Norræn samtök iðnaðarmanna sameinast

Samband málmiðnaðarmanna (Nordiska Metall) og Samband starfsfólks í efna-, pappírs- og textíliðnaði (NIF) með yfir 1,2 milljónir félagsmanna í 22 samböndum á Norðurlöndunum, sameinast í eitt norrænt iðnaðarmannasamband (Industrianställda i Norden, IN) þann 1. janúar n.k. 

 

Forsendur sameiningarinnar eru að fagleg mörk iðngreinanna skarast í auknum mæli og endurspeglar sameiningin þá þróun innan landanna, auk þess sem sameinað samband vegur þyngra í umræðum um málefni iðnaðarins og í almennri stefnumótun á vettvangi Norðurlandanna, Evrópu og alþjóðasamfélagsins.  Samningar við alþjóðleg fyrirtæki kalla auk þess á öflug fjölþjóðleg samtök launafólks sem hafa áhrif út yfir hefðbundin landamæri og hafa forsendur til að samræma stefnu aðildarsambandanna gagnvart fjölþjóðafyrirtækjum sem hvað eftir annað gera atlögu að hinum norræna vinnumarkaði eins og dæmin sanna hér á landi.

 

Hið nýja samband hefur aðsetur í Stokkhólmi og er formaður þess Kjell Björndalen frá Fellesförbundet í Noregi og framkvæmdastjóri Jyrki Raina (sími +46 70 3867080). Samiðn og Starfsgreinasamband Íslands eru aðilar að IN og er Vignir Eyþórsson, varaformaður Samiðnar, fulltrúi Samiðnar í stjórn þess.