Í haust ákváðu tólf félög sveina og meistara í byggingariðnaði að kanna hverjir það eru sem sinna störfum iðnaðarmanna á höfuðborgarsvæðinu. Sérstakur starfsmaður fékk það verkefni að fylgjast með vinnustöðunum og heimsótti hann 107 staði á þremur mánuðum. Niðurstaðan er sú að íslenskir iðnaðarmenn eru í tæplega tveimur þriðju hlutum þeirra starfa sem vernduð eru samkvæmt iðnaðarlöggjöfinni en rúmlega þriðjungur er ýmist ófaglært íslenskt verkafólk eða útlendir starfsmenn sem fæstir geta sýnt fram á iðnréttindi.
Á vinnustöðunum sem starfsmaðurinn heimsótti störfuðu tæplega 800 manns sem áætlað er að sé 12–15% af vinnuafli í byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu. Séu niðurstöður eftirlitsins yfirfærðar á alla greinina eru þar að störfum 4.200 íslenskir iðnaðarmenn, 1.560 ófaglærðir íslenskir starfsmenn og 750 erlendir starfsmenn. Af þeim síðastnefndu hefur einungis tíundi hluti gert grein fyrir menntun sinni. Hinir verða því að skoðast sem ófaglærðir starfsmenn sem ganga í störf iðnaðarmanna.
Ástandið er nokkuð misjafnt eftir iðngreinum. Múrverk, málun og húsasmíði fylgja meðaltalinu nokkurn veginn en í pípulögn og dúklögn starfa engir útlendingar. Í blikksmíði eru tölurnar hins vegar þær að innan við helmingur starfsmanna, 45,7%, er íslenskir iðnaðarmenn, fjórðungur, 25,7%, er útlendingar og 28,6% ófaglærðir íslenskir starfsmenn. Þangað sóttu erlendir starfsmenn fyrst og ljóst er að iðnaðarmenn hafa misst töluverða markaðshlutdeild í blikksmíði.
Í skýrslu félaganna til félagsmálaráðherra, sem afhent var í lok febrúar, kemur fram að könnunin náði ekki til ráðningarsambands eða starfskjara sem í gildi voru á vinnustöðunum 107. Hins vegar er tekið fram að félögin hafi haldgóða vissu fyrir því að milli 250 og 300 erlendir starfsmenn séu í kolsvartri vinnu í íslenskum byggingariðnaði og er þá átt við menn sem hvorki hafa dvalar- né atvinnuleyfi. Samtals eru því um 1.000 útlendir starfsmenn í byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu og einungis örlítið brot þeirra með iðnréttindi.
Félögin sem standa að vinnustaðaeftirlitinu eru: Félag veggfóðrara og dúklagningasveina, Félag dúklagninga- og veggfóðrarameistara í Reykjavík, Sveinafélag pípulagningamanna, Félag pípulagningameistara, Múrarafélag Reykjavíkur, Múrarameistarafélag Reykjavíkur, Félag iðn- og tæknigreina, Málarameistarafélagið, Iðnsveinafélag Suðurnesja, Meistarafélag byggingamanna Suðurnesjum, Meistarafélag húsasmiða og Trésmiðafélag Reykjavíkur.