Þorbjörn Guðmundsson stjórnarmaður sem á sæti stjórn sjóðsins, segir að til þess að fá hæft fólk til að stýra daglegum rekstri sjóðsins þarf að greiða laun sem taka mið launagreiðslum í fjármálageiranum á Íslandi.
Mikil reiði hefur gripið um sig meðal sjóðfélaga Sameinaða lífeyrissjóðsins vegna viðbótarsamnings sem kom í ljós þegar samið var um starfslok framkvæmdastjóra sjóðsins nýverið. Viðbótarsamningurinn kvað á um lengingu á biðlaunum úr 6 mánuðum í 24 mánaða starfslokagreiðslu til framkvæmdastjórans.
– Við skiljum vel þá reiði sem þessi frétt hefur valdið meðal sjóðfélaga. Sú reiði á fullan rétt á sér. Sjóðfélagar eiga rétt á því að launakjör þeirra manna sem fara með stjórn lífeyrissjóðanna séu uppi á borðinu og þar sé ekkert sem getur orkað tvímælis, segir Þorbjörn Guðmundsson stjórnarmaður í Sameinaða lífeyrissjóðnum. Hann gegndi stjórnarformennsku hjá sjóðnum þegar ákveðið var að semja um starfslok framkvæmdastjórans.
– Þegar afkoma sjóðsins var borin saman við afkomu sambærilegra sjóða varð ljóst að afkoman var ekki nægilega góð. Framkvæmdastjóri sjóðsins ber ábyrgð á daglegum rekstri hans, þar með talið á ávöxtuninni. Vegna þess að ekki hafði náðst viðunandi árangur á því sviði var ákveðið að semja við hann um að hverfa frá störfum, segir Þorbjörn. Samstaða hafi verið um þetta í stjórn sjóðsins.
– Það er vandasamara fyrir fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar í stjórnum lífeyrissjóðanna að fallast á þau kjör sem farið er fram á við stjórnun en fyrir fulltrúa atvinnurekenda. Til þess að fá hæft fólk til að stýra daglegum rekstri sjóðanna þarf að greiða laun sem taka mið af launagreiðslum í fjármálageiranum á Íslandi. Þessi kjör eru miklu líkari ráðningarkjörum stjórnenda fyrirtækjanna og eru ekki í neinu samræmi við þau kjör sem almennir launamenn búa við. Sjóðfélögum svíður að stjórnendum skuli vera boðið upp á launakjör sem eru í hrópandi ósamræmi við þeirra eigin kjör og geta ekki skilið að þeir sem hæst hafa launin þurfi einnig bestu starfslokaákvæðin, segir Þorbjörn.
– Það skiptir hins vegar miklu máli fyrir lífeyrissjóði að hafa við stjórnvölinn fólk sem þekkir fjármálamarkaðinn bæði innanlands og utanlands og er í góðum tengslum við markaðinn. Því miður er það svo að mikil eftirspurn er eftir hæfu fólki á þessu sviði og launakjörin bera keim af því að það er slegist um gott fólk með yfirgripsmikla þekkingu á fjármálamarkaðnum. Lífeyrissjóðir sem velta milljörðum króna á ári hverju þurfa að keppa við aðrar fjármálastofnanir um þetta fólk og bjóða því sambærileg kjör og þar eru við lýði, segir Þorbjörn og bendir á að í upprunalegum ráðningarsamningi framkvæmdastjóra Sameinaða lífeyrissjóðsins hafi verið tekið mið af launakjörum aðstoðabankastjóra viðskiptabankana. Hann segist geta fullyrt að þar beri nú nokkuð á milli og þar halli á launakjör framkvæmdastjórans. Ennfremur sé algengt að yfirmenn hafi kaupréttarákvæði sem gefi í mörgum tilfellum mikla möguleika til viðbótar starfslokaákvæðum.
– Það eru fyrst og fremst starfslokaákvæði samningsins sem valda reiði hjá launafólki og menn spyrja sig eðlilega hvers vegna vel menntaður framkvæmdastjóri þarf að vera með mikið betri starfslokaákvæði en iðnaðarmaður. Gefur aukin menntun ekki aukin tækifæri?
