– Tilraunaverkefni á vegum Mímis-símenntunar hefst í vélvirkjun
Tilraunaverkefni eru snar þáttur í starfsemi Mímis-símenntunar og eitt þeirra verkefna sem skólinn hefur fengið styrk úr Starfsmenntasjóði til þess að hrinda í framkvæmd kallast „Bættu um betur“. Það miðar að því að fá iðnaðarmenn sem á sínum tíma hófu iðnnám en luku því ekki til þess að taka upp þráðinn og klára sveinsprófið.
Þeir sem halda utan um þetta verkefni eru Haukur Harðarson verkefnastjóri hjá Mími-símenntun og Gylfi Einarsson framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar málmiðnaðarins. Þeir sögðu Samiðnarblaðinu frá því að nú í október verði auglýst eftir fyrstu nemendunum sem væntanlega hefja nám í haust. Ákveðið var að byrja á þeim sem hófu nám í vélvirkjun án þess að ljúka því en gangi tilraunin vel ætla þeir að snúa sér að fólki úr öðrum iðngreinum.
„Við fórum á stúfana og ræddum við menn í atvinnulífi og skólakerfi og þótt ekki séu til neinar tölur um brottfall vélvirkjanema teljum við okkur vita að um er að ræða töluvert fjölmennan hóp sem hefur farið langt í námi án þess að ljúka því. Þeir hafa hins vegar margir tengsl við greinina og vinna sem ófaglærðir án þess að njóta faglegrar viðurkenningar. Þeir fá ekki sömu launahækkanir og iðnaðarmenn og eiga litla von um framgang í starfi. Á samdráttartímum eru það þessir menn sem fyrst er sagt upp og nú þegar fyrirtækin þurfa að uppfylla vaxandi kröfur um gæði og stöðlun verða þeir illa úti,“ segja þeir Haukur og Gylfi.
Færnin metin
Hugmyndin er sú að þeir sem vilja taka þessu tilboði byrji á því að fara í viðtal við námsráðgjafa. Síðan geta þeir fengið kunnáttu sína og þekkingu metna og framhaldið ræðst af því sem út úr matinu kemur.
„Sumir þurfa ekki að setjast á skólabekk heldur geta farið beint í sveinsprófið en það verða allir að taka. Aðrir geta þurft að bæta við sig einhverjum fögum, til dæmis bóklegum greinum. Það felst ekki í þessu neinn afsláttur af hefðbundnu iðnnámi heldur eru gerðar sömu kröfur og þar,“ leggja þeir áherslu á.
Ástæður þess að menn flosna upp úr námi segja þeir vera margvíslegar.
Algengast er kannski að menn „detti í vinnu“, það er freistist til að taka sér hlé frá námi til að rétta við fjárhaginn og hafa sig svo ekki í að snúa aftur í skólann. Einnig er til í dæminu að mönnum gangi illa í einstökum bóklegum fögum þótt þeir séu úrvals handverksmenn. Enn aðrir eiga við að stríða lesblindu eða aðra námsörðugleika. Í tilraunaverkefninu er reiknað með því að þeir sem þannig er ástatt um fái stuðning og ráðgjöf til þess að yfirstíga erfiðleika sína.
„Meginhugsunin með verkefninu er að ná til þessa hóps, meta færni manna, óháð því hvernig hennar hefur verið aflað, og hjálpa þeim að ljúka við það sem út af stendur. Tilgangurinn er ekki síst sá að styrkja starfsmenntakerfið og veitir nú ekki af því,“ segja Haukur og Gylfi.
Auk Mímis-símenntunar standa að þessu verkefni ýmsar fræðslustofnanir atvinnulífsins, að ógleymdum Borgarholtsskóla. Búast má við að stór hluti námsins fari þar fram en einnig verður kennt víðar. Fyrirspurnir eru þegar farnar að berast og verður hægt að taka við 20 nemendum í haust. Sjálfsagt er að hvetja lesendur Samiðnarblaðsins sem vita af starfsfélögum sem gætu haft gagn af þessu námi til að hnippa í þá og benda þeim á að hafa samband við Hauk hjá Mími-símenntun (sími 580 1800, netfang haukur@mimir.is), eða Gylfa hjá Fræðslumiðstöð málmiðnaðarins (sími 590 6410, netfang gylfiein@metal.is).