Úr skilaboðaskjóðu formannsins

Allir komnir úr fríum og haustið framundan. Vonandi hafið þið haft það gott í sumar og eruð tilbúin undir haustverkin. Kjarasamningar lausir í byrjun árs og því nóg að gera við að undirbúa kröfugerðar. Uppgjörstími síðustu fjögurra ára. Hvernig hefur kaupmáttur haldist út samningstímann? Hvernig hefur okkar fólk haldið kaupmætti miðað við aðra þjóðfélagshópa? Hvernig er atvinnuástandið framundan? Hvað er að gerast með innflutning vinnuafls til Kárahnjúkavirkjunar? Hvað annað brennur á fólki?

Barnafólk kom fyrr úr fríum þar sem búið er að stytta sumarleyfistímann hjá grunnskólabörnum. Mikið hefur verið spurt um það hvernig verkalýðshreyfingin ætlar að bregðast við styttingu skólaársins. Þetta þrengir augljóslega tímabil þeirra sem eru með börn á skólaaldri. Við þessu þarf að bregðast.

Það er líka oft sagt á vinnustöðum sem undirritaður kemur á að nú verðum við ekki fyrstir til að semja. Nú bíðum við eftir hinum og semjum síðastir. Semjum um það sem aðrir hafa fengið og bætum síðan við eins og opinberir starfsmenn hafa gert í  samningum undanfarið. Sjónarmið út af fyrir sig – en ég held að við verðum að nálgast þetta mál öðruvísi en að allir fari að bíða eftir öllum. Það er vel skiljanlegt að okkar fólk horfi til samninga opinberra starfsmanna þar sem sumir hópar þeirra hafa hækkað umtalsvert meira en á almennum markaði.

 

Lífeyrisréttindi verða gerólík

 

Það er einnig horft til lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna því ef við fáum ekki sambærilegar hækkanir og þeir munu lífskjör þegar kemur að lífeyristöku verða gerólík. Opinberir starfsmenn með allan sinn lífeyrisrétt margfaldan á við almennan markað og auk þess ríkistryggðan og við hin með 5,5% minna framlag frá atvinnurekanda og háð ávöxtun okkar lífeyrissjóða. Þetta verður að leiðrétta í komandi samningum ef það á að haldast vinnufriður.

Við getum væntanlega ekki samið um það í kjarasamningum að „svæfingarlæknarnir“ sem hafa tekið að sér að þvæla samráðsmáli olíufélaganna fram yfir fyrningu saka í kerfinu láti af þeim ljóta leik. Þrátt fyrir að það sé auðséð að með slíku samráði er verið að ráðast á lífskjör í landinu. En við getum brugðist við öðrum furðuleik. Því miður virðast Samtök atvinnulífsins hafa tekið stöðu með ítalska fyrirtækinu Impregilo sem við fyrstu sýn virðist ætla að fylla hér allt upp af erlendu vinnuafli á smánarlaunum, hunsa íslenskt vinnuafl, virða öryggismál að vettugi og bjóða vægast sagt slakan aðbúnað. Það er verið að gera íslensk fyrirtæki ósamkeppnishæf nema þau eigi að leika sama leik og færa okkur marga áratugi aftur í tímann í þróun. Það er með ólíkindum að þau fyrirtæki sem standa að Samtökum atvinnulífsins skuli láta þetta viðgangast. Hér eiga verktakafyrirtæki og launafólk sameiginlegra hagsmuna að gæta. Ef ekki verður búið að koma aðbúnaðarmálum, launamálum og réttindamálum þeirra manna sem eiga að vinna iðnaðarmannavinnu við virkjunina í viðunandi horf þegar almennir samningar renna út verður ekki gengið frá neinum samningum án átaka.

 

Iðnaðarmenn sitja eftir

 

Eins og fram kemur í grein Stefáns Úlfarssonar hér í blaðinu hafa iðnaðarmenn borið heldur minna úr býtum en aðrir þjóðfélagshópar. Þrátt fyrir það hefur kaupmáttur verið að aukast nú á samningstímanum. En maður spyr hvaða viðmið á að taka í næstu samningum. Við horfum upp á fjármagnseigendur gera á milli 10 og 20% arðsemiskröfur á fé sem lagt er í fyrirtæki. Geta þau einnig staðið undir svipuðum launahækkunum á ári? Ólíklegt. Við gerum þær kröfur til okkar sjálfra að við setjum fram raunhæfar launakröfur sem fyrirtækin geta staðið undir þannig að ekki verði hróflað við stöðugleika efnahagslífsins. Við hljótum að gera slíkar kröfur einnig til annarra, hvort sem þeir tilheyra bankakerfinu, opinbera geiranum eða sveitarfélögum og ríkisvaldi. Því miður þurfum við nú að ganga þannig frá hnútunum að okkar fólk sitji ekki enn einu sinni eftir með svartapétur.

Við þurfum einnig að skoða kauptaxtakerfið upp á nýtt. Það er að koma í bakið á okkur að hafa skráða taxta svona lága. Ég tel að við eigum að skoða mjög alvarlega að sleppa öllum kauptöxtum úr samningum. Þeir eru núna notaðir til að verja lág laun erlendra starfsmanna. Kauptaxtarnir eiga að vera skráðir í vinnustaðasamningum og þá þau raunlaun sem launamenn eru á hver um sig. Það hefur verið í lögum nú um nokkurra ára skeið að gera skal ráðningarsamning við hvern þann sem ræður sig í vinnu til fyrirtækis.

Ég tel að komandi kjarasamningar verði frekar flóknir. Eins og ég hef rakið að framan er ýmislegt sem við Samiðnarfólk þurfum að huga að og móta kröfugerð um. ASÍ var með mikla vinnu í vor um velferðarmál. Það þarf að fylgja henni eftir í komandi kjarasamningum. Einnig þarf að skoða ýmis samfélagsmál sem annars fá ekki framgang. Síðan erum við í þeirri einkennilegu stöðu að ríkisstjórnarflokkarnir hafa boðað að þeir ætli að selja okkur eitthvað af kosningaloforðum sínum í komandi kjarasamningum.

Eitt verða menn að muna. Forysta verkalýðshreyfingarinnar fer ekki fram með kröfur nema hinn almenni félagsmaður styðji við hana. Á hausti komanda verða haldnir fjölmargir vinnustaða- og félagsfundir. Nú er um að gera að láta heyra í sér og brýna forystuna til góðra verka.