og endurbótum. Sjálfur segist hann mest hafa verið að gera við báta, en sú vinna sé að mestu lögst af. Þó hefur hann unnið að viðgerð á stýrihúsinu á Sædísi, gömlum eikarbát sem sjóminjasafnið fékk að gjöf frá Bolungarvík.
Magnús segir gott að búa á Ísafirði. Veturinn og sumarið hafi farið einstaklega vel með Vestfirðinga og menn séu almennt sáttir. Hann segir að þörf sé á að skjóta fleiri stoðum undir vestfirskt atvinnulíf. – Eins og landsmenn vita þá snýst allt hér um sjávarútveg og því miður er ekki hægt að stóla á þá atvinnugrein, segir hann en bætir við að ýmis góð teikn séu á lofti og nefnir til dæmis að ferðamönnum fjölgi jafnt og þétt á Vestfjörðum. Þá sé ferðamannatímabilið að lengjast í báða enda, segir Magnús sem hefur nokkra reynslu af ferðamönnum þar sem hann og kona hans reka gistihús og byrjuðu nýlega með veitingahús í faktorshúsinu í Hæstakaupstað. Það hús keyptu þau hjón af bænum fyrir skemmstu og hefur Magnús gert það upp í upprunalegri mynd.
Það vantar stóriðju á Vestfirði
– Þetta er nú heldur aumt núorðið, við erum hér fimm karlar að snudda í viðhaldi á skipum, segja þeir Reynir Pétursson og Ingólfur Eyjólfsson starfsmenn Skipanausts, vélsmiðju sem varð til eftir að Skipasmíðastöð Marselíusar var tekin til gjaldþrotaskipta. Tíðindamaður blaðsins hitti þá um borð í togaranum Páli Pálssyni þar sem þeir voru að að lagfæra lessbúnað.
– Okkur vantar tilfinnanlega stóriðju hingað á Vestfirði. Okkar stóriðja, sjávarútvegurinn, er svo valtur að erfitt er að treysta á þá atvinnugrein, segir Reynir sem er gamall í hettunni í sínu fagi og man þá tíð þegar nóg var að gera í skipasmíði á Ísafirði, og segist sakna þeirra tíma. Ingólfur bætir við að þeir geti þó státað af því að hafa smíðað síðasta stálskipið sem smíðað var frá grunni á Íslandi, og vísar þá til þess þegar nb Brík BA 2. var smíðað á Ísafirði árið 2000.
Þeir félagar segja að í sumar hafi vinna glæðst og þó nokkuð hafi verið um eftirvinnu.
– Það fækkar stöðugt skipum hér og vinnslustöðum. Hagræðing hefur tekið öll völd, segir Reynir sem á erfitt með að skilja fyrir hverja er verið að hagræða. – Allavega ekki fyrir íbúana hér fyrir vestan, bætir hann við. Þrátt fyrir samdráttinn í sjávarútvegi eru þeir félagar sammála um að Vestfirðingar séu ekki með neinn barlóm. Mannlífið sé gott á Ísafirði og lítið um svartsýnisraus.
Frændur í málarabransanum
– Passaðu þig á málningarslettunni þarna, maður! Kallar vígalegur málari þegar tíðindamaður Samiðnarblaðsins bröltir upp vinnupalla við Hlíð, dvalarheimili aldraðra á Ísafirði, til að ná tali af málurum sem voru að störfum. Það var Guðmundur
– Við erum búnir að vera hér síðan í vor að mála Hlíð, og þetta eru rúmlega 3000 fermetrar sem eru undir hjá okkur. Auk þess erum við með verkefni í gangi við Menntaskólann hér. Guðmundur segir að þeir séu tveir frændur sem reki saman Málningaþjónustu Guðmundar og Gunnars.
