Landsvirkjun getur gert samkomulag við starfsmenn um notkun eigin bifreiða þeirra. Greiðsla fyrir slík afnot skal fara eftir taxta ferðakostnaðarnefndar á hverjum tíma.
Landsvirkjun sér um, að öryggisbúnaður sé ávallt eins fullkominn og frekast er kostur og að fyllsta öryggis sé gætt við allan rekstur í samræmi við lög og reglugerðir um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Starfsmönnum ber að fara eftir þeim reglum, sem settar eru í því skyni.
Starfsmenn skulu fá vinnuföt eftir þörfum. Landsvirkjun skal sjá um þrif á þessum fatnaði. Ef starfsmenn eru látnir vinna sérstaklega óhrein störf, leggur Landsvirkjun þeim til hlífðarföt við þá vinnu, þeim að kostnaðarlausu, einnig til hlífðar slagviðri og skaðlegum efnum.
Starfsmönnum skulu lögð til verkfæri og vinnutæki þeim að kostnaðarlausu. Landsvirkjun sér um að öll verkfæri og vinnutæki séu í góðu lagi, þannig að þau valdi ekki slysahættu.
Landsvirkjun leggur starfsmönnum til, þeim að kostnaðarlausu, hlífðarbúnað svo sem hlífðarvettlinga, hlífðarsvuntur, öryggisbelti, öryggisgleraugu, öryggisgrímur, öryggishjálma og öryggisskó, við þau störf þar sem slíks búnaðar er krafist, samkvæmt öryggisreglum, enda er starfsmönnum skylt að nota hann.
Starfsmenn skulu fara vel með hlífðar- og vinnuföt, verkfæri og öryggisbúnað sem Landsvirkjun leggur þeim til. Útbúnaði sem starfsmenn hafa fengið skv. ákvæðum greina 8.2.2 – 8.2.4 skulu þeir skila ef þeir hætta sem starfsmenn Landsvirkjunar.
Verði starfsmaður sannanlega fyrir tjóni á nauðsynlegum, algengum fatnaði og munum við vinnu sína, svo sem úrum, gleraugum o.s.frv., skal það bætt skv. mati. Slík tjón verða einungis bætt ef þau verða vegna óhappa á vinnustað.
Eigi skal bæta slíkt tjón verði það vegna gáleysis eða hirðuleysis starfsmanna.
Skylt er starfsmanni að boða forföll í tæka tíð ef hann getur ekki mætt til vinnu. Ennfremur skulu þeir, sem eru fjarverandi, láta vita með góðum fyrirvara, áður en þeir mæta aftur til vinnu.
Fastir starfsmenn fá greidd laun fyrsta starfsdag hvers mánaðar, þannig að dagvinnulaun ásamt þeim álögum sem þeim tengjast, eru greidd mánaðarlega fyrirfram; föst umsamin yfirvinna greiðist fyrir næstliðinn mánuð; en önnur yfirvinna greiðist fyrir tímabilið frá 16. til 15. næstliðins mánaðar.
Hreinlætisbúnaður allur skal á hverjum tíma vera fullnægjandi að dómi Hollustuverndar ríkisins og Vinnueftirlits ríkisins.
Nauðsynlegustu sjúkragögn og lyf skulu vera tiltæk á vinnustað.
Félögum þeim og samböndum, sem eru aðilar að samningi þessum er heimilt að velja sér trúnaðarmann úr hópi starfsmanna á hverjum vinnustað.
Starfsmönnum er heimilt að snúa sér til trúnaðarmanna með hvers konar óskir og kvartanir viðvíkjandi vinnunni og öðru er þeir telja ábótavant, svo og um hugmyndir og atriði sem betur mætti fara. Að öðru leyti skulu trúnaðarmenn stuðla að sem eðlilegustu samstarfi innan Landsvirkjunar og að samningur þessi svo og lög og reglur, sem starfsmenn varða, séu haldnar í öllum greinum.
Trúnaðarmaður skal ræða þessi efni eftir þörfum við verkstjóra eða aðra stjórnendur fyrirtækisins til að ráða þeim til lykta.
Trúnaðarmanni skal heimilt í sambandi við ágreiningsefni að yfirfara gögn og vinnuskýrslur, sem ágreiningsefnið varðar. Fara skal með slíkar skýrslur sem trúnaðarmál eftir eðli máls.
Skal trúnaðarmaður með vitund verkstjóra síns verja þeim tíma, sem þörf krefur á vinnustað til trúnaðarmannastarfa sinna í þágu starfsmanna eða verkalýðsfélags og laun hans ekki skerðast af þeim sