Sameining stéttarfélaga

FIT – Félag iðn- og tæknigreina tilbúið í slaginn

 

– Nýja félagið tók formlega til starfa 1. maí, á baráttudegi verkalýðsins. Þetta er stórt félag og verður öflugt, segir Hilmar Harðarson bifvélavirki sem var kjörinn formaður Félags iðn- og tæknigreina – FIT – á stofnfundi þess 12. apríl í vor.

Félagið varð til eftir að félagsmenn í Bíliðnafélaginu / Félagi blikksmiða, Málarafélagi Reykjavíkur, Félagi garðyrkjumanna, Sunniðn og Félagi byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði samþykktu að sameina félög sín í eitt stórt stéttarfélag.

– Það hefur lengi legið í loftinu að við þyrftum að hagræða í rekstri stéttarfélaga. Það hefur gengið yfir bylgja sameiningar á þeim vettvangi á undanförnum árum. Ein aðalhugmyndin á bak við sameininguna er að hagræða í þágu félagsmanna. Við erum þá ekki endilega að tala um að spara rekstrarkostnaðinn heldur frekar að nýta betur það rekstrarfé sem við höfum – bæta þjónustuna, segir Hilmar, og áréttar að sameiningin hafi verið samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í öllum félögunum.

– Við verðum ekki varir við annað en að félagsmenn séu almennt sáttir við þetta. Við höfum tekið eftir að þeir gleðjast yfir auknu framboði af orlofshúsum og einnig því að sjúkrasjóðurinn sem félagsmenn eiga aðgang er mun öflugri en þeir sjúkrasjóðir sem einstök félag höfðu áður yfir að ráða við greiðum 80% af launum til þeirra sem þurfa á greiðslum að halda úr sjóðnum.

Hilmar segir að stefnt sé að stofnun fagráða þar sem hver faghópur sinni sínum sérmálum. Í stjórn sitja níu og hefur hver faghópur þar minnst einn fulltrúa. Í trúnaðarráði sitja allir trúnaðarmenn félagsins,  ríflega eitt hundrað manns.

– Þessa dagana erum við að vinna að innra skipulagi félagsins. Það tekur tíma að móta starf svona félags. Við eigum aðild að Þjónustuskrifstofunni sem áður var rekin á Suðurlandsbraut 30 en er núna eins og við flutt í Borgartún 30. Við höfum gert samkomulag við Trésmiðafélag Reykjavíkur um náið samstarf en innan okkar raða eru trésmiðir sem áður voru félagar í Félagi byggingarmanna í Hafnarfirði og Sunniðn.

        Ég get ekki annað en verið bjartsýnn á framtíð félagsins. Auk mín erum við með tvo starfsmenn í hlutastarfi, einn hér í Borgartúninu og einn á Selfossi, segir Hilmar Harðarson, sem nú gegnir formennsku í stærsta félaginu innan Samiðnar.