– Við erum af mikilli málningarætt. Afi okkar var málarameistari og synir hans allir og nú er þriðji ættliðurinn tekin við penslum og rúllum. Afi byggði fjölbýlishús hér í bænum þar sem afkomendur hans bjuggu meira og minna saman og hefur æskuheimilið alla tíð verið kallað málarablokkin, segir Guðmundur, og undir þetta tekur Gunnar Sigurðsson sem nú er kominn niður á vinnupallinn og blandar sér í samtalið. Hann segir brosandi að fjölskylduboðin hafi alla tíð litast af umræðum um fagið. Gunnar segir að nú starfi um tíu manns hjá þeim félögum og sé athafnasvæði þeirra allar byggðirnar á norðanverðum Vestfjörðum að Bolungarvík undaskilinni.
Þeir félagar segja að tíðin í sumar hafi verið málurum afskaplega hliðholl. – Það hefur rignt fjórum sinnum síðan í mars og það merkilega er að það hefur bara rignt á nóttunni, segir Guðmundur. Þetta góða veður hefur orðið til þess að þeir félagar voru langt komnir með að mála Hlíð, verk sem átti að taka mun lengri tíma. Aðspurðir um verkefnin framundan sögðust þeir ekki kvíða neinu en viðurkenndu þó að ekkert stórt væri framundan enda ekkert um byggingarframkvæmdir á svæðinu. Þeir segja að yfir vetrartímann komi fyrir að þeir leiti sér vinnu á höfuðborgarsvæðinu og báðir höfðu þeir tekið þátt í Smáralindarævintýrinu á sínum tíma.
Vinnudagurinn langur yfir sumartímann
– Við þurfum nú ekki að kvarta yfir verkefnaskorti, allavega ekki yfir sumartímann. Þá vilja menn láta yfirfara bílana sína, og einnig er að sjálfsögðu nokkuð um að ferðamenn sem hér eiga leið um þurfi að láta lagfæra eitt og annað, segir Halldór Guðmundsson bifvélavirki hjá Bílatanga, sem rekur verkstæði og bílasölu á Ísafirði. Á Bílatanga þjónusta þeir Toyota-bifreiðar, bíla frá Ræsi og einnig Kiva-bifreiðar. Auk þess taki þeir að sjálfsögðu við öðrum bílum sem þarf að lagfæra. Halldór segir að þrír vinni á verkstæðinu og að vinnudagurinn sé langur yfir sumartímann. – Ég lauk sveinsprófi árið 1966 og hef verið í þessu síðan, lengst af hér á Ísafirði en einnig í Reykjavík þar sem ég tók sveinsprófið, og starfaði líka eitt ár hjá Volvoverksmiðjunum í Gautaborg. Það var mikil reynsla og skemmtileg, segir Halldór sem fékk að kynnast ýmsum verkum í verksmiðjunni þökk sé sveinsprófinu. – Ég skildi aldrei menn sem unnu þar ár eftir ár við sama hlutinn. Þannig fékk einn starfsmaður gullúr frá fyrirtækinu fyrir að hafa sett framrúður í bíla í fimmtíu ár! Halldór segir að mikil fjölbreytni sé í starfi bifvélavirkja á Ísafirði. – Þetta hefur að vísu breyst mikið. Hér áður fyrr þegar vegir voru eins og þvottabretti skemmdist pústkerfið mikið í bílum. Nú hefur annað tekið við, flóknari hlutir, segir Halldór sem viðurkennir að hann þurfi að fara að bæta við sína menntun til að geta fylgst með öllum þeim tækniframförum sem hafa orðið í bílaframleiðslu. – Ég verða að láta ungu mönnunum eftir að fást við tölvurnar, segir Halldór og glottir en er ákveðinn í að skella sér á endurmenntunarnámskeið fljótlega.
Nóg að gera hjá 3X-Stál
– 3X-Stál er stálsmiðja sem hefur sérhæft sig í að framleiða flæðilínur fyrir fyrirtæki í matvælaiðnaði, og við höfum einbeitt okkur að karalausnum eins og við köllum það. Það er að segja að leysa vanda við að flytja kör til og frá og tæma þau. Þetta hefur gengið vel. Velta fyrirtækisins hefur aukist jafnt og þétt frá því það hóf rekstur árið 1994, segir Jóhann Bæring Pálmason hjá 3X-Stál, en Jóhann Bæring er formaður Félags járniðnaðarmanna á Ísafirði.
