– Fjölbreytt starfsemi og sívaxandi framboð af námskeiðum í tungumálum, menningu, tómstundaiðju, auk félagsmálafræðslu og starfstengdra námskeiða
Mímir-símenntun er nú að hefja fjórða starfsár sitt undir því heiti en að sjálfsögðu stendur skólinn á gömlum merg, annars vegar í fræðslustarfsemi verkalýðshreyfingarinnar og hins vegar í starfsemi mála- og tómstundaskóla.
Þessir þættir gera honum kleift að takast á við ný verkefni en eins og fram hefur komið í fréttum tókust nú í haust samningar milli Mímis-símenntunar og Reykjavíkurborgar um að taka að sér námskeið í íslensku fyrir útlendinga sem hingað til hafa verið á dagskrá Námsflokka Reykjavíkur.
Blaðamaður Samiðnarblaðsins hitti að máli Huldu Ólafsdóttur framkvæmdastjóra Mímis-símenntunar og Hauk Harðarson verkefnisstjóra sem hefur haft hvað mest með félagsmálafræðslu skólans að gera. Hulda var fyrst beðin að segja frá tildrögum samningsins við Reykjavíkurborg.
– Reykjavíkurborg lét kanna markaðinn og komst að því að fyrir utan Námsflokkana hefði Mímir-símenntun mikla reynslu af svona kennslu Við erum þau einu sem getum tekið þetta stóra verkefni að okkur með litlum fyrirvara..
Við erum auk þess með samning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem skuldbindur okkur til að halda uppi ákveðnum gæðastaðli. Ætli það hafi ekki verið þetta sem þeim leist best á.
Skyldunám í íslensku?
Samningurinn er til þriggja ára og kveður á um að Mímir-símenntun taki að sér kennslu allt að 700 nemenda á ári. En hvernig verður kostnaðinum af þessu námi dreift?
– Samningurinn nær til þeirra sem búa í Reykjavík og borgin niðurgreiðir um það bil helming námskeiðsgjaldsins hjá þeim. Aðrir þurfa að greiða fullt gjald sem er 44.000 krónur Þetta gerir okkur dálítið erfitt fyrir því nemendur okkar koma af öllu höfuðborgarsvæðinu. Við höfum leitað til annarra sveitarfélaga á svæðinu og spurt hvort þau séu reiðubúin að taka þátt í að niðurgreiða námskeiðin hér eða taka þau til sín en svör hafa ekki borist við því, enda stutt síðan skrifað var undir.
Til þess að fá varanlegt búsetuleyfi á Íslandi þurfa útlendingar að sækja íslenskunámskeið í 150 kennslustundir eða sýna fram á sambærilega kunnáttu í málinu. Hins vegar setti dómsmálaráðuneytið þessa kröfu fram á sínum tíma án þess að tryggja fjármagn til að kenna fólkinu. Það er því ekki á hreinu hver á að standa straum af íslenskunámi útlendinga, segir Hulda.
– Ennþá verra, segir Hulda, – er að ríkið hefur ekki skilgreint þetta nám.
Eru þessir 150 tímar miðaðir við Norðmann sem hingað kemur og getur náð sér sæmilega á strik í íslenskunni á tiltölulega skömmum tíma eða er miðað við fólk frá Taílandi eða þar um slóðir sem þarf að byrja á því að læra nýtt stafróf? Því nægja engan veginn 150 kennslustundir til þess að ná tökum á málinu. Ég veit að það var skipuð nefnd til að skilgreina þetta nám og hún skilaði af sér í sumar. Málið er því í höndum dómsmálaráðuneytisins og skýrist vonandi innan tíðar.
Við getum hins vegar boðið upp á þetta nám því námskeiðin okkar eru 50 kennslustundir og nemendur geta tekið allt að fimm slík námskeið, segir Hulda.
Tvískipt félagsmálafræðsla
– Félagsmálafræðslunni má skipta í tvennt, segir Haukur Harðarson. – Annarsvegar er um að ræða nám fyrir trúnaðarmenn stéttarfélaganna og hins vegar nám fyrir almenna félagsmenn. Samkvæmt þjónustusamningi við Félagsmálaskóla alþýðu sér Mímir-símenntun að mestu leyti um framkvæmd fræðslu fyrir trúnaðarmenn en félagsmálaskólinn markar stefnuna og tengingu við stéttarfélögin. Við höldum þessi hefðbundnu trúnaðarmannanámskeið og þá eru það stéttarfélögin sem panta námskeið fyrir sína menn. Við erum með nokkrar nýjungar í því starfi. Ein þeirra er það sem við köllum færnimöppu, en hún miðar að því að draga fram færni hvers einstaklings, óháð því hvernig hann hefur náð í hana. Við erum alltaf að kenna meira og meira um samskipti enda eru þau mikilvæg í öllu starfi trúnaðarmannsins. Aðrar nýjungar eru námskeið um skipuleg vinnubrögð, uppbyggingu launaseðla og útreikninga tengda launum.
