Stóriðjuáform á Austurlandi:

 Fjárfesting sem er ígildi 23 Smáralinda

 

Áformaðar stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi verða meðal hinna umfangsmestu sem ráðist hefur verið í á Íslandi til þessa. Heildarupphæð þessara fjárfestinga er áætluð um 230 milljarðar króna. Þar af verður fjárfesting vegna Kárahnjúkavirkjunar um 100 milljarðar og annað eins vegna byggingar álvers Alcoa á Reyðarfirði. Þá er talið að fjárfestingar í fjórðungnum í tengslum við þessa stóriðju verði um 30 milljarðar. Í erindi sem framkvæmdastjóri Þróunarstofu Austurlands, Elísabet Benediktsdóttir, hélt á ársfundi Vinnumálastofnunar fyrir skömmu um margfeldisáhrif þessara framkvæmda kom meðal annars fram að þessir 230 milljarðar jafngilda 23 Smáralindum, slaga hátt í árstekjur ríkissjóðs, jafngilda skatttekjum sveitarfélaga á Austurlandi í 80 ár og eru álíka og árstekjur Síldarvinnslunnar í 57 ár. Gert er ráð fyrir 4000 ársverkum við byggingu virkjunarinnar og tilheyrandi flutningsvirkja, eða fjórum sinnum Blönduvirkjun. Þróunarstofa Austurlands telur að 30% verði heimamenn, tímabundið aðflutt vinnuafl verði 3%, erlendir starfsmenn 15% og innlendir starfsmenn í vinnubúðum um 52% á framkvæmdatímanum. Hins vegar er gert ráð fyrir að 33 störf verði við rekstur, viðhald og þjónustu við Kárahnjúkavirkun að byggingartíma loknum.

Þrátt fyrir að formleg ákvörðun hafi ekki enn verið tekin um þessar stóriðjuframkvæmdir hafa menn þegar hafist handa við undirbúning þeirra, meðal annars við gerð Kárahnjúkavegar, gerð nokkurra vegslóða og lagningu rafstrengja. Þetta er liður í undirbúningi Landsvirkjunar til þess að helstu verkþættir, svo sem við byggingu Kárahnjúkastíflu og gröftur aðrennslisganga, geti hafist á útmánuðum á næsta ári. Í byrjun september var brotið blað í þessum áformum þegar Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra veitti leyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun.

 

Í fullan rekstur árið 2007

 

Gert er ráð fyrir að framkvæmdum vegna þessara stóriðju verði lokið árið 2008. Áætlað er að bygging Kárahnjúkavirkjunar taki þrjú og hálft ár og verða lokið undir árslok 2006. Söfnun vatns í miðlunarlón hefst nokkru áður en stíflubyggingum lýkur. Stefnt er að því að framkvæmdir við stöðvarhús að meðtöldum aðkomugöngum og frárennsli hefjist næsta haust og að uppsetning véla og rafbúnaðar byrji í árslok 2004. Þá er gert ráð fyrir að vatni verði hleypt til prófunar á fyrstu vélasamstæðurnar í ársbyrjun 2007 og fyrsta afhending rafmagns geti hafist í apríl sama ár. Landsvirkjun stefnir svo að því að virkjunin verði komin í fullan rekstur í september á því ári. Í áætlunum sínum leggur fyrirtækið áherslu á að í framkvæmdum á hennar vegum verði gætt að öryggi og heilsu starfsfólks og að áhrif framkvæmdanna á umhverfið verði í lágmarki. Í þeim efnum verður lögð   áhersla á að fylgt verði umhverfisstefnu Landsvirkjunar við virkjunarframkvæmdir, og verktökum að auki gert skylt að beita viðurkenndu stjórnunarkerfi fyrir öryggis- og umhverfismál.

 

500 ársstörf til framtíðar í áli

 

Áætlað er að 2000 ársverk þurfi við byggingu álversins í Reyðarfirði sem talin er munu kosta um 100 milljarða króna. Þegar álverið verður komið í fullan rekstur er talið að það muni skapa 500 störf til framtíðar. Samkvæmt mati Þróunarstofu Austurlands skiptast þau störf þannig að ófaglærðir starfsmenn verða 30, störf sem krefjast iðn- og fjölbrautarnáms verða 360, tæknimenntuð störf verða 66, störf fyrir háskólamenntaða tæknimenn verða 25 og störf sem krefjast háskólamenntunar verða 19. Samhliða starfsemi álversins verða til 325 afleidd störf á Austurlandi og 500 afleidd störf annars staðar á landinu.