Hann segir að hjá fyrirtækinu starfi um 30 manns á Ísafirði en auk þess á fyrirtækið tvö dótturfyrirtæki, annað í Garðabæ og hitt í Kanada og þangað er meginhluti framleiðslunnar seldur, eða um 70%. Einnig á 3X-stál Rennex sem er fyrirtæki með tölvurennibekk og smíðar renda og fræsta hluti fyrir 3X-stál og önnur fyrirtæki.
– Við eigum gott samstarf við sjávarútvegsfyrirtækin hér fyrir vestan. Þau hafa mörg hver tekið í notkun okkar framleiðslu og segja má að þau séu tilraunadýrin okkar! – Hér getum við prófað framleiðsluna og gert lagfæringar eftir þörfum, segir Jóhann Bæring, og sér enga vankanta á því að reka svona framleiðslufyrirtæki á landsbyggðinni. – Hér höfum við stöðugt vinnuafl, og starfsmannavelta er hugtak sem enginn þekkir hér, segir hann og er sjálfur afar sáttur við að búa á Ísafirði. Undir það tekur Jakob Ólafur Tryggvason, gjaldkeri Félags járniðnaðarmanna, sem er framleiðslustjóri hjá 3X-Stál.
Hann segir að mannlífið á Ísafirði sé gott og að barlómurinn sem einkenndi umræðuna um framtíð byggða fyrir vestan fyrir nokkrum árum heyrist varla lengur. Jakob segir að unnið sé hjá fyrirtækinu frá hálf-átta á morgnana til sex á kvöldin, og í allan vetur var einnig unnið á laugardögum.
– Í raun væri þörf á meiri mannskap sem því miður er ekki tiltækur ef marka má viðbrögð við atvinnuauglýsingu frá fyrirtækinu nýlega. Það bættist við stálsmiður sem kom að sunnan og ákvað að flytja hingað með fjölskylduna, segir Jakob og viðurkennir að hann hafi hálft í hvoru átt von á betri viðbrögðum við auglýsingunni.
– Vissulega eru erfiðleikar í sjávarútvegi og miklar sveiflur í þeirri atvinnugrein, og þetta hefur áhrif á mannlífið, en ég held að fólk hér um slóðir sé ákveðið í að vinna sig út úr þessu. Hér er ekkert atvinnuleysi. Það hefur reyndar verið haft á orði að Vestfirðingar verði ekki atvinnulausir, því ef ekki er atvinna til staðar flytjast þeir burt, segir Jakob. Hann bendir á að fjöldinn allur af útlendingum starfi á Vestfjörðum og samfara því sé mjög fjölskrúðugt mannlíf.
Jóhann Bæring segir að verulega hafi dregið úr atvinnu hjá málmiðnaðarmönnum á svæðinu undanfarin ár, en það helgist fyrst og fremst af því að dregið hefur úr togaraútgerð á Vestfjörðum. Þessi samdráttur hefur haft áhrif á starf Félags járniðnaðarmanna en í því eru nú um 35 félagar. – Hugmyndir voru uppi um að leggja félagið niður og ganga til liðs við Verk-vest, sem er sameiginlegt verkalýðsfélag hér á svæðinu, en þær hugmyndir voru kveðnar í kútinn í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna. Þess í stað höfum við tekið upp samstarf við Verk-vest um þjónustu og hefur félagið aðsetur hjá þeim á Pólgötunni, segir Jóhann og er ágætlega sáttur við þetta fyrirkomulag. Þeir félagar eru sammála um að bjart sé framundan bæði hjá fyrirtækinu sem þeir starfa hjá og hjá Vestfirðingum almennt.
Ílengdist á Patró
– Ég hef búið hér í 25 ár, kom að sunnan í heimsókn og til að vinna í fiski og hef verið hér síðan að undanskildum þeim árum sem við hjónin fórum suður til að læra, segir Sólrún Ólafsdóttir sem hefur um árabil snyrt hár Patreksfirðinga og annarra íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum.