– Menningar- og fræðslusamband alþýðu hefur endurnýjað handbók trúnaðarmannsins sem byggist að verulegu leyti upp á gátlistum til að auðvelda trúnaðarmönnum starfið. Námið er svo að mestu leyti byggt upp á verklegum æfingum þar sem við setjum upp dæmi um verkefni sem fólk gengur í að leysa. Þegar þessu grunnnámi lýkur standa fólki til boða styttri námskeið um einstaka þætti. Til dæmis er boðið upp á námskeið í hagfræði og lögfræði fyrir þá sem starfa í samninganefndum félaganna. Þetta gagnast raunar ekki síður trúnaðarmönnum því í síðustu kjarasamningum hefur orðið sú þróun að æ fleiri þáttum er vísað til vinnustaðarins. Við það eykst álagið á trúnaðarmenn og til þeirra eru gerðar meiri kröfur en áður og það sama gildir reyndar um stjórnendur fyrirtækjanna.
– Hinn hluti félagsmálafræðslunnar eru námskeið fyrir almenna félagsmenn í stéttarfélögunum. Þar erum við að kenna fólki að fara í launa- og starfsmannaviðtöl, og að takast á við breytingar, svo sem við sameiningu fyrirtækja og þegar fólk skiptir um starf. Launa- og starfsmannaviðtöl eru að verða hluti af vinnuumhverfinu og kannanir VR hafa sýnt að þau skila árangri. Undirbúningur er mikilvægur þáttur í þeim árangri.
– Svo má nefna námskeið sem hjálpa fólki að draga fram eigin færni, kenna sjálfseflingu, þjálfa framsögn og aðstoða fólk að takast á við starfslok, segir Haukur.
Jarðlagnir og lesblinda
Enn má lengja upptalningu þess sem Mímir-símenntun fæst við og Hulda nefnir til sögunnar starfsnámskeið og starfstengd námskeið sem oft eru haldin að beiðni ákveðinna fyrirtækja eða félagasamtaka og í samráði við þau. Hún tekur sem dæmi 300 stunda námskeið í jarðlagnatækni en það var sett saman í samráði við orku- og veitufyrirtæki, Símann, gatnamálastjórann í Reykjavík og Eflingu-stéttarfélag.
– Þetta er ætlað þeim sem starfa meðal annars í skurðunum. Það veitir engin bein réttindi en styrkir stöðu fólks á vinnumarkaði. Við erum einnig með starfstengd námskeið, svo sem sjálfsstyrkingarnámskeið, námskeið fyrir lesblinda og fleira af því tagi. Fræðslusjóðir stéttarfélaganna hafa verið mjög duglegir að styrkja félagsmenn sína til þátttöku í þessum námskeiðum, segir Hulda.
– Lesblindan, – á henni hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir sem sýna að hún er útbreiddari en menn töldu. Nú er talað um að allt að 15% fólks sé haldið lesblindu á einhverju stigi og það er ekki eingöngu fólk án menntunar sem svo er ástatt um. Margir hafa lokið námi, bæði bóklegu og verklegu, þrátt fyrir lesblindu. Þetta þýðir að meðal iðnaðarmanna eru margir sem eiga við þetta að stríða og þess vegna reynum við að hafa þessi námskeið alltaf í gangi.
Málanámskeiðin sívinsæl
En meðal almennings er Mímir-símenntun sennilega þekktastur fyrir almenn tómstunda-, menningar- og málanámskeið. Hvað er nýtt á ferðinni þar?
– Við reynum að viðhalda ákveðinni festu í framboðinu en bryddum líka upp á nýjungum. Helmingurinn af almennu námskeiðahaldi eru tungumálanámskeið, enda er það lífsstíll hjá mörgum að læra tungumál. Enska, spænska og ítalska eru vinsælustu málin og margir læra þau hjá okkur árum saman. Einnig ber nokkuð á því að fólk vilji læra norrænu málin, ekki síst framámenn í verkalýðshreyfingunni sem taka þátt í norrænu samstarfi.
– Við reynum að þróa málanámskeiðin og ein af nýjungunum þar er kennsla í fagmáli bifvélavirkja. Þeir eru alltaf að fá nýjungar í hendur og mikið flóð af upplýsingum um bíla- og tækninýjungar í þeirri grein þýðir að þeir þurfa sífellt að kunna skil á tæknihugtökum á ensku.
– Af öðrum nýjungum má nefna námskeið sem nefnist „Í blíðu og stríðu – ræktun parsambanda“ sem Jóna Ingibjörg Jónsdóttir kennir. Draumar fyrr og nú nefnist námskeið sem Björg Bjarnadóttir kennir og fleira mætti nefna. En svo eru sígild námskeið sem njóta vaxandi vinsælda, og þar má nefna námskeið Jóhönnu Kristjónsdóttur um menningarheim Araba.
Hulda segir að á hverju ári fari 4–5 þúsund nemendur í gegnum skólann.
– Við erum með ákveðinn kjarna sem kemur aftur og aftur. Þeir bíða eftir bæklingnum og skrá sig svo. Sumir eru í tungumálunum en aðrir sækja reglulega námskeið um listir og menningu, til dæmis námskeiðið núna um Sölku Völku. Það er haldið í samráði við Borgarleikhúsið sem sýnir þetta verk Nóbelsskáldsins í vetur, segir Hulda Ólafsdóttir framkvæmdastjóri að lokum.