Alls staðar glímt við sama drauginn

Fólk frá austurhluta Evrópu flykkist til vesturs í leit að tækifærum og betra lífi en lendir oft í höndum svindlara. Verkalýðsfélögin sitja uppi með vandann

Í dymbilvikunni féll sögulegur dómur í Danmörku. Þar var fyrirtæki í fyrsta sinn dæmt í Vinnudómstólnum til að greiða sekt og bætur til pólskra iðnaðarmanna sem ráðnir höfðu verið með ólöglegum hætti til vinnu í Danmörku. Samtök danskra byggingarmanna fögnuðu þessum dómi ákaflega og sögðu hann marka tímamót því í honum fælust skýr skilaboð um að félagsleg undirboð yrðu ekki liðin í Danmörku.

Málið snerist um Danann Ole Thuesen sem fjallað var um í síðasta tölublaði Samiðnarblaðsins. Hann rak fyrirtækið Biomax sem skráð var í Póllandi en tók að sér húsbyggingar og viðhaldsverkefni í Danmörku. Þangað voru sendir pólskir smiðir sem fengu greidd laun sem voru langt undir dönskum kjarasamningum. Samtök byggingarmanna gengu í málið og eftir alllangt þóf skrifaði Ole undir samning sem kvað á um eðlileg laun. Þann samning hélt hann aldrei og því var hann kærður fyrir Vinnudómstólnum.
Í málinu var Biomax dæmt til að greiða fjórum Pólverjum vangreidd laun að upphæð 3,6 milljónir íslenskra króna og að auki sekt sem nemur rúmlega 60.000 krónum. Á þessum peningum ber fyrirtækinu að standa skil í byrjun apríl.
Þetta mál sýnir að það er víðar en á Íslandi sem fyrirtæki ráða erlenda starfsmenn og reyna að komast hjá því að greiða þeim umsamin laun fyrir vinnu sína. Þegar litið er yfir fréttablöð og heimasíður norrænu iðnaðarmannasamtakanna sést að þetta er alls staðar mál málanna. Fólk frá Eystrasaltsríkjunum – Eistlandi, Lettlandi, Litháen, frá Póllandi og öðrum ríkjum gömlu Austur-Evrópu flykkist til vesturs í leit að atvinnu og betri kjörum en í boði eru heimafyrir og hitta oftar en ekki fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem ekki víla fyrir sér að misnota stöðu þessa fólks og hafa það að féþúfu.

Frumskógur fyrirtækja

Mál Oles Thuesens er bara eitt af mörgum sem upp hafa komið í Danmörku og snerta erlenda verkamenn. Misjafnlega gengur hjá stéttarfélögunum að taka á þessum málum því þegar vinsamleg tilmæli duga ekki hafa félögin ekki í annað hús að venda en að siga lögreglu á viðkomandi atvinnurekanda. Lögreglan hefur hins vegar verið treg í taumi. Hún krefst áþreifanlegra sannana sem oft er erfitt að afla og svo kvarta félögin undan því að meðferð svona máls taki langan tíma hjá yfirvöldum. Oft er verkinu lokið og allir farnir heim þegar lögreglan lýkur sér af.
Annað vandamál sem félögin glíma við er að reglur eru að mörgu leyti óskýrar og túlkun þeirra á reiki. Í sumum tilvikum eru óprúttnir atvinnurekendur að verki eins og dæmið af tíu Litháum sem vinna við húsbyggingar í Danmörku sýnir glöggt.
Litháarnir eru formlega séð starfsmenn litháska fyrirtækisins UAB Marsijas sem leigir þá til fyrirtækis í Óðinsvéum. Svo vill til að forstjóri beggja fyrirtækja er sá sami, Peder Sørensen. Fyrirtækið í Óðinsvéum framleigir svo Litháana til verktakafyrirtækisins Verner Sørensen. Þessir útlendu verkamenn sneru sér til samtaka danskra byggingamanna, TIB, þegar þeir komust að því að kjarasamningar sem þeir höfðu gert stóðust ekki, og launin bárust þeim að auki seint og illa. Þeim hafði verið lofað 80 dönskum krónum á tímann (840 ísl. kr.) en þegar þeir voru byrjaðir að vinna reyndust þeir komnir í akkorð sem skilaði þeim einungis 30–40 dönskum krónum á tímann.
TIB leitaði til lögreglunnar sem var öll af vilja gerð að hjálpa Litháunum. Vandinn er hins vegar sá að litháska fyrirtækið segir mennina vera útsenda starfsmenn í þjónustustarfi. Samkvæmt lögum ber félaginu að gera kjarasamning við fyrirtækið í Litháen. Þar stendur hnífurinn í kúnni því Peder Sørensen finnst ekki og danska verktakafyrirtækið segist ekki hafa neitt með kjaramál Litháanna að gera. Því er TIB ekki sammála og segir að Litháarnir séu ráðnir til ákveðinna starfa í Danmörku og þeir þurfi því að fá dvalar- og atvinnuleyfi sem þeir hafa ekki.