– Ég hef innréttað hársnyrtistofu hérna í bílskúrnum við húsið okkar þannig að það er ekki langt að fara í vinnunna. Það er opið hálfan daginn, eftir hádegi, það dugar ágætlega, segir Sólrún. Hún á sína fastakúnna og segir Vestfirðinga álíka vanafasta í hársnyrtingu og aðra landsmenn. – Mér hefur alla tíð líkað vel hér og það sama er að segja um allt mitt fólk, börnin tvö sem eru í námi fyrir sunnan eru ákveðin að setjast hér að. Hér er gott mannlíf og hér þarf enginn að vera einmana eins og mér sýnast sumir vera í fjölmenninu fyrir sunnan, segir Sólrún sem greinilega nýtur lífsins á Patreksfirði og er virk í félagsstarfi, er meðal annars formaður Heiðakórs sem er blandaður kór fólks á Suðurfjörðunum. – Fólk er ekkert að víla fyrir sér hér um slóðir þótt það þurfi að hafa aðeins fyrir hlutunum. Við erum til dæmis með kórfélaga sem keyra 60 kílómetra frá Barðaströnd einu sinni í viku til Bíldudals á æfingar, og telja það ekkert eftir sér, segir Sólrún. Maður hennar stundar sjóinn á frystitogara frá Ísafirði og er í burtu í mánuð í senn. – Þetta venst. Eftir mánaðar útilegu kemur hann og er mánuð heima, og þótt ég sé ein í kotinu þá leiðist mér ekkert, það er alltaf nóg að gera.
Sólrún segir að mannlífið á Patreksfirði sé með ágætum. – Sjómannadagurinn er okkar stóra hátíð. Mér er til efs að hann sé haldinn með öðrum eins glæsibrag nokkurs staðar annars staðar á landinu. Þetta er þriggja daga hátíð og þá fyllist bærinn af fólki, brottfluttum sem og vinum og kunningjum. Á Patreksfirði er alltaf tilhlökkun þegar sjómannadagurinn nálgast, segir Sólrún sem nú má ekki tefja lengur þar sem viðskiptavinur er mættur á stofuna og honum þarf að sinna.
Draumurinn er að gera smiðjuna að lifandi safni
– Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta að þetta er eitt best varðveitta atvinnufyrirtæki á landinu sögulega séð. Hér má lesa sögu vélsmíði og málmsteypu nánast aftur til þess dags að þetta fyrirtæki var stofnað árið 1913. Enn eru í notkun verkfæri og áhöld sem keypt voru inn eða smíðuð þegar vélsmiðjan hóf rekstur, segir Kristján Gunnarsson núverandi eigandi Vélsmiðju Guðmundar Sigurðssonar á Þingeyri.
– Það hafa lengi verið uppi hugmyndir um að gera þessa smiðju að lifandi safni, þar sem fólk gæti kynnt sér vélsmíði og málmsteypu eins og hún var stunduð á Íslandi á síðustu öld. Ætlunin er að gera þetta að sjálfseignarstofnun og þegar hafa fengist styrkir til þess að ýta því úr vör, segir Kristján og nefnir að Vélstjórafélag Íslands og opinberir aðilar hafi stutt við bakið á honum í viðleitni hans til að láta þennan draum verða að veruleika.
– Það er mikið um að fólk líti hér við og vilji fá að skoða staðinn, og við reynum eftir bestu getu að sinna því. Það er augljóst að fólk hefur gaman af því að líta hér inn, sérstaklega eldra fólk, og karlmennirnir spyrja mikið – sérstaklega út í drifbúnaðinn. Hér eru allar vélar drifnar áfram af einum mótor þannig að mikið af reimum liggur um loft smiðjunnar, segir Kristján sem sjálfur lærði vélvirkjun í þessari merku smiðju á árum áður.
