Um þessar mundir erum við á fullu að eyða peningum sem við erum ekki ennþá búin að vinna fyrir. Þess vegna er afar brýnt að við eyðum þeim ekki í tóma vitleysu. Reyndar er bráðnauðsynlegt að við verjum þeim í eins arðbær verkefni og mögulegt er, ella blasir við okkur gjaldþrot. Það er gott og blessað að eyða í stóriðjuverkefni hér og samgöngubætur þar. Ef vel tekst til geta slíkar fjárfestingar aukið hagvöxt – en aðeins tímabundið.
Það eina sem tryggir stöðugan hagvöxt eru „tækniframfarir“. Með tækniframförum er ekki aðeins átt við nýja framleiðslutækni heldur ekki síst ræktun mannauðs með því að byggja upp öflugt velferðarkerfi. Samkeppnishæfni ríkra landa eins og Íslands ræðst nefnilega í síauknum mæli af aðgangi fyrirtækja að vel menntuðu starfsfólki sem býr við tiltölulega traust afkomuöryggi þótt áföll kunni að ríða yfir einstöku sinnum, hvort sem það er af völdum tímabundins atvinnumissis, veikinda eða slysa.
Í þessu ljósi er ekki annað hægt en að taka alvarlega vísbendingar sem komið hafa fram um aukið aðhald í velferðarkerfinu og vaxandi ójöfnuð í tekjum landsmanna. Það er nógu slæmt fyrir þá sem í því lenda að „dæmast úr leik“ vegna þess að þeir hafa ekki efni á öðru en helstu nauðsynjum. Það væri auk þess stórkostlegt efnahagslegt vandamál fyrir alla þjóðina ef ójöfnuði í tekjum er leyft að ummyndast í ójöfnuð í aðgangi að mennta- og heilbrigðisþjónustu. Slíkt getur leitt til þess að mannauðurinn verði rýrari en efni stóðu til og samkeppnishæfni landsins til muna veikari.
Það er sérstaklega hætt við að þetta verði niðurstaðan ef aukið aðhald í velferðarkerfinu og vaxandi ójöfnuður fer saman við tiltölulega óskipulegan vöxt einkareksturs í mennta- og heilbrigðisþjónustu. Það er auðvitað alls ekki óhjákvæmilegt að einkarekstur magni upp óæskileg áhrif ójöfnuðar í tekjum fólks. Þvert á móti getur verið að fjölbreytileg rekstrarform geri kerfið skilvirkara. Það er hins vegar mikilvægt að hið opinbera standi vörð um hlutverk sitt sem meginkaupanda velferðarþjónustunnar og að það setji rekstri skilyrði sem tryggja aðgang allra óháð efnahag og félagslegri stöðu.
Alþýðusambandið hefur frá stofnun árið 1916 verið þeirrar skoðunar að saman eigi að fara uppbygging í efnahags- og atvinnulífi og öruggt og tryggt velferðarkerfi fyrir alla. Við þurfum ekki að fara lengra en til hinna norrænu landanna til að sjá yfirburði slíks þjóðfélagslíkans. Með því að flétta inn í efnahags- og atvinnustefnu okkar áherslu á jöfnun tækifæra stuðlum við að uppbyggingu mannauðs, sterkari samkeppnishæfni og sátt í þjóðfélaginu.
Stefán Úlfarsson,
hagfræðingur ASÍ