Ábyrgð byggingastjóra

Í lok nóvember var haldið námskeiðið Ábyrgð byggingastjóra á vegum Menntafélags byggingariðnaðarins. Á námskeiðinu var fjallað um hlutverk og ábyrgð byggingastjóra, byggingaleyfi og vátryggingamál. Farið var yfir þau atriði sem tengjast starfssviði byggingastjóra s.s. uppdrætti, lög reglugerðir og tryggingaslit. Kynnt gildi ýmissa úttekta, t.d. áfangaúttektir, fokheldisúttektir, stöðuúttektir og lokaúttektir. Magnús Sædal Svavarsson, byggingarfulltrúi Reykjavíkur var annar leiðbeinandinn á námskeiðinu og fékk Byggiðn viðtal við hann um starf byggingastjóra og námskeiðið:

 

,,Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem tóku gildi 1998, þá á að vera byggingastjóri á öllum mannvirkjum sem byggð eru, bæði nýbyggingum og breytingum á eldra húsnæði og er hlutverkið skilgreint í lögum. Byggingastjóri á að vera framkvæmdastjóri byggingarinnar meðan byggt er og sjá um að byggt sé í samræmi við lög og reglugerðir og ber hann ábyrgð á því að það sé gert. Þetta eru þrettán skilgreindir þættir sem hann á að annast. Til dæmis ræður hann iðnmeistara, getur sagt honum upp eða samþykkt ráðningu hans, hann á að vera við-staddur allar úttektir, tilkynna byggingarfulltrúa um fokheldisúttekt, hann óskar eftir stöðuúttekt svo eitthvað sé nefnt og síðast en ekki síst á hann að biðja um lokaúttekt.

 

Þeir sem geta verið byggingastjórar eru hinir klassísku iðnmeistarar, húsasmíðameistarinn, múrarameistarinn, pípulagningameistarinn og rafvirkjameistarinn. Nú svo geta arkitektar, verkfræð-ingar, tæknifræðingar og byggingarfræðingar einnig verið byggingastjórar. Það hefur þó sýnt sig frá því lögin tóku gildi að það eru aðallega iðnmeistarar sem gegna stöðunni.”

 

Fákunnandi um hlutverk sitt

,,Því miður hefur það brunnið við að þeir sem taka að sér byggingastjórn eru ekki allir að rækja skyldur sínar. Við sem þurfum að annast fokheldis-, stöðu- og lokaúttektir finnum mjög fyrir því að hjá of mörgum byggingarstjórum er kerfisbundin skráning og umhald gagna í molum sem leiðir til verulegrar aukavinnu af okkar hálfu og þar með töfum á afgreiðslu mála. Má kenna að hluta til um að engin fræðsla eða kynning á þessum lögum og reglum hefur verið í kerfinu og það hefur komið á daginn að margir byggingastjórar eru fákunnandi um hlutverk sitt og rækja það illa. Ég verð að segja að ef þeir sinna ekki því sem þeir eiga að gera þá endar það aðeins á einn veg, aðrir eru fengnir í staðinn fyrir þá, og með því eru iðnmeistararnir að kalla yfir sig aðrar stéttir. Það vilja þeir örugglega síður. En vilji þeir ekki láta það yfir sig ganga þá verða þeir að gera eitthvað í sínum málum.”