Smiðjuna stofnaði upphaflega Guðmundur J. Sigurðsson og heitir hún eftir honum, Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar & Co. Lengst af réð ríkjum í smiðjunni Matthías sonur hans sem kom inn í reksturinn eftir að hafa stundað nám í véltæknifræði við Tækniháskólann í Óðinsvéum í Danmörku árið 1937. Undir stjórn þeirra feðga varð vélsmiðjan landsþekkt fyrir þjónustu við fiskiskipaflotann. Í seinni heimsstyrjöldinni var mikið að gera því erfitt var að fá varahluti úti í hinni stríðshrjáðu Evrópu og þá urðu menn að bjarga sér. Þá kom málmsteypa sem hér var rekin sér, segir Kristján sem enn fæst við að steypa hluti úr málmi á staðnum.
– Við erum aðallega að steypa línuskífur og netaskífur, en á árum áður voru fjórir menn í föstu starfi við að steypa auk módelsmiða. Hér voru einnig framleiddir varahlutir í vélbúnað, og margt fleira, spil í báta, línuspil, dragnótarspil, stýrisvélar, blakkir og blakkarhjól voru framleidd hér í ýmsum stærðum, segir Kristján sem man þá tíð vel þegar smiðjan iðaði af athafnasemi.
– Nú er öldin önnur. Það er ekki lengur þörf fyrir mannmarga vélsmiðju á stað eins og Þingeyri. Hingað koma ekki erlendir togarar í tugatali eins og áður og frá Þingeyri er ekki lengur gerður út togari, segir Kristján en bætir við að í staðinn komi að nokkru leyti aukin störf við viðgerðir á bifreiðum og öðrum farartækjum.
Mikið stress í ágúst
Magnús Geir
– Við erum hér aðallega í innréttingasmíði, og nú erum við að smíða innréttingar í Menntaskólann í Kópavogi, segir Magnús Geir
– Það var okkar lukka þegar verktaki fyrir sunnan frétti af okkur og bað okkur að smíða innréttingar í stór verk sem hann var með. Síðan hefur orðspor okkar farið víðar og við höfum haft nóg að gera, segir Magnús og bætir við að þær séu orðnar nokkuð margar byggingarnar á höfuðborgarsvæðinu sem þeir hafi smíðað í innréttingar, nefnir ýmsa skóla og einnig Barnaspítala Hringsins.
– Það er ekkert mál að stunda svona smíði úti á landi. Hingað vestur eru góðar samgöngur. Nú erum við til dæmis tilbúnir með stóra sendingu af hurðum og körmum sem eiga að fara í Menntaskólann. Þessi pakki verður kominn í Kópavoginn klukkan átta í fyrramálið, segir hann og sýnir blaðamanni stoltur mikinn vörustafla á hlaðinu fyrir utan verkstæðið. Hjá Trésmiðjunni starfa tíu manns, átta á verkstæðinu en tveir í ýmsum verkefnum fyrir heimamenn. Magnús segir ekki mikið af smíðaverkefnum fyrir vestan en þó hafi þeir smíðað innréttingar í Safnahúsið á Ísafirði sem opnað var nýlega. – Það eru helst ýmis smáverk fyrir einstaklinga sem eru í gangi hér fyrir vestan, segir hann.
Magnús segist vera með tvo nema en hefur áhyggjur af endurnýjun í stéttinni. – Ég hef ekki skoðað þetta nákvæmlega en mér sýnist að endurnýjunin sé of hæg meðal trésmiða, segir hann. Magnús segist vera ágætlega tækjum búinn og geti í raun tekið að sér hvaða sérsmíði sem er. – Það versta við þetta allt er hvað maður fær stuttan tíma til að ljúka sínum verkum. Öll smíðin þarf að klárast fyrir 15. ágúst, það virðist vera sú dagsetning sem allt miðast við í byggingarbransanum núna, segir hann og bætir við að ekkert tillit sé tekið til þess að fólk sem starfar á verkstæðum vill líka fara í frí yfir hásumarið. Þá sé oft erfitt að útvega efni þar sem innflytjendur og framleiðendur taki sín sumarfrí yfir hásumarið. – Þetta er bara svona og hefur verið það lengi, þótt menn séu margoft búnir að reka sig á að hlutirnir þurfa lengri undirbúningstíma, segir Magnús en á þó ekki von á öðru en að honum takist að standa við allar skuldbindingar sínar fyrir 15 ágúst.
