Iðnaðarmenn njóta ekki launaskriðs í góðærinu

Launamenn geta ekki einir borið ábyrgð á verðbólgunni

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á nýafstöðnum ársfundi ASÍ:

„Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru í uppnámi vegna mikillar verðbólgu og ójafnvægis í hagkerfinu. Við þessar aðstæður er sá ávinningur sem samningarnir áttu að skila launafólki, að mestu horfinn.  Það reynir á endurskoðunarákvæði kjarasamninga nú þegar ljóst er að forsendur þeirra eru brostnar. Markmiðin sem samningsaðilar settu sér um stöðugleika í afkomu og skilyrðum launafólks og fyrirtækja, jafnt í efnahagslegum og félagslegum skilningi, hafa ekki náðst.  Ársfundur ASÍ lýsir yfir vilja samtaka launafólks til þess að eiga aðild að því að endurnýja og treysta grundvöll og markmið kjarasamninganna. Skilyrði þess að svo megi verða er að atvinnurekendur og stjórnvöld axli ábyrgð á þessari stöðu. Verkefnið er að endurnýja tiltrú á stöðugleika og jafnvægi í efnahagslífinu og bæta launafólki það sem aflaga hefur farið. Samtök launafólks sýndu mikla ábyrgð með gerð langtímasamninga árið 2004 og vildu með því skapa svigrúm til þess að takast á við fyrirséða óvissu í efnahagsmálum. Ársfundurinn leggur því sérstaka áherslu á að tiltrú og vilji launamanna til endurnýjunar langtímasamninga hverfur, ef endurskoðunarákvæðin virka ekki þegar á reynir. Náist ekki viðunandi lausn við endurskoðun kjarasamninganna telur ársfundur ASÍ einsýnt að til uppsagnar þeirra muni koma 10. desember þannig að uppsögn þeirra taki gildi frá og með næstu áramótum.“

Enn ætlar ASÍ forustan að sýna þá ábyrgð að reyna til þrautar að halda í stöðugleika íslensks efnahagslífs. Má hann kosta hvað sem er? Hvar eru sársaukamörk launafólks innan ASÍ? Gamli söngurinn er byrjaður, ef hækka á laun ASÍ fólks fer verðbólgan af stað, verðbótaþáttur lána hækkar uppúr öllu valdi þar sem fjölskyldur eru skuldugar sem aldrei fyrr og stórkostleg eignaupptaka mun eiga sér stað. Þeir sem tapa mest á að kjarasamningum verði sagt upp vegna þess að forsendur kjarasamninga standast ekki er launafólkið sjálft. Þekkt uppstilling. Allir aðrir stikkfrí. Því miður er nokkuð til í því að ef verðbólga fer af stað tapa allir. En er það réttlætanlegt gagnvart launafólki í ASÍ að það eitt beri ábyrgð á stöðugleikanum. Stöðugleika í 4,5% verðbólgu. Er það stöðugleiki launa og kaupmáttar ASÍ fólks? 60% iðnaðarmanna ekki fengið á síðasta ári launahækkun sem nemur verðbólgu. Um 50% hafa einungis fengið umsamda launahækkun uppá 3% eða minna. Launaskrið það sem við töldum að kæmi með aukinni spennu á vinnumarkaðinum hefur látið bíða eftir sér. Launum er haldið niðri með gegndarlausum innflutingi á erlendu vinnuafli. Á meðan íbúðaverð hefur hækkað yfir 30% hafa okkar laun hækkað um 3% . Þannig er ástandið þegar við förum inní umræðuna um framlengingu launaliðar kjarasamnings okkar.

Stjórn Trésmiðafélagsins hvetur félagsmenn til að mæta á félagsfundinn 7. nóvember n.k. og fá nánari útlistun á efnahagsástandinu og þeim hugmyndum sem uppi eru vegna endurskoðunar ákvæða samningsins.

(Greinin birtist áður í TR-fréttum, fréttabréfi Trésmiðafélags Reykjavíkrur)