Samhliða þessum stóriðjuáformum er talið að það þurfi að byggja 705 nýjar íbúðir á Austurlandi og 14 þúsund fermetra atvinnuhúsnæði. Jafnframt er talið nauðsynlegt að ráðast í gerð jarðganga á svæðinu og byggja nýja höfn fyrir álverið auk vegagerðar. Þróunarstofa Austurlands telur að við gerð jarðganga muni skapast 190 ársverk, 490 ársverk vegna byggingar nýs atvinnuhúsnæðis og 1300 ársverk vegna byggingar íbúðarhúsnæðis. Þá gætu afleidd störf þessu tengd verið um 400. Þróunarstofan telur jafnframt að hlutur heimamanna við byggingu álversins verði um 15% af áætluðum ársverkum, aðflutt tímabundið vinnuafl verði 15%, erlendir starfsmenn um 30% og innlendir starfsmenn í vinnubúðum á framkvæmdatímanum um 40%. Samtals er gert ráð fyrir að fjárfestingar samhliða þessum stóriðjuframkvæmdum verði um 30 milljarðar króna.

 

Áleitið umhugsunarefni

 

Mjög skiptar skoðanir eru meðal landsmanna um þessi áform stjórnvalda og hafa umhverfisverndarsinnar gagnrýnt þau harðlega. Aðrir hafa lýst yfir stuðningi við þessa stefnu. Þá hafa væntanlegar stóriðjuframkvæmdir verið kynntar fyrir verkalýðsfélögum, meðal annars með vettvangsferð á væntanlegt virkjanasvæði og með sérstöku kynningarriti frá Landsvirkjun. Stefnt er að því að Kárahnjúkavirkjun verði um 630 MW að afli. Þar með verður hún langöflugasta og stærsta virkjun landsins. Búrfellsvirkjun sem hingað til hefur verið stærst er hins vegar aðeins um 270 MW.

Finnbjörn A. Hermannsson formaður Samiðnar segir að sér lítist ágætlega á þessi stóriðjuáform. Hann gerir þó athugasemdir við að ætlunin sé að nýta jafnmikla orku og stefnt sé að fyrir aðeins eina atvinnugrein, þ.e. áliðnað. Hann segir að það sé áleitið umhugsunarefni sem menn verða að velta fyrir sér með tilliti til orkunýtingar við uppbyggingu annarra atvinnutækifæra og mannfrekari. Í því sambandi vekur hann athygli á því að frekar fá störf skapist til framtíðar með þessari stóriðju miðað við það fjármagn sem ætlað er að verja til að koma henni á laggirnar. Hins vegar sé engin launung á því að  þessar stórframkvæmdir verði mikil lyftistöng fyrir atvinnustig iðnaðarmanna og raunar fyrir allt efnahagslífið á meðan þær standa yfir. Ljóst sé að flytja verði inn eitthvað af erlendu vinnuafli í tengslum við þær. Þess utan megi búast við því að þessar framkvæmdir hafi í för með sér tímabundna þenslu í efnahagslífinu. Síðast en ekki síst sé ljóst að menn   staldra aðeins við umhverfisþáttinn í tengslum við þessi stóriðjuáform. Finnbjörn segir að í þeim efnum verði menn að vega það og meta hverju sé fórnandi í umhverfismálum fyrir efnahagslega ávinninga. Einhverju verði þó að fórna í því sambandi ef menn ætla sér að búa áfram í þessu landi. Hann segir að töluvert hafi verið rætt um þessi stóriðjuáform og hugsanleg áhrif þeirra framkvæmda á umhverfi hálendisins innan Samiðnar. Ekki hefur enn verið tekin nein formleg afstaða til þessara mála innan vébanda sambandsins. Finnbjörn segir að menn vilji skoða þessi mál í víðu samhengi með tilliti til þess hvernig best sé að búa í haginn til framtíðar í efnahagslífi landsmanna. Í þeim efnum sé hins vegar ekki vænlegt að hafa öll eggin í sömu körfunni.

