Á síðustu ártugum hafa Íslendingar byggt upp lífeyriskerfi sem byggir á sjóðsmyndun. Að þessu leyti voru Íslendingar á undan flestum öðrum vestrænum þjóðum og njóta þess í dag. Með sjóðsmyndun leggur hver kynslóð til hliðar fjármagn til eftirlaunagreiðslna en leggur það ekki á komandi kynslóðir.
Á síðari árum hafa aðrar vestrænar þjóðir verið að taka upp svipað fyrirkomulag og Íslendingar en sjá fram á mikinn vanda næstu áratugina við að fjármagna eftirlaunakerfi á meðan verið er að byggja upp sterka sjóði. Fjörutíu ára sjóðssöfnum íslenskra lífeyrissjóða skapar Íslendingum einstakt tækifæri til að tryggja öllum góða afkomu á efri árum á næstu áratugum.
Á sama tíma og lífeyrissjóðirnir hafa verið að styrkjast og stórauka greiðslur til sinna félagsmanna hefur ríkið verið að draga úr greiðslum til ellilífeyris. Yfirlýst markmið stjórnvalda er að í framtíðinni taki lífeyrissjóðirnir að mestu við greiðslu ellilífeyris en ríkið sinni fyrst og fremst þeim sem falla utan lífeyrissjóðakerfisins.
Þessi afstaða ríkisvaldsins er ekki í samræmi við upphafleg markmið með stofnun lífeyrissjóðanna sem voru hugsaðir til viðbótar ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.;P>
Við eigum alla möguleika á að tryggja góð eftirlaun
Þegar skoðaðir eru möguleikar lífeyrissjóðanna til að taka við ellilífeyrinum er mikilvægt að velta fyrir sér hvað er ásættanlegur lífeyrir. Lífeyrissjóðunum er gert að tryggja að lágmarki 56% af meðalævitekjum. Það eru væntanlega allir sammála um að það er óásættanlegur lífeyrir. Þegar þetta lágmark var sett var gengið út frá því að greiðslur frá lífeyrissjóðum væru til viðbótar greiðslum frá TR. Okkar markmið hljóta að vera að tryggja öllum að lágmarki eftirlaun sem eru 75% til 85% af ævitekjum fólks.
Íslenska þjóðin hefur notið þeirrar gæfu að með batnandi lífskjörum hefur meðalævi fólks lengst verulega síðustu áratugi. Þetta hefur haft í för með sér að skuldbindingar sjóðanna hafa verið að aukast og þrátt fyrir góðan árangur í rekstri og ávöxtun hefur það ekki dugað til að mæta þeim auknu skuldbindingum sem hafa verið samfara þessu. Þetta hefur leitt til þess að þeim sjóðum sem veita meiri réttindi en lágmarkið segir til um hefur farið fækkandi.
Til að tryggja fólki 75% til 85% af meðalævitekjum má því ljóst vera að almannatryggingar verða að leggja verulegt framlag til ellilífeyris á móti lífeyrissjóðunum næstu áratugina.
Frjáls séreignarsparnaður hefur farið vaxandi og mun skipta verulegu máli þegar fram líða stundir en það tekur einstakling mörg ár að safna í góðan sjóð. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að allstór hópur fólks nýtir sér ekki séreignarsparnað. Þegar fram líða stundir mun sá hópur verða mun ver settur en þeir sem leggja nú þegar til hliðar allt að 6% í séreignarsparnað. Til að koma í veg fyrir þann ójöfnuð sem af þessu leiðir er mikilvægt að séreignarsparnaður verði samnings- eða lögbundinn þannig að allir verði með 4% framlag í séreignarsparnað auk mótframlags atvinnurekenda. Verði séreignarsparnaðurinn ekki bundinn mun skapast veruleg gjá á milli þeirra sem nýta sér möguleika til séreignarsparnaðar og þeirra sem ekki telja sig eiga möguleika á slíku.
Sameiningarviðræður SL og LV
Á síðasta ársfundi Sameinaða lífeyrissjóðsins var samþykkt heimild til stjórnar að taka upp viðræður við Lífeyrissjóð verslunarmanna um sameiningu sjóðanna. Fyrir þeim viðræðum var gagnkvæmur áhugi hjá báðum sjóðunum og töldu menn sig sjá hagræðingu með samrekstri sjóðanna sem leiða ætti til minni rekstrarkostnaðar.
Við tryggingafræðilega skoðun á nýjum sjóði kom í ljós að ávinningurinn var ekki jafn augljós og virtist í fyrstu. Mismunandi kynjasamsetning sjóðanna dró verulega úr þeim ávinningi sem Sameinaði lífeyrissjóðurinn hefði haft af sameiningunni. Einnig kom í ljós að skerða þurfti réttindi félagsmanna SL og ávinningur í framtíðarávinnslu í aldurstengdu kerfi var ekki með sama hætti og í dag. Niðurstaðan varð nú sú að hætta viðræðum um sameiningu. Þrátt fyrir að þetta hafi verið niðurstaðan er þróunin sú að sjóðir eru að sameinast og líklegt að innan fárra ára verði 3 til 4 stórir lífeyrissjóðir á almenna vinnumarkaðinum. Í mínum huga er það því áframhaldandi verkefni stjórnar SL að skoða sameiningarkosti.
Rekstur SL hefur gengið vel á þessu ári og ef seinnihluti ársins verður í takt við fyrrihlutann hefur orðið mikill viðsnúningur í rekstri sjóðsins. Staða sjóðsins kallar í sjálfu sér ekki á að hann sameinist öðrum sjóði / sjóðum en hann verður áfram opinn fyrir áhugaverðum sameiningar möguleikum ef þeir kunna að finnast. Sameinaði lífeyrissjóðurinn er fyllilega samkeppnisfær hvað réttindi varðar sé hann borinn saman við lífeyrisjóði á almenna markaðinum. Hann hefur til margra ára verið í forystu hvað varðar nýjungar og þróun lífeyriskerfa og ætlar sér að vera það áfram.
Þorbjörn Guðmundsson,
varaformaður Sameinaða lífeyrissjóðsins skrifar
(Greinin birtist áður í TR-fréttum, fréttabréfi Trésmiðafélags Reykjavíkur)