– Það er eins og þeir menn sem gerðu ráðningarsamninginn á sínum tíma hafi ekki gert sér ljós þau viðbrögð sem samningurinn mundi valda og kannski álitu menn að aldrei mundi reyna á þau ákvæði sem nú valda þessum titringi. Gagnrýnin sem sjóðurinn hefur setið undir hefur verið miklu harðari frá launamönnum, sem sætta sig illa við þessa niðurstöðu. Hins vegar hefur heyrst minna frá atvinnurekendum og kannski er ástæðan sú að þar á bæ þekkja menn til svona samninga, segir Þorbjörn.
Hann lýsir mikilli ánægju sinni með að fjármáleftirlitið hefur sett skýrar reglur um upplýsingar um launakjör framkvæmdastjóra og stjórna lífeyrisjóða. Þær eiga meðal annars að tryggja að öll laun og og hlunnindi séu tilgreind í árskýrslum lífeyrissjóðanna.
– Þessar reglur gera það að verkum að nú eru launakjörin tilgreind sérstaklega á nafni viðkomandi en ekki bara sem hluti af launakostnaði.
Engu leynt
– Það hefur aldrei verið markmið stjórnarinnar að fara leynt með launakjör framkvæmdastjóra og hún taldi að þau væru öll upp á borðinu. Hvað varðar laun stjórnar þá eru þau samþykkt á ársfundum sjóðsins á hverju ári og hafa því alltaf legið ljós fyrir. Þessar nýju reglur eru skýrari um ábyrgð í þessum efnum, sem er mikilvægt.
– Stjórn sjóðsins hefur jafnframt óskað eftir því að innra eftirlit sjóðsins móti nýjar starfsreglur sem fylgja á þegar kemur að ráðningu framkvæmdastjóra sjóðsins. Við höfum þegar ákveðið að öll stjórn sjóðsins fjallar framvegis um ráðningarkjör framkvæmdastjóra, segir Þorbjörn sem hefur staðið í ströngu undanfarnar vikur við að gera grein fyrir þessu máli á fundum í aðildarfélögum Sameinaða lífeyrissjóðsins.
Öflugt bakland
– Ef hægt er að tala um eitthvað jákvætt við þetta mál er það helst hvað sjóðurinn á öflugt bakland sem stjórnin sækir umboð sitt til, og það hefur látið til sín taka í þessu máli. Menn hafa rætt þetta á fjölda funda. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í fulltrúaráði sjóðsins hafa komið saman og farið yfir málið, segir Þorbjörn, en neitar því ekki að það hafi skaðað ímynd sjóðsins.
– Menn hafa verið óvægnir í umfjöllun sinni, sem er eðlilegt. Sumir andstæðingar þeirrar skipunar sem við búum við í lífeyrismálum hafa einnig nýtt tækifærið og reynt að sverta lífeyrissjóðina sjálfa í framhaldi af þessu máli, segir Þorbjörn sem vonar að hinar nýju reglur sem nú eru í undirbúningi komi í veg fyrir að þetta mál endurtaki sig.
Þorbjörn segir að núverandi stjórn hafi eingöngu gert samkomulag um að framkvæmdastjórinn léti af störfum og fullnustað ráðningarsamning sem gerður hafi verið við hann fyrir mörgum árum.
Þorbjörn leggur áherslu á að framundan séu spennandi verkefni í tengslum við hugsanlega sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Það var samþykkt tillaga á ársfundinum um að ganga til viðræðna um sameiningu og kanna kosti og kalla. Það ætti að liggja fyrir strax eftir sumarfrí hvort við teljum það vænlegan kost. Með sameiningu yrði til stærsti lífeyrissjóður landsins og sameiningin gæti átt sér stað um næstu áramót. Þorbjörn leggur áherslu á mikilvægi þess að við drögum ekki ágreininginn um starfslokin með okkur í sameiningarvinnuna því þá værum við að fórna framtíðarhagsmunum sjóðsins.