Magnús segir að þegar honum fannst ástandið vera orðið algjörlega óviðun-andi, og hann orðinn leiður á því að segja mönnum til eftir að þeir voru búnir að gera vitleysurnar, hafi hann komið að máli við Menntafélag byggingar-iðnaðarins og stungið upp á að komið yrði á fót stuttu námskeiði þar sem farið væri yfir hlutverk byggingastjórans og þeir sem höfðu farið flatt á þessu en vildu samt gera þetta rétt hresstir við: ,,Menntafélagið tók beiðni minni vel og ég setti saman drög að námskeiðsefni sem við höfum farið eftir. Ég leitaði aðstoðar hjá Sambandi íslenskra trygg-ingafélaga um að það útveguði mann til að fara yfir vátryggingamálin og ábyrgð byggingastjórans gagnvart þeim, þar sem í lögunum er gert ráð fyrir því að byggingastjórar hafi í gildi starfsábyrgðartryggingu sem gildir í fimm ár eftir að verk hefur fengið lokaúttekt. Ég hef feng-ið mjög hæfan og góðan mann til að annast þennan þátt námskeiðisins,  Gunnar Pétursson, lögfræðing, sem  starfar hjá Sjóvá. Sjálfur sé ég um það á námskeiðinu sem snýr að embætti mínu sem byggingarfulltrúi.

Námskeiðin eru 10 kennslustundir og eru haldin á einum degi.Það verður að segjast eins og er að aðsóknin hefur verið frekar dræm, að vísu voru 20 manns á síðasta námskeiði, sem er nú bara nokkuð gott og vona ég að framhald verði á því að meistarar sæki námskeiðið og ég og þeir sjái árangur af námskeiðunum.”

 

Hvað á að gera og hvað á ekki að gera

Magnús telur ljóst þeir iðnmeistarar sem hafa tekið að sér að vera byggingastjórar viti ekki hvernig þeir eiga að gera hlutina: ,,Við erum ekki með neinar beinar lausnir fyrir þá heldur segjum þeim til og bendum sérstaklega á að það er nauðsynlegt að hafa alla pappírsvinnu á hreinu. Fyrsta skrefið í þeim efnum er að temja sér mikla ögun í vinnubrögðum. Byggingastjórinn verður að hafa í huga í starfi sínu að það kemur að lokaúttektinni og þá þurfa allir þættir sem tilgreindir eru í lögunum að vera í lagi. Það losnar enginn við lokaúttektina. Staðreyndin er að allan byggingartímann þarf hugsunin að vera sú að það kemur að lokaúttektinni. Það er of seint að fara loks að hugsa um hana daginn sem á að biðja um hana.

Vandamálið hefur verið að þeir sem veljast sem byggingastjórar eru ekki allir meðvitaðir um hvað þeir eiga að gera og einnig hvað þeir eiga ekki að gera. Þegar ég tala um það sem byggingastjóri á ekki að gera þá get ég nefnt dæmi um iðnmeistara sem er  að byggja fyrir eigin reikning og er jafnframt byggingastjóri. Hann selur eignina, fokhelda eða á einhverju öðru byggingarstigi, aðila, sem segir að hann ætli að klára verkið sjálfur með hjálp ættingja. Þá á meistarinn og byggingastjórinn að segja við kaupandann. ,,Það er allt í lagi, þá skrifa ég mig frá verkinu og annar byggingastjóri tekur við”. Ef byggingastjórinn gerir þetta ekki þá er hann enn í ábyrgð á því sem verið er að framkvæma þó hann komi hvergi nálægt verkinu. Þetta hafa ekki allir áttað sig á.

Ábyrgðin sem byggingastjóri hefur er mikil og það eiga menn að vita. Við getum tekið dæmi um hitakerfi. Ef byggingastjóri kemur með skýrslu til okkar þar sem segir að hitakerfið hafi verið stillt þá tökum við það gott og gilt. Við erum ekki eftirlitsmenn, en komi síðar í ljós að það hafi ekki verið stillt þá er sá sami maður ekki í góðum málum. Það er því mjög áríðandi að byggingastjórinn geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem hann hefur.”

 

Hvers vegna lögin?

Magnús er spurður hvers vegna löggjafinn hafi sett lög um byggingastjóra.

,,Fyrst og fremst var þetta gert til að einfalda hlutina og að það yrði aðeins einn aðili sem bæri ábyrgð umfram aðra. Að sá sem byggir og ber kostnaðinn þyrfti ekki að hlaupa í alla meistarana til að reka sín erindi heldur væri einn maður sem tæki við skilaboðunum og kæmi þeim áfram.” 

