Ókyrr kjör

Stefán Úlfarsson hagfræðingur hjá ASÍ skrifar

Mikið umrót hefur verið á vinnumarkaði síðustu ár. Kjörorð dagsins er samkeppnishæfni sem aftur kallar á stöðugar breytingar á skipulagi og innihaldi vinnunnar. Samhliða þessu hefur staða launafólks gagnvart atvinnurekendum sums staðar farið versnandi. Þá hafa störf í vissum atvinnugreinum horfið og ný ekki endilega orðið til þar sem þau gömlu voru. Kjör okkar eru ekki lengur kyrr. Þessi þróun er gjarnan sett í samhengi við hnattvæðinguna. Hvað er átt við með því? Hvernig er þessu háttað á Íslandi? Er til trygging gegn ókyrrum kjörum?

Hnattvæðingin felur það meðal annars í sér að heimurinn líkist æ meir einu athafnasvæði. Launafólk flyst tímabundið eða til langframa frá láglaunasvæðum til hálaunasvæða. Fyrirtæki brjóta framleiðsluferla upp í ólíkar einingar og flytja þangað sem aðstæður eru taldar bestar hverju sinni. Í þessu felast bæði tækifæri og hættur. Þannig er oft talað um „kapphlaupið á toppinn“ sem myndi leiða til bestu niðurstöðu fyrir flesta og „kapphlaupið í svaðið“ sem myndi leiða til verstu niðurstöðu fyrir flesta.

Svona má lýsa kapphlaupinu á toppinn:

l Fyrirtæki reyna að ná samkeppnisforskoti á grundvelli rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar, þ.e. reyna að beisla eigin sköpunarkraft og samfélagsins í heild til að framleiða eftirsóttari og verðmætari vöru og þjónustu en keppinautarnir.
l Slík samkeppni er til þess fallin að skila ávinningi til launafólks og atvinnurekenda jafnt í ríkum löndum sem fátækum og hún leiðir síður til þess að ákveðnar atvinnugreinar leggist af á vissum svæðum.
l Dæmi um þetta er samkeppni á milli vörumerkja innan atvinnugreina fremur en á milli atvinnugreinanna sjálfra – til dæmis á milli Lacoste og Benetton, Philips og Miele, VW Golf og Peugeot.

… og kapphlaupinu í svaðið þannig:

l Fyrirtæki reyna að ná samkeppnisforskoti á grundvelli félagslegra undirboða. Sum misnota aðstöðumun sinn gagnvart varnarlitlum erlendum starfsmönnum heima fyrir til að þrýsta niður kjörum og ná forskoti á keppnautana. Önnur hóta að flytja starfsemi sína úr landi ef launafólk verður ekki við einhliða ákvörðun þeirra um kaup og kjör.
l Þetta getur leitt til þess í ríkum löndum að markaðslaun hækki minna en efni standa til og jafnvel til þess að þeir sem höllustum fæti standa á vinnumarkaðnum vinni nánast sem þrælar í einhvers konar neðanjarðarhagkerfi og/eða til þess að ólögleg eða hálf-ólögleg atvinnustarfsemi flytjist í heilu lagi til fátækra þróunarlanda þar sem lýðræðislegar stofnanir eru veikar og launafólk illa skipulagt.
l Dæmi um þetta eru flest um samkeppni á milli atvinnugreina fremur en innan þeirra – þ.e. þegar tekist er á um hver framleiðir skó og hver bíla, hver framleiðir leikföng og hver flugvélar o.s.frv.

Hvað með Ísland, erum við í kapphlaupi upp á toppinn eða niður í svaðið? Hugsanlega má varpa ljósi á þetta annars vegar með því að meta hvernig staða launafólks gagnvart atvinnurekendum hefur þróast; hins vegar með því að kanna hvaða störf hafa horfið og hvers vegna.

Staða launafólks

Talsverð brögð hafa verið að því síðustu ár að atvinnurekendur hér á landi reyni að notfæra sér aðstöðumun gagnvart erlendu starfsfólki sem ekki þekkir réttindi sín til að spara við sig launakostnað. Þá er einnig ljóst að mörg íslensk fyrirtæki geta auðveldlega hótað að flytja hluta af starfsemi sinni til landa þar sem launakostnaður er lægri, til dæmis smíðar og jafnvel fiskvinnslu. Það er auðvitað ekki hægt að fullyrða út frá þessu um það hvort almennt hafi grafið undan stöðu launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Þó má fá grófa vísbendingu um hvað er að gerast, til dæmis með því að skoða þróun raunlauna og jöfnuðar:

l Viðtekinn mælikvarði á eðlilegar launahækkanir er aukning framleiðsluverðmætis á hvern starfsmann (framleiðniaukning). Því meiri framleiðniaukning, þeim mun meiri launahækkanir. Verkalýðshreyfingin í Evrópu hefur til dæmis sett sér það markmið að meðallaun hækki jafn mikið á hverju ári og meðalframleiðnin. Samkvæmt útreikningum heildarsamtaka verkalýðsfélaga í Evrópu (ETUC) hefur vantað þó nokkuð upp á að þetta markmið hafi náðst á síðustu árum í 13 Evrópulöndum af 19 þar sem þetta hefur verið kannað. Útreikningarnir gefa til kynna að á Íslandi hefðu launahækkanir þurft að vera um 3% hærri árið 2005 og um 2,5% hærri árið þar á undan. Útkoman er hins vegar hagstæðari næstu tvö ár þar á undan.
l Viðtekinn mælikvarði á jöfnuð í skiptingu tekna er hinn svokallaði Gini-stuðull. Það sem þá er gjarnan mælt og borið saman milli tekjuhópa eru ráðstöfunartekjur fólks, þ.e. jöfnunaráhrif skattlagningar og almannatrygginga eru tekin með í reikninginn. Því hærri sem stuðullinn er, þeim mun meiri er ójöfnuðurinn. Samkvæmt tölum fjármálaráðuneytisins og útreikningum Þorvalds Gylfasonar prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands hefur þessi stuðull hækkað um helming hér á landi síðan 1995. Þetta þýðir að tekjuskipting á Íslandi, sem var með jafnasta móti á heimsvísu fyrir áratug, er nú orðin mun ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum. Haldi þessi þróun áfram með sama hætti verður ójöfnuður á Íslandi orðinn svipaður og í Bandaríkjunum eftir um tíu ár, en þar er ójöfnuður nú meiri en nokkurs staðar annars staðar á Vesturlöndum.

Horfin störf

Á síðustu öld minnkaði vægi vissra atvinnugreina mjög hér á landi. Samanlagður hlutur landbúnaðar og sjávarútvegs (veiða og vinnslu) í mannafla var þannig hátt í 80% við upphaf aldarinnar og hlutur þjónustu og hins opinbera aðeins 15%. Um miðja öldina voru hlutföllin orðin nokkuð jöfn en undir lok hennar hafði dæmið algerlega snúist við.
Eins og sjá má á mynd 1 átti þessi þróun sér stað jafnt og þétt alla öldina. Ástæðan fyrir því að vægi ýmissa hefðbundinna greina minnkaði felst þannig varla í „ógnum hnattvæðingarinnar“, að minnsta kosti ekki í því að lönd eins og Kína og Indland tóku að láta að sér kveða á alþjóðamarkaði undir lok aldarinnar. Ástæðan felst miklu frekar í vaxandi hagsæld Íslendinga.
Staðreyndin er nefnilega sú að eftir því sem hagsæld eykst beinist eftirspurn fólks í auknum mæli að gæðaframleiðslu, menningu, tryggingum o.s.frv. – en það hefur aftur mikil áhrif á ráðstöfun mannaflans í mismunandi störf. Það sem auðveldaði þessa þróun voru tækniframfarir, svo og aukin menntun og hæfni launafólks, sem gerði mögulegt að spara mannafla í hefðbundnum greinum án þess að draga úr framleiðslumagninu.
Það er aftur á móti ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að frá því á sjöunda áratugnum eða svo hafa ákveðnar atvinnugreinar nánast horfið úr landi, meðal annars vegna samkeppni á alþjóðamarkaði. Þetta á til dæmis við um húsgagna- og innréttingasmíðar, skipasmíðar og fataiðnað. Í þessu samhengi má velta því fyrir sér hvort hægt hefði verið að bregðast við með markvissara nýsköpunarstarfi í viðkomandi greinum þannig að til hefðu orðið öflug fyrirtæki sem staðist hefðu samkeppnina á grundvelli gæðaframleiðslu.

Trygging gegn ókyrrum kjörum

Þessi lauslega athugun á stöðu launafólks og horfnum störfum gefur ekki ótvírætt til kynna hvort Ísland er í kapphlaupi upp á toppinn eða niður í svaðið. Samt er ljóst að ákveðin veikleikamerki eru fyrir hendi: Vísbendingar eru um að tekjur hafi hækkað minna en efni standa til og um að ákveðnir hópar hafi dregist mjög mikið aftur úr í lífskjörum. Þá hafa vissar atvinnugreinar nánast horfið úr landi á allra síðustu áratugum, meðal annars vegna samkeppni við láglaunalönd.
Til að tryggja sem best að við stefnum frekar upp á við er því nauðsynlegt að innleiða í íslenskt samfélag ábyrga og réttláta hnattvæðingu, þ.e.:

l Treysta verður forsendur stöðugleika.
l Treysta verður stöðu fólks á vinnu-markaði.
l Efla verður menntun og mannauð.
l Efla verður rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun.
l Auka verður alþjóðlega samvinnu og reglusetningu.
l Tryggja verður samfélagslega ábyrgð
fyrirtækja.

Með tilliti til þessara sex þátta má spyrja hvað við getum gert betur. Ýmsar leiðir eru til að meta það. Nýlega kom til dæmis út á vegum Iðntæknistofnunar könnun á samkeppnishæfni Íslands. Helstu niðurstöður má nota til að leggja gróft mat á hvað við getum gert betur.
Á heildina litið kemur Ísland ágætlega út, raðast í 14. sæti af 125. Þegar litið er á niðurstöðurnar með tilliti til einstakra þátta kemur hins vegar ýmislegt athyglisvert í ljós. Eins og sjá má á mynd 2 þurfum við að bæta okkur verulega á sviði nýsköpunar, menntunar og hvað varðar efnahagsleg skilyrði.
Í vísitölu nýsköpunar og þróunarþátta er Ísland til dæmis aðeins í 17. sæti, talsvert neðar en öll nágrannalöndin nema Noregur. Í vísitölu æðri menntunar er Ísland í 13. sæti, einnig talsvert neðar en nágrannalöndin. Jafnvægi í efnahagslífinu er almennt viðurkennt sem mikilvæg forsenda hagvaxtar. Stöðugleiki þarf að vera í verðlagi, gengi og vöxtum. Í efnahagsskilyrðum er Ísland í 58. sæti, langtum neðar en öll nágrannalöndin.