– segir Súsanna Björg Vilhjálmsdóttir, formaður Félags hársnyrtisveina, um kjaraviðræðurnar
Súsanna Björg Vilhjálmsdóttir, formaður Félags hársnyrtisveina, kvaðst ekkert alltof bjartsýn á að vel gengi að semja. „Þessi uppákoma fyrir jólin þegar þingmenn ákváðu að bæta lífeyrisréttindi sín hleypti illu blóði í fólk. Við erum búin að reyna að semja um það árum saman að fá sömu lífeyrisréttindi og opinberir starfsmenn en ekkert hefur gengið og svo gerist þetta,“ sagði hún í spjalli við Samiðnarblaðið um yfirstandandi kjaraviðræður.
Súsanna var sammála þeim Erni Friðrikssyni og Finnbirni Hermannssyni um nauðsyn þess að hækka grunnlaunin þótt ástæðurnar væru dálítið aðrar.
„Það er mjög brýnt að hækka grunnlaunin. Eina leiðin sem fólk hefur séð til að hækka í launum hefur verið að gerast gerviverktakar en það er viðsjárverð leið. Þegar dæmið er reiknað til enda er niðurstaðan oft sú að raunveruleg laun eru undir taxta, í það minnsta ef menn vilja taka sumarfrí. Það getur gengið að ná hærri launum með mikilli vinnu en þá eykst álagið og sú spurning hlýtur að vakna hvort ekki sé bara rétt að stíga skrefið til fulls og stofna eigin stofu. Á því hafa ekki allir áhuga því margir félagsmenn okkar kjósa frekar að vera launamenn og þess vegna þarf að hækka taxtana.
Við þurfum einnig að ná árangri í því að tryggja stöðu þeirra félagsmanna sem eru á prósentulaunum, þ.e. halda eftir ákveðnu hlutfalli af innkomu. Í samningunum stendur að þetta fólk eigi sama rétt í veikindum og til að taka orlof og aðrir en á því hefur verið nokkur misbrestur. Sumar stofur standa sig vel og fara að samningum en aðrar ekki. Þessi ákvæði þarf því að styrkja.
Það er tilhneiging til þess að ýta æ fleirum út í að gera persónulega samninga við atvinnurekendur sem getur reynst hættulegt. Ungt og óreynt fólk áttar sig oft ekki á því að það sé að semja af sér réttindin en vaknar svo upp við vondan draum – það fær engin laun í sumarleyfi eða þarf að berjast fyrir að halda launum ef það veikist, eins og það sé ekki nóg að glíma við veikindin. Það þarf að upplýsa fólk betur um réttindi sín svo það geti staðið í svona samningagerð,“ sagði Súsanna Björg Vilhjálmsdóttir.