190 metra há stífla

 

Í kynningarriti sem Landsvirkjun hefur tekið saman um Kárahnjúkavirkjun kemur meðal annars fram að þarna verða virkjaðar í einni virkjun jökulsárnar Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal. Virkjað rennsli verður um 126 rúmmetrar á sekúndu og meðalorkugetan um 4.450 GWst á ári. Í aðalatriðum verður tilhögun framkvæmda hagað þannig að Jökulsá á Dal verður stífluð með svonefndri Kárahnjúkastíflu nærri syðri enda Hafrahvammagljúfra við Fremri Kárahnjúk. Sú stífla myndar ásamt tveimur minni stíflum, Desjarárstíflu í drögum austanvert undir Fremri Kárahnjúk og Sauðárdalsstíflu í dalverpi að vestanverðu, miðlunarlónið Hálslón. Vatnsyfirborð við fullt lón verður í 625 metra hæð yfir sjávarmáli. Áætlað er að lónið nái inn að jaðri Brúarjökuls og verði alls um 57 ferkílómetrar að stærð.

Kárahnjúkastífla er langstærst þessara stíflna eða 190 metra há. Til samanburðar er Hallgrímskirkja rúmlega 70 metra há. Þessi grjótstífla verður 750 metra löng með steypta þéttikápu á vatnshlið. Desjarárstífla verður hins vegar mun lægri en lengri, eða 60 metra há og 900 metra löng. Þótt Sauðárdalsstífla verði minnst á hæðina, aðeins 25 metra há verður hún um 1100 metra löng. Báðar þessar síðastnefndu stíflur verða hefðbundnar grjót- og malarstíflur með miðlægan þéttikjarna úr jarðvegi. Þá verður akbraut á brún allra stíflanna þriggja.

Í áætlunum Landsvirkjunar er gert ráð fyrir að Jökulsá á Dal verði veitt framhjá Kárahnjúkastíflu á meðan framkvæmdir við stíflugerðina standa yfir. Það verður gert með því að veita ánni um tvenn jarðgöng undir stíflugrunninn í vestri gljúfurveggnum. Öðrum göngunum verður síðan lokað en hin nýtast sem botnrás undir stífluna. Yfirfallsvatni úr Hálslóni verður svo veitt í Hafrahvammagljúfur. Það verður gert þannig að ofan við vesturenda Kárahnjúkastíflu verður yfirfallsskurður þar sem sjálft yfirfallið, sem verður um 140 metra langt, liggur að skurðinum lónmegin. Frá yfirfallsskurðinum liggja um 500 metra löng jarðgöng undir stífluendann. Þau opnast svo út í 150 metra langa yfirfallsrennu sem liggur fram á gljúfurbarminn. Þaðan steypist vatnið síðan niður í Hafrahvammagljúfur í 90–100 metra háum fossi.

 

Lón upp að Eyjabakkafossi

 

Í áætlunum Landsvirkjunar er gert ráð fyrir að Jökulsá í Fljótsdal verði stífluð norðan votlendisins á Eyjabökkum og austur af Hafursárufs, eða um 2 km neðan Eyjabakkafoss. Við það myndast um 1 ferkílómetra stórt lón sem nefnist Ufsarlón. Vatnsyfirborð þess verður jafnhátt yfir sjávarmáli og í Hálslóni þegar það er fullt, eða í 625 metra hæð. Í þeirri stöðu nær lónið upp í Eyjabakkafoss. Ufsarstífla verður um 32 metra há og 675 metra löng grjót- og malarstífla með miðlægum þéttikjarna með yfirfalli og botnrás.

 

1450 metra löng stífla

 

Þá verður þremur þverám austan við Jökulás í Fljótsdal í Múla og Hraunum, þ.e. Kelduá, Grjótá og Innri Sauðá ásamt útrennsli úr Sauðárvatni, veitt í Ufsarlón. Það nefnist Hraunaveita. Hluti vatnsvega þessarar veitu, eða 3,75 km verða jarðgöng. Þau verða grafin og sprengd með hefðbundnum hætti. Langstærsta stíflan í Hraunaveitu verður stíflan við Kelduá, eða alls um 25 metra há og 1450 metra löng. Hún verður einnig hefðbundin grjót- og malarstífla með miðlægum þéttikjarna úr jarðvegi. Með tilkomu hennar myndast 8 ferkílómetra stórt miðlunarlón sem m.a. mun ná yfir Folavatn. Önnur lón og stíflur verða mun minni.