Telur Magnús að lögin um byggingastjóra séu komin til að vera eins og þau eru eða er einhverra breytinga þörf? ,,Stutt er síðan Félag byggingafulltrúa hélt málþing í tilefni tuttugu ára afmælis félagsins. Þar var einmitt fjallað um þessi lög og rætt hvað mætti missa sig, hvað vantaði og hvernig þau höfðu reynst. Í niðurstöðunum, sem ég tók saman, kom fram að það væri ekkert sérstakt sem mætti missa sig. Það sem stóð upp úr var að við töldum að það skorti gæðaskilgreiningu, ábyrgðarskilgreiningu og samhæfingu. Niðurstöðurnar voru síðan dregnar saman í þrjú atriði: gæði, ábyrgð og samhæfing. Lögin eru komin til að vera en það verður að vera þróun í þessu máli eins og öðrum.”

Er hægt að sjá fyrir sér að þróunin verði sú að ráðinn verði sérstakur bygginga-stjóri, sem kemur ekkert nálægt framkvæmdunum sjálfur og er óháður byggingaraðilum. ,,Það held ég að geti ekki orðið og eru margir annmarkar á þeirri hugmynd. Til að mynda er þá komið upp vandamál hver ætti að borga byggingastjóranum, enda er hann þá orðinn aukaaðili. Nei, við verðum að skerpa á meist-urunum og láta þá taka til í sínum málum enda er það mín skoðun að innra eftirlit eigi að vera á höndum iðnmeistaranna. Þeir eiga að fylgjast með því að bæði verk og efni uppfylli skilyrði og eru þar með sjálfsagðir byggingastjórar.

Það hefur verið rætt að ef lögin verði endurskoðuð eigi að fella niður að byggingastjóri megi ekki taka að sér hlutverk iðnmeistara samhliða byggingastjórnuninni. Þetta finnst mér ekki nógu gott vegna þess að það yrði dýrara og ég sé enga ástæðu fyrir því að byggingastjóri megi ekki einnig vera meðal iðnmeistara að byggingunni. En það mætti kannski setja inn að ef byggingastjóri stendur sig ekki þá fái hann ekki að halda áfram sem slíkur í framtíðinni.”

 

Hefði átt að fylgja lögunum betur eftir

Magnús telur að námskeiðin um ábyrgð byggingastjóra eigi fullan rétt á sér eins og staðan er nú og allir sem starfs síns vegna geta orðið byggingastjórar eiga að sækja það: ,,Ég væri ekki að eyða tíma mínum í að vera með fræðslu á þessum námskeiðum nema vegna þess að ég vil að breyting verði á ástandinu. Ég hef nóg annað við tíma minn að gera, en þegar manni blöskrar þá verður að gera eitthvað og þetta námskeið var mitt ráð til að reyna að bæta ástandið.

Svo má á móti segja að það hefði aldrei átt að koma til þess að halda þessi námskeið. Hefði Umhverfisráðuneytið beitt sér strax í upphafi fyrir námskeiðahaldi til að kynna lögin þá hefðu iðnmeistarar verið betur undirbúnir. Lögin eru sett og þeim nánast fleygt í byggingarfulltrúana, í hönnuðina, í iðnmeistarana og hinn almenna borgara án þess að nokkuð sé gert til að fylgja þeim eftir með útskýringum. Þetta eru ekki réttu vinnubrögðin. Þegar sett voru upplýsingalög og stjórnsýslulög þá voru bæklingar settir inn í hverja bréfalúgu á landinu til að upplýsa fólk og það var vel gert. Byggingalöggjöfin snertir það marga að eitthvað svipað hefði átt að gera í upp-hafi, þá hefði þekkingin orðið meiri.”

 

(Greinin birtist í Byggiðn, blaði Menntafélags byggingariðnaðarins í janúar 2006)