Verkmenntakerfið þarf að endurskoða
– Við þurfum ekki að kvarta hér, því við höfum haft yfirdrifið nóg að gera. Okkar helstu verkefni eru að þjónusta skipaflotann hérna og einnig stundum við viðgerðir á þungavinnuvélum, frysti- og glussakerfum. Hér starfa að jafnaði sex til sjö menn, segir Barði Sæmundsson verkstjóri hjá Vélsmiðjunni Loga á Patreksfirði. Vélsmiðjan Logi er snyrtileg smiðja þar sem menn leggja upp úr því að hafa vinnuumhverfið hreinlegt og aðlaðandi.
– Það er sæmilegt hljóð í okkur Patreksfirðingum. Þrátt fyrir að togararnir séu farnir hefur tekist að halda hér uppi nægri atvinnu, þökk sé minni vertíðarbátum og smábátaútgerð. Hér er að vísu allt stopp núna enda stutt í að nýtt kvótaár hefjist. Menn nota tímann vel til að yfirfara báta sína og gera á þeim þær lagfæringar sem þarf áður en menn leggjast aftur í róðra í byrjun september, segir Barði sem er eins og svo margir Vestfirðingar afar ósáttur við núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og einnig hvernig Vestfirðingar hafa haldið á sínum málum hvað það varðar. – Það voru mikil mistök þegar kvóti var settur á botnfiskveiðar, að hann skyldi ekki einnig vera settur á grálúðu og steinbít því þar voru Vestfirðingar með mikla veiðireynslu. Þegar kvótanum var komið á aðrar botnfisktegundir fóru útgerðarmenn um allt land að sækja í grálúðuna og steinbítinn og auðvitað endaði það með því að það varð að setja kvóta á þær veiðar líka. Þegar það var gert voru aðrir búnir að afla sér veiðireynslu og kvótinn dreifðist á fleiri í stað þess að við hefðum nánast setið einir að þessum aflaheimildum. Ef við hefðum haft vit á því að krefjast þess að kvóti yrði settur á þessar fisktegundir um leið og kvótinn var settur á aðrar botnfisktegundir stæðum við mun betur, segir Logi sem telur að allt tal um hagræðingu í sjávarútvegi snúist um hagsmuni annarra en íbúa á Vestfjörðum.
Barði hefur einnig ákveðnar skoðanir á verkmenntakerfinu. – Mín reynsla er sú að þeir sem eru að koma úr verkmenntaskólum núna séu engan veginn nægilega færir um að að takast á við verkefnin sem bíða þeirra til dæmis í smiðjum. Það skortir verulega, sýnist mér, á þá verklegu þjálfun sem nemum er boðin. Það er ekki nóg að kenna mönnum í málmiðngreinum að logsjóða sitjandi. Þegar út í atvinnulífið er komið þurfa menn að kunna að logsjóða sitjandi, standandi og liggjandi. Það þarf að efla samstarf atvinnulífsins og verkmenntaskólanna og búa svo um hnútana að nemendur fái raunverulega þjálfun á vinnustöðum áður en þeir útskrifast, segir Logi og leynir því ekki að hann saknar gömlu iðnskólanna sem finna mátti víða um land, þar á meðal á Patreksfirði. Hann segir jafnframt að sú staðreynd að ungt fólk þarf að yfirgefa heimabyggð sína til þess að ljúka iðnnámi hafi haft þær afleiðingar að unga fólkið flyst á brott. Þegar talið berst að framtíð sjávarútvegsplássanna á sunnanverðum Vestfjörðum segir Barði að menn séu sæmilega bjartsýnir. – Nú er í athugun að efna til kalkvinnslu á Bíldudal í samvinnu við írskt fyrirtæki og Björgun í Reykjavík. Ef af þessu verður, sem eru meiri líkur á en minni, þá verður það mikil lyftistöng fyrir allt svæðið, segir hann, og hrósar einnig útgerðarmönnum staðarins sem halda tryggð við sína heimabyggð bæði í löndun og þegar kemur að því að klassa upp skipin.