Norska ríkisstjórnin herðir róðurinn verulega gegn félagslegum undirboðum með því að leggja fram raunhæfa aðgerðaáætlun. Við fögnum komu erlends vinnuafls, en höfnum misnotkun og óviðunandi launum og kjörum, segir Bjarne Håkon Hanssen, atvinnu- og samþættingarráðherra.
Ráðherrann á von á viðtækri samstöðu stjórnmálaflokkanna á Stórþinginu og aðila vinnumarkaðarins um þetta átak. “Ég hef tekið eftir því að LO og NHO (SA í Noregi) hafa lagt fram sameiginlega skýrslu um aðgerðir til að auka ábyrgð í atvinnulífinu” segir Bjarne. Hann hefur jafnframt jákvæða afstöðu til aukins innflutnings launafólks eftir stækkun EES-svæðisins. Innflutningurinn hefur dregið úr skorti á vinnuafli og eflt efnahagsþróunina. Um leið verður vart við brot á lögum og reglum um heilsu, vinnuumhverfi og öryggi á vinnustað, eins og reglum um vinnutíma og búsetuaðstöðu og óásættanlega lág laun, svo dæmi sé tekið.
“Það eru ekki einungis launamenn sem verða fyrir miklum búsifjum af þessari þróun, heldur einnig öll ábyrg atvinnufyrirtæki ef við grípum ekki til öflugra aðgerða til að snúa þessari þróun við. Vinnu- og jarðolíueftirlitið hafa nú þegar skilað góðu verki á þessum vettvangi. Nú munum við gefa þeim frekara svigrúm með því að gera þeim kleift að beita virkari aðferðum og meira fjármagni”, segir ráðherrann. Nýlega ákvað ríkisstjórnin að framlengja gildandi aðlögunarreglur um einstaklingsbundinn innflutning á vinnuafli frá nýju EES-löndunum um 3 ár (frumvarp nr. 9 2005-2006). Með samhliða öflugri aðgerðum gegn félagslegum undirboðum aukast líkur á að unnt verði að afnema aðlögunarreglurnar áður en þriggja ára tímabilinu lýkur.
Aðgerðaáætlunin verður lögð fyrir Stórþingið í tengslum við endurskoðun fjárlaga 12. maí 2006. Áætluninni verður fylgt eftir af Stórþinginu og henni verður hagað þannig að unnt verður leiðrétta hana og bæta í hana.
Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn félagslegum undirboðum:
Efling möguleika vinnueftirlitsins til aðgerða
Vinnu- og jarðolíueftirlitið á að geta sektað og beitt þvingunaraðgerðum og stöðvunum þegar eftirliti er framfylgt samkvæmt lögum um almennt gildi kjarasamninga og útlendinga. Ríkisstjórnin mun leggja fram lagafrumvörp í þessu efni í júní 2006.
Aukin framlög til eftirlitsins
Vinnu- og jarðolíueftirlitið fær aukin framlög í tengslum við endurskoðun fjárlaga 2006 til að geta gripið til aðgerða gegn félagslegum undirboðum.
Tryggja viðunandi aðstæður við inn- og útleigu vinnuafls og bæta aðstæður með því að gera kjarasamninga að lágmarksviðmiðun um kjör á vinnumarkaði.
Ríkisstjórnin vill tryggja viðunandi aðstæður launafólks við inn- og útleigu vinnuafls. Ríkisstjórnin vill jafnframt vinna áfram að því að gera kjarasamninga að lágmarksreglum á vinnumarkaði, t.d. með því að veita trúnaðarmönnum rétt til aðgangs að gögnum. Ríkisstjórnin miðar við að leggja þessar tillögur fram haustið 2006.
Vinna gegn óábyrgri verktöku og stofnun einmenningsfyrirtækja
Vinnu- og jarðolíueftirlitinu ber að beina sérstöku eftirliti að vandamálum sem tengjast skilgreiningu launafólks sem sjálfstæðum verktökum, sem miðast við að sniðganga norsk launakjör og starfsskilyrði.
Gera kröfur um norsk launakjör og starfsskilyrði við útboðsferli sveitarfélaga
Samþykkt Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 94 um kröfu um norsk launakjör og starfsskilyrði verði fullgilt 2007, einnig hvað varðar sveitarfélög og landsfjórðungasamtök.
Koma á fót aukinni byggingaábyrgð yfirverktaka og persónuskilríkjum í byggingastarfsemi
Innleidd verður aukin ábyrgð yfirverktaka með því að bæta inn ákvæðum í samninga við undirverktaka til að tryggja launafólki launakjör og skarfsskilyrði sem eru í samræmi við almennt gildi kjarasamninga. Reglur um persónuskilríki sem geta gert skilríkin að virku tæki í baráttunni gegn félagslegum undirboðum verða gefin út haustið 2006.
Framkvæma aðgerðir varðandi strandsiglingar og landbúnað
Tekið verður mið af að hrinda í framkvæmd kröfunni um atvinnu- og landvistarleyfi fyrir sjófarendur í norskum strandsiglingum á árinu 2006. Gripið verður til kerfisbundinna aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð í landbúnaði með því að beita markvissum eftirlitsaðgerðum og upplýsingarátaki.
Þróun á hagrænum tölum og fræðilegum upplýsingagögnum
Bæta á, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, hagtölur og úttekt á innflutningi vinnuafls og félagslegum undirboðum undir stjórn Arbeidslivspolitisk råd (Stefnumótandi ráðgjafarstofnun atvinnulífsins).
Aukin samræming opinberra aðgerða um allt land
Efla ber og þróa núverandi samstarf og samverkefni vinnueftirlits, jarðolíueftirlits, skattayfirvalda, lögreglu og annarra aðila sem að þessum málum koma. Í auknum mæli á að beina sjónum manna að því að tryggja að þetta samstarf sé öflugt, einnig innan viðkomandi sveitarfélaga.
Auka samstarf milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins
Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram og efla enn frekar samstarfið við aðila vinnumarkaðarins á öllum stigum, frá samstarfi milli eftirlitsaðila og trúnaðarmanna í greinunum og úti á vinnustöðunum í samræðu við Stefnumótandi ráðgjafastofnun atvinnulífsins.
Sjá nánar www.fellesforbundet.no
Þýðing: Borgþór S. Kjærnested