Lettarnir í Vaxholm

Í Svíþjóð hafa komið upp fjölmörg mál sem varða útlent starfsfólk frá löndum Austur-Evrópu. Það sem hefur verið einna mest í fréttum undanfarin misseri snýst um skólabyggingu í bænum Vaxholm en bæjarstjórnin samdi við lettneska verktakafyrirtækið Laval un Partneris að undangengnu útboði þar sem fyrirtækið átti lægsta boð. Fyrirtækið sendi hóp af lettneskum iðnaðarmönnum til Vaxholm og sagðist greiða þeim tæplega 120.000 íslenskar krónur á mánuði fyrir 40 stunda vinnuviku.
Brátt fór að kvisast út að ekki væri allt sem sýndist með launagreiðslur fyrirtækisins. Samtök sænskra byggingarmanna, Byggnad, setti sig í samband við starfsmennina og komst brátt að því fyrirtækið var með tvöfalt bókhald. Annars vegar sýndi það sænskum yfirvöldum launaseðla með áðurnefndri upphæð. Hins vegar fengu starfsmenn annan seðil sem þeir sýndu lettneskum skattayfirvöldum og voru á þeim miklu lægri upphæðir.
Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að lettnesku seðlarnir sýndu rétt laun. Einn Lettanna sýndi launaseðla þar sem fram kom að hann hafði fengið um 70.000 krónur eftir tveggja mánaða starf, fyrir skatta. Vinnuvikan var 56 tímar og aðbúnaður slæmur. Lettarnir bjuggu í fjögurra manna herbergjum þar sem 30 manns höfðu aðgang að einu salerni og tveim sturtum. Maturinn sem þeir fengu var einhæfur, pasta upp á hvern dag og beiðni um kjöt var hafnað á þeim forsendum að það væri svo dýrt í Svíþjóð.
Þegar þetta var komið fram í dagsljósið mættu fulltrúar Byggnads á vinnusvæðið og stöðvuðu framkvæmdir. Lettneska fyrirtækið kærði en Vinnudómstóllinn kvað upp þann úrskurð að aðgerðir félagsins væru lögmætar. Þær stóðu í rúma þrjá mánuði meðan málið þvældist fyrir dómstólum. Á endanum gáfust Lettarnir upp og sögðu sig frá verkinu. Verkamennirnir eiga enn inni hjá fyrirtækinu töluverð laun og bæjarstjórnin í Vaxholm ætlar að krefjast bóta fyrir samningssvik og tafir á framkvæmdum.
Þetta mál hefur borið hæst í fréttum en í Svíþjóð eru útlendir verkamenn um allt land og margir þeirra starfa sem gerviverktakar, einkum við húsbyggingar fyrir einstaklinga en einnig við stærri framkvæmdir. Þeir vinna gjarnan fyrir 15–50 sænskar krónur á tímann (130–430 íslenskar krónur) og það er útseldur taxti!

Tekist á um tilskipun

Það er í sjálfu sér ekki undarlegt að fólk frá hinum nýju aðildarríkjum Evrópusambandsins leiti til vesturs því heimafyrir ríkir víða mikið atvinnuleysi, auk þess sem launin fyrir þau störf sem þó fást eru ekki nema brot af því sem hér tíðkast. Frá Noregi bárust þær fréttir síðastliðið sumar að þarlent fyrirtæki greiddi pólskum smiðum laun sem voru innan við helmingur þeirra launa sem norskir kollegar þeirra fengu. Samt voru laun Pólverjanna þrefalt hærri en þeim stóðu til boða í heimalandinu. Algengt er að þeir vinni langan vinnudag sex og jafnvel sjö daga vikunnar án þess að fá greidda yfirvinnutaxta.
Raunar hafa kannanir sýnt að norsk fyrirtæki eru ekki ýkja ginnkeypt fyrir því að ráða útlenda starfsmenn. Hins vegar hefur fyrirtækjum með aðalstöðvar í Eystrasaltslöndunum og Póllandi snarfjölgað í norskum byggingariðnaði. Norsk skattayfirvöld greina frá því að fjöldinn hafi fimmfaldast frá 1. maí í fyrra. Þá voru þau 49 en nú eru þau orðin 250. Á sama tíma hefur starfsmönnum frá þessum löndum fjölgað um rúmlega helming, úr 1.700 í yfir 4.000.
Norsk verkalýðshreyfing er mjög upptekin af tilskipun sem Evrópusambandið hefur boðað en hún snertir þjónustustarfsemi í allri álfunni og er kennd við Bolkenstein sem er einn af framkvæmdastjórum ESB. Samkvæmt þeim drögum sem birt hafa verið er ætlunin að ryðja úr vegi öllum tálmum sem nú standa í vegi fyrir frjálsum flutningi þjónustu milli landa. Það sem mestum titringi hefur valdið er að í drögunum er gert ráð fyrir því að fyrirtæki geti selt þjónustu sína í öðru landi og að um það gildi reglur heimalandsins. Að vísu er tekið fram að fyrirtækin eigi að veita starfsfólki sínu svipuð kjör og starfsréttindi og gilda í landinu þar sem þjónustan er innt af hendi. Gallinn er hins vegar sá að eftirlitið með því að þetta sé gert er í höndum stjórnvalda í heimalandi fyrirtækisins.
Þetta hafa menn sagt að jafngildi heimboði til fyrirtækja í Austur-Evrópu um að senda ódýrt vinnuafl vestur á bóginn og grafa þannig undan launakjörum sem stéttarfélög hafa samið um. Ýmis teikn eru á lofti um að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sé þegar lögð á flótta með umdeildustu ákvæði tilskipunarinnar, ekki síst vegna þess hversu illa þeim var tekið í Þýskalandi og raunar víðar í álfunni. Evrópsk verkalýðshreyfing hefur líka beitt sér gegn þessari tilskipun. Skömmu fyrir páska gengu 50 þúsund manns um götur Brusselar og mótmæltu henni. Það er því enn óvíst hvað verður um þessa tilskipun.