 

Margra kílómetra löng aðrennslisgöng

 

Alls verða til um þrjár milljónir rúmmetra af efni við gerð aðrennslis- og fallganga í tengslum við gerð Kárahnjúkavirkjunar. Efnið verður meðal annars nýtt í vegi og fyllingar eftir því sem hagkvæmt þykir og heppilegt. Mestum hluta af því verður þó komið fyrir í haugum skammt frá munnum aðkomuganganna sem verða þrenn og í lónstæðinu við gangainntakið úr Hálsalóni.

Úr Hálslóni verður vatninu veitt um jarðgöng, aðrennslisgöng. Þau eiga að liggja undir svonefnda Tungu milli Glúmsstaðadals og Þuríðardals. Þaðan áfram undir Fljótsdalsheiði að gangamótum undir veitugöng úr Ufsarlóni nokkru suðaustan við Þrælaháls. Þaðan liggja ein göng norðaustur heiðina út í Teigsbjarg, nokkra km innan við Valþjófsstað. Með þessu fyrirkomulagi verður hægt að miðla rennsli beggja jökulánna í Hálslón.

Göngin frá Hálslóni að Teigsbjargi verða um 40 km löng. Því til viðbótar verða ríflega 13 km löng göng úr Ufsarlóni. Göngin frá Hálslóni verða um 7 metrar í þvermál og heilboruð að verulegum hluta. Göngin frá Ufsarlóni verða um 5,5 metrar að þvermáli og einnig heilboruð að miklu leyti. Aðkoma inn í göngin verður frá fjórum stöðum, þ.e. frá Hálslóni, úr Glúmsstaðadal, við Axará og í Teigsbjargi. Frá aðrennslisgöngunum í Teigsbjargi verða tvenn um 400 metra löng fallgöng að stöðvarhúsinu. Húsið verður neðanjarðar, eða um 800 metra inni í bjarginu. Sjálf fallgöngin verða stálfóðruð, um 3,5 metrar í þvermál og greinast neðst að aflvélum virkjunarinnar.

 

Gríðarstórt stöðvarhús

 

Stöðvarhúsið við Kárahnjúkavirkjun verður um 115 metra langt, 14 metrar á breiddina og nær hæst í 34 metra hæð. Í stöðinni verða sex vélasamstæður með tilheyrandi búnaði. Uppsett afl hreyflanna, sem verða af Francis-gerð, er um 630 MW. Við hlið stöðvarhússins verður byggður 100 metra langur spennasalur. Hann verður 13 metra breiður og um 16 metra hár. Þar verða aðalspennar virkjunarinnar þar sem rafmagnið verður spennt upp í 245 KW.

Aðkoma að stöðvarhúsinu og spennasal verður um 800 metra jarðgöng. Þau eiga að liggja úr Fljótsdal, Norðurdal, um 2 km innan við Valþjófsdal. Framan við aðkomugöngin verður byggð þjónustubygging þar sem stjórnstöðin verður meðal annars og aðstaða fyrir starfsmenn virkjunarinnar. Frá spennahellinum liggja svo sérstök strengjagöng að tengivirkishúsinu sem verður skammt innan við þjónustubygginguna. Frá stöðinni verður vatninu svo veitt um frárennslisgöng sem opnast út í Fljótsdal. Frá gangamunnanum verður grafinn frárennslisskurður út í farveg Jökulsár í Fljótsdal austur undan Valþjófsstað þar sem áin verður í 26,5 metra hæð yfir sjó.

 

Kárahnjúkavirkjun tengd við byggðalínu

 

Kárahnjúkavirkjun verður tengd raforkukerfi landsins um byggðalínu um tengivirki. Það verður sett niður um 80 metra innan við aðkomugöngin að stöðvarhúsi virkjunarinnar. Byggðalínan verður sveigð af Fljótdalsheiði fram á Teigsbjarg og að tengivirkinu. Frá því á síðan að liggja jarðstrengur yfir Fljótsdal og tengjast byggðalínu austanmegin í dalnum. Tvær háspennulínur liggja síðan frá tengivirkinu að álverinu í Reyðarfirði.