Aðbúnaður þeirra tvö þúsund starfsmanna sem vinna við að koma upp geysimikilli gasstöð út af Vestur-Noregi er til fyrirmyndar. Allir starfsmennir búa í eins manns herbergjum með sturtu og salerni, hafa aðgang að þreksal, bókasafni, tölvuherbergi, krá og tómstundaherbergi. Mötuneytið býður morgunverð, hádegismat, fjögurra rétta kvöldmat og kvöldkaffi. Auk þess gefst starfsmönnum reglulega kostur á ferðalögum, menn geta stundað knattspyrnu á vel búnum velli og njóta ókeypis heilbrigðisþjónustu.
Starfsmenn við stórframkvæmdir eiga að hafa það gott í vinnunni. Vinnuumhverfi, öryggi, afþreying og tómstundatilboð eiga að vera fyrsta flokks. Vanlíðan kemur bæði niður á afköstum og öryggi. – Þetta eru viðhorf bæði verktakanna og verkalýðshreyfingarinnar við byggingu móttökustöðvar fyrir gas frá gassvæði sem kallast Ormurinn langi eftir skipi Ólafs konungs Tryggvasonar og liggur 120 kílómetra út af Noregsströndum. Framkvæmd þessi er talin hin umfangsmesta sem nú á sér stað í Norður-Evrópu.
Í landi er verið að byggja móttöku- og dreifingarstöð sem þekur landsvæði sem er á stærð við 100 knattspyrnuvelli. Þetta er stærsta framkvæmd sem Norðmenn hafa lagt í og jafnframt sú flóknasta. Norska stórfyrirtækið Hydro er aðalverktaki en olíufélagið Shell annast rekstur stöðvarinnar þegar hún er tilbúin eftir hálft annað ár. Kostnaður við þessa framkvæmd er áætlaður 66 milljarðar norskra króna eða rúmlega 660 milljarðar íslenskra króna. Til samanburðar má nefna að kostnaður Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar er áætlaður um 100 milljarðar.
Nú starfa um 1.700 manns við uppbygginguna en alls er gert ráð fyrir að 10 til 15 þúsund manns komi að ýmsum verkum sem tengjast þessu verkefni. Verkið er um það bil hálfnað.
Gasið á að taka í land rétt hjá þorpinu Nyhamn, Nýhöfn, í fylkinu Mærum og Raumsdal, vestan við bæinn Molde. Vinnubúðirnar sem þar hefur verið komið fyrir vegna framkvæmdanna eru líkastar ævintýraheimi. 50 tveggja hæða vinnubúðablokkir, rauðar og gráar á lit, setja mark sitt á umhverfið í samspili við fjöll og haf. Í hverri blokk eru 44 einsmanns herbergi. Alls er gert ráð fyrir að í þessum vinnubúðum búi um 2200 manns þegar mest verður í sumar en þá ná framkvæmdirnar hámarki. Alls er gert ráð fyrir að gistinætur í vinnubúðunum verði komnar yfir milljónina þegar gaskranarnir verða opnaðir.
Aðbúnaður á að vera góður
– Við viljum að starfsmenn sem hér starfa búi við fyrsta flokks aðstæður. Það á við um allan aðbúnað. Þegar rúmlega tvö þúsund manns eiga að vinna saman á stað sem þessum er nauðsynlegt að allir hlutir séu í lagi, segir fulltrúi norska Alþýðusambandsins á svæðinu, Svein Furuli.
– Starfsmönnunum verður að líða vel og öryggi þeirra verður að vera tryggt á allan hátt. Þeir verða að geta slappað af og haft það notalegt í frítímanum. Þeir verða að geta eflt vináttu sín á milli og hlúð bæði að líkamlegri og andlegri heilsu, segir hann.
Á því svæði sem starfsmennirnir búa er einnig mötuneyti, þjónustuhús, tómstundahús, íþróttahús og fundarsalir, alls um 60 þúsund fermetrar. Í mötuneytinu geta um 1000 manns borðað samtímis. Það segir nokkuð um umfang þessar framkvæmda, segir Sveinn.
– Við höfum það gott hér. Sá sem ekki þrífst hér hefur ekkert hingað að gera, segir Torbjörn Juliusson sem er þekktur á svæðinu fyrir hreinskilni og húmor. Hann er aðaltrúnaðarmaður hjá AF-fyrirtækinu á staðnum en það fyrirtæki er undirverktaki við byggingu gasstöðvarinnar.
Þegar litið er yfir svæðið kaldan og vindasaman dag lítur það út eins og mauraþúfa. Undirstöður undir rör úr steinsteypu þúsundum saman. Ótrúlegt magn af alls konar farartækjum, kranar sem geta lyft allt að 600 tonnum, rör úti um allt, göng hér og þar. Kaplar, vörubílar með byggingarefni og flutningabílar með steypukubba af ýmsum gerðum, skemmur og verkstæði. Niðri við ströndina er verið að gera klárt til að taka á móti leiðslunum sem koma á land. Höfnin er að taka á sig mynd. Innan um allt þetta eru svo hundruð starfsmanna í appelsínugulum, grænum eða rauðum vinnuklæðnaði. Allir með hjálm, í öryggisskóm og með hlífðargleraugu.
Öryggi og aftur öryggi
– Hér er haft að leiðarljósi öryggi og aftur öryggi. Allir fara allir í gegnum stranga þjálfun í öryggisatriðum áður en þeir fá að fara inn á svæðið. Það ríkir alger samstaða milli okkar og atvinnurekenda í þeim efnum. Okkur hefur tekist að koma í veg fyrir alvarleg slys hér, með einni undantekningu þegar starfsmaður fórst í vinnuslysi, segir Torbjörn Juliusson.
Eftir skoðunarferð um svæðið kemur í ljós að starfsmönnun almennt líkar vistin á svæðinu. – Við höfum það þrælfínt, segir sænski trésmiðurinn Juha Komulainen sem er afar sáttur bæði við húsnæðið og matinn. – Maður hefur ekki kynnst svona gæðum á vinnustað áður, segir hann og hefur farið víða. Hann segir að þegar hann hefur verið að vinna í Svíþjóð fjarri heimili sínu sé algengt að hann búi í hjólhýsi. Norðmenn sem vanir eru góðum aðbúnaði á vinnustað eru líka á því að þetta sé það besta sem þeir hafi komist í. John Kongshaug, einn af bormönnunum á staðnum, segir að aðbúnaðurinn geti ekki verið betri – Hér er allt eins og það á að vera. Hann er sérstaklega ánægður með hvað mikil áhersla er lögð á vinnuöryggið.
Í mötuneytinu var Þjóðverjinn Roland Lipzowsw með matarbakka. – Frábær vinnustaður, góður matur, fín herbergi, hér er gott að vera.
Í tölvuherberginu situr kafarinn Asle Morten Karlsen og kannar undraveröld netsins. – Það er nauðsynlegt að fylgjast aðeins með, segir hann. Eftir tólf tíma vakt, mat og svefn er kannski ekki mikið eftir af sólarhringnum en það er gott að kíkja aðeins á tölvupóstinn og og fá nýjustu fréttir, bætir hann við.
Gott samstarf
Svein Furuli, fulltrúi Alþýðusambandsins, og Torbjörn Juliussen, aðaltrúnaðarmaður AF, eru sammála um að samstarfið við Hydro, aðalverktakann á staðnum, sé til fyrirmyndar. – Fyrirtækið sýnir mikla ábyrgð gagnvart starfsmönnum og þeir eiga sannarlega skilið hrós fyrir samstarfsvilja. Hér er enginn ágreiningur milli fyrirtækisins og verkalýðshreyfingarinnar um það hvernig á að standa að málum, og það er tekið mark á óskum starfsmanna þegar eitthvað þarf að laga, segir Sveinn. Hann hefur í rúm tuttugu ár verið fulltrúi Alþýðusambandsins norska við ýmsar stórframkvæmdir. Hann rifjar upp aðstæðurnar þegar hann byrjaði í þeim verkefnum. Þá var algengt að fimm til sex starfmenn byggju saman í einu herbergi í vinnubúðum. Eina vatnið sem menn höfðu til að þvo sér með var úr slöngu utandyra. Nú er skylda samkvæmt norskum lögum að fulltrúar starfsmanna taki út vinnubúðir áður en flutt er inn í þær, bætir hann við.
Kemur ekki af sjálfu sér
Þorbjörn Juliussen segir að þessar framfarir hafi ekki komið af sjálfu sér heldur hafi barátta verkalýðshreyfingarinnar skilað þessum árangri.
– Þegar kemur að stórframkvæmd eins og uppbyggingu þessarar gasstöðvar er ljóst að mikil þörf er á velmenntuðu fólki af öllum gerðum, segir Sveinn. Kokkum, járniðnaðarmönnum, trésmiðum, pípulagningarmönnum og rafvirkjum svo fáeinir faghópar séu nefndir. Mikill uppgangur er í norsku efnahagslífi nú um stundir, skipasmíðaiðnaðurinn blómstrar og mikið er byggt, og því hefur reynst nauðsynlegt að manna verkefnin við Nyhamn með erlendum starfsmönnum. Fyrir okkur í verkalýðshreyfingunni er það mikil áskorun að taka á móti þessu fólki. Stór hluti af þeim útlendingum sem hingað koma hefur ekki vanist þeim kröfum sem gerðar eru í Noregi, til dæmis í öryggismálum. Það kemur þeim líka á óvart hversu náin samskiptin eru hér á milli starfsfólks og hvað samskiptin við yfirmenn eru áreynslulaus. Áður en erlendir starfsmenn taka til starfa hér þurfa þeir að fara á námskeið þar sem farið er yfir öryggismál og þær reglur sem gilda á norskum vinnumarkaði, segir hann, en bætir við að heimamenn geti á hinn bóginn margt lært af þessum farandverkmönnum. – Þeir eru flestir góðir fagmenn, duglegt fólk með mikla vinnugleði, og það er nokkuð sem Óli Norðmaður getur tekið sér til fyrirmyndar, segir hann.
Sveinn er nú að undirbúa tillögur um nýtt vaktafyrirkomulag, og ætlar að leggja það fyrir trúnaðarmannaráðið á staðnum. Nýja kerfið kallar hann: Burt með skilnaðarúthaldið. – Eins og staðan er núna vinna menn 12 daga og eiga svo 9 daga frí. Svo virðist sem þetta kerfi hafi komið niður á hjónaböndum þeirra sem hér starfa og henti illa nútíma-lifnaðarháttum starfsmanna. Flestir búa við þær aðstæður að bæði hjónin vinna úti og eiga börn – stundum af fleiri en einu hjónabandi. Í þessu níu daga fríi er í rauninni engin heil helgi. Flestir koma heim til sín seint á föstudagskvöldi og þurfa svo að fara eldsnemma á sunndagsmorgni. Þessu viljum við breyta þannig að menn vinni hér 21 dag og fái svo 14 daga frí. Við teljum að það sé miklu betra fyrir fjölskyldulífið að starfsmaðurinn geti eytt einni alvöru-helgi með maka og börnum, segir Sveinn Furuli. Þetta ætla þeir að taka upp við yfirmenn Norsk Hydro nú í febrúar.
Mikið umfang
Ormurinn langi er næststærsta gassvæðið innan norsku efnahagslögsögunnar, 3500 ferkílómetrar að stærð, fjörutíu kílómetra langt og átta til tíu kílómetra breitt. Gasið liggur 3000 metrum undir haffletinum.
Vinna við verkefnið hefur staðið yfir í rúm tvö ár og er vandasamasta verkefni af þessu tagi sem ráðist hefur verið í. Alls hefur verið bylt fimm milljónum rúmmetra af jarðvegi. Þegar mest var að gerast á þeim vettvangi var olíunotkun farartækjanna á staðnum um 30.000 lítrar á dag! Stærsta farartækið sem notað var við grunninn vó 100 tonn. Árin 2004 og 2005 fóru í að gera byggingarsvæðið tilbúið. Í lok síðasta árs hófst svo sjálf bygging stöðvarinnar.
Uppbygging í landi er mikið mál en verkefnið niðri á hafsbotninum er ekki minna að umfangi. Þar þarf að koma fyrir mannvirkjum á 1000 metra dýpi og leggja síðan 1200 kílómetra langa gaslögn. Allt þetta hefur krafist tæknilegra lausna sem ekki hefur verið lagt í áður. Verkefnið á að skila á land um 20 milljörðum rúmmetra af gasi árlega. Það er álíka mikið og öll orkunotkun Norðmanna á ári.
Gasið verður flutt til Englands eftir lengstu gaslögn sem lögð hefur verið neðansjávar fram til þessa, og verður hún um 1200 kílómetrar. Frá Nyhamn til Easington á norðausturströnd Englands, rétt sunnan við Newcastle. Gert er ráð fyrir að Englendingar fái um 20% af gasþörf sinni fullnægt með gasinu frá Orminum langa. Ef áætlanir ganga eftir byrja Bretar að elda mat og ylja sér með gasinu frá Orminum langa í október 2007.
Ýmsar staðreyndir um verkið
n Dagleg framleiðsla af gasi er áætluð 70 milljónir rúmmetra.
n Alls fara um 1000 kílómetrar af rafmagnsköplum í verkið.
n Rörin og stálið sem þarf til að byggja hreinsistöðvarnar í landi vega um 30 þúsund tonn.
n Í lögnina til Englands fer 1 milljón tonna af stáli.
n Gasið sem kemur á land í Nyhamn staldrar þar ekki við nema tíu mínútur áður en það leggur upp til Easington á austurströnd Englands.
n Gasið kemur á land blandað léttri olíu. Olían er skilin frá. Eftir það er gasið þurrkað og sent af stað. Það tekur gasið tvo og hálfan sólarhring að ná á áfangastað á Englandi.