Spjall við forystumenn Samiðnar, Finnbjörn Hermannsson og Örn Friðriksson, um kröfugerð iðnaðarmanna í viðræðum um nýja kjarasamninga
Treystum kaupmáttinn og atvinnustigið
Snemma í desember lagði samninganefnd Samiðnar fram kröfugerð félagsins vegna viðræðna um endurnýjun kjarasamningsins sem rennur út í lok janúar. Meginforsendur kröfugerðarinnar eru þær að viðhalda stöðugleikanum í efnahagslífinu, lágri verðbólgu, vaxandi kaupmætti og atvinnuleysi í lágmarki. Félögin sem Samiðn semur fyrir vilja að kaupmáttur launa hækki um 3% á ári í þau tvö ár sem samningurinn á að gilda.
Samiðnarblaðið hitti þá Finnbjörn Hermannsson, formann Samiðnar og Trésmiðafélags Reykjavíkur, og Örn Friðriksson, formann Félags járniðnaðarmanna, að máli skömmu eftir að þeir höfðu lagt kröfugerðina fram á fundi með forystumönnum Samtaka atvinnulífsins. Fyrsta spurningin til þeirra var hvort þeir ættu von á að samningsgerðin mundi ganga vel.
Örn: Það er í raun ekkert sem bendir til annars. Kröfur okkar eru skýrar og það er búið að reikna út hvað þær kosta svo þetta ættu fyrst og fremst að verða átök um tölur. Það gætu einnig orðið einhver átök um það grundvallaratriði sem við leggjum mikla áherslu á og snýst um að færa kauptaxtana nær greiddum launum. Það er í raun bara framhald af því sem gerðist í síðustu tveimur samningum en á þeim hefur verið sá hængur að eftir að búið er að minnka bilið í upphafi samningstímans kemur launaskriðið til sögunnar og eykur það aftur. Þess vegna hafa taxtarnir dregist aftur úr.
Finnbörn: Megineinkenni þessarar kröfugerðar eru þau að við erum að reyna að festa þann kaupmátt í sessi sem verið hefur á undanförnum árum þrátt fyrir að við höfum verið að dragast örlítið aftur úr þeim stéttum sem við miðum okkur helst við. Eina leiðin til að festa hann í sessi er að hækka lágmarkstaxtana. Við höfum ekki lagt eins mikla áherslu á þá og þurft hefði á síðustu árum vegna þess að við höfum ekki séð neina sérstaka ógn í því þótt bilið á milli þeirra og greiddra launa væri nokkuð mikið. Nú erum við farin að horfa framan í ógnina sem er í því fólgin að hingað er flutt inn erlent vinnuafl og sett á þessa lágmarkstaxta. Það leiðir beint til kaupmáttarrýrnunar hjá öðrum.
Örn: Já, það þrýstir laununum niður og getur leitt til atvinnuleysis hjá íslenskum iðnaðarmönnum því atvinnurekendur sjá enga ástæðu til að ráða þá til starfa á mun hærri launum en hægt er að fá útlenda menn til að vinna eftir. Þess vegna verðum við að strekkja öryggisnetið betur en verið hefur.
Tveggja ára samningur
Er þessi kröfugerð ekki í rökréttu framhaldi af því sem hefur verið að gerast í síðustu samningum?
Finnbjörn: Síðustu tveir samningar hafa verið til langs tíma, þriggja og fjögurra ára, en nú viljum við ekki semja til lengri tíma en tveggja ára. Undanfarin ár hefur ríkt stöðugleiki hér á landi en nú sjáum við ýmsar hættur framundan og þess vegna viljum við ekki binda okkur til of langs tíma. Það eru margir óvissuþættir í stöðunni og við þeim þurfum við að fá svör áður en við gerum langtímasamning.
Lífeyrismálin hafa verið töluvert í umræðunni. Þið gerið kröfur um bætt lífeyriskjör og fleiri réttindamál.
Örn: Já, í fyrsta lagi leggjum við mikið upp úr því að þetta 0,4% framlag í séreignasjóð haldi áfram og í öðru lagi viljum við ná einhverjum skrefum í því að samræma lífeyriskjörin sem gilda hjá okkur og hjá opinberum starfsmönnum. Einnig gerum við kröfur um aukin fjárframlög til símenntunar og viljum bæta aðstöðu félagsmanna til að sækja endurmenntun í vinnutíma. Í síðustu samningum fengu ýmsar starfsstéttir framlög úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að efla símenntun hjá sér en við fengum ekki neitt. Nú teljum við brýnt að við fáum slík framlög því þau skila sér aftur í hærra menntunarstigi sem hefur einnig jákvæð áhrif á atvinnustigið.
Þurfum skýrar reglur
Í kröfugerðinni er kafli um erlenda starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði. Þið viljið treysta regluverkið í kringum þá.
Finnbjörn: Já, við viljum að um þá gildi fastar reglur. Við erum síður en svo að amast við erlendum starfsmönnum og höfum engan áhuga á að loka landinu fyrir þeim. En okkur er mjög illa við að verið sé að misnota erlent vinnuafl með því að láta það vinna á undirboðum eða skjóta undan skattgreiðslum þess, ýmist með því að greiða fólki ekki laun hér á landi eða að gefa upp alltof stóran hluta launanna sem alls konar aukagreiðslur, flutningskostnað, fæðisgjöld og þess háttar. Þetta er auðvitað ekkert annað en svört atvinnustarfsemi.
Ef útlent fólk sem hingað kemur býr við sömu réttindi og kjör og við þá er það velkomið. Það er ekkert við það að sakast heldur beinum við spjótum okkar að atvinnurekendum sem eru að misnota þetta fólk. Það verður að halda uppi skráningu á þeim sem koma til landsins til að vinna, það þarf að liggja fyrir ráðningarsamningur svo hægt sé að fylgjast með því að fólki séu greidd mannsæmandi laun. Í þriðja lagi verður að liggja fyrir hvar fólkið á að búa vegna þess að aðbúnaðurinn getur verið æði misjafn. Þess eru dæmi að menn séu látnir búa í gámum utan við bæinn, sem er okkur ekki sæmandi. Fyrir okkur iðnaðarmenn verður að vera á hreinu hvaða réttindi menn hafa. Menn verða að leggja fram pappíra sem sýna að þeir búa yfir þeirri þekkingu sem þeir eru að selja. Ef þessu verður kippt í lag þá erum við reiðubúnir að skoða málin áfram.
Mikill samhljómur
Þessi kröfugerð er sameiginleg fyrir öll félögin sem eiga aðild að Samiðn. Eru engar sérkröfur einstakra félaga inni í myndinni?
Örn: Þær eru sárafáar. Við stóðum þannig að mótun kröfugerðarinnar að félögin fjölluðu um hana hvert fyrir sig og sendu sínar hugmyndir inn til aðalstjórnarinnar. Þá kom í ljós að það var ótrúlega mikill samhljómur í kröfunum. Vissulega eru einstök félög með mismunandi áherslur og einhver sérmál en það er samt furðu lítið og ekkert sem veldur vandamálum innbyrðis á milli okkar.
Finnbjörn: Megináherslan er á að halda kaupmættinum uppi og ná lágmarkstöxtunum upp og þess vegna varð það niðurstaðan að setja fram fáar og skýrar aðalkröfur en geyma sérkröfur til síðari tíma til þess að trufla ekki þessi mikilvægustu mál. Sem dæmi um samhljóminn má nefna að við hjá Trésmiðafélaginu höfum verið með vinnustaðafundi og hitt á þriðja hundrað félagsmenn á undanförnum vikum og það er alls staðar sama krafan.
Örn: Það er sömu sögu að segja af járniðnaðarmönnum, þeir vilja hífa taxtakaupið upp og tryggja atvinnuöryggið.
Gengur vonandi hratt að semja
Hvernig líst ykkur á framhaldið, verður þetta stutt og snörp samningalota eða langdregin og leiðinleg?
Finnbjörn: Ég veit það ekki. Það hefur verið uppsveifla í þjóðfélaginu sem ætti að auðvelda samningsgerðina en spurningin er til hverra hún nær. Það sem vekur okkur ótta um að þetta gæti dregist á langinn er að atvinnuástandið hefur ekki þróast eins og menn áttu von á. Það var á sínum tíma gerð mannaflaspá vegna framkvæmdanna fyrir austan og samkvæmt henni áttum við að ráða við framkvæmdirnar sjálf um þessar mundir en þyrftum að hefja innflutning á vinnuafli næsta sumar. Þetta hefur ekki gengið eftir því nú er komið mikið af erlendu vinnuafli inn í landið en atvinnuleysið í okkar röðum hefur farið vaxandi.
Á hinn bóginn held ég að það ríki ákveðinn skilningur hjá íslenskum fyrirtækjum á því að til þess að byggja upp iðnað hér á landi, svo ekki sé minnst á hátækniiðnað, þarf gott og vel menntað vinnuafl. Fyrirtækin lifa ekki lengi án þess. Það ætti því að vera sameiginlegt markmið okkar að stuðla að friði á vinnumarkaði.
Örn: Það ættu að vera allar forsendur fyrir því að geta í fyrsta sinn í sögunni náð kjarasamningi um leið og sá eldri rennur út. Það er góð afkoma hjá fyrirtækjunum og bjart framundan, auk þess sem kröfugerð okkar er hófleg og engan veginn út úr korti. Hins vegar getur sú staða komið upp að við þurfum að beita þrýstingi. Undir það verðum við að vera búnir.
Finnbjörn: Það er neyðarúrræði sem við höfum en eins og Örn bendir á erum við það tímanlega á ferðinni að það ætti alveg að ganga að semja fljótlega.
Nýr maður í Karphúsinu
Í framhaldi af þessu snerist talið að breyttum vinnubrögðum í kjarasamningum, þau hafi breyst með þjóðarsáttarsamningunum. Fyrir þá samninga voru settar fram kröfur um miklar kauphækkanir í mikilli verðbólgu og svo var oft skellt hurðum í Karphúsinu.
– Nú er okkur legið á hálsi fyrir að vera orðnir allt of hógværir og ábyrgir, segja þeir. Einnig benda þeir á að samningsstaðan sé orðin mikið breytt að því leyti að nú ákveði Seðlabankinn vaxtastigið og reyni að stýra gengisþróuninni og um það sé ekkert samið þótt það hafi gífurleg áhrif á lífskjörin í landinu.
Í lokin gat blaðamaður ekki stillt sig um að spyrja hvort þeir teldu að það hefði einhver áhrif á samningsgerðina að nú er kominn nýr húsbóndi í Karphúsið og það einn af höfundum þjóðarsáttarinnar, Ásmundur Stefánsson, fyrrum formaður Alþýðusambands Íslands.
Finnbjörn: Ég reikna með góðum og öguðum vinnubrögðum af hans hálfu en ekki því að hann sýni okkur neina miskunn.
Örn: Ég er mest hræddur við að hann nýti sér gamlan kunningsskap og þekkingu til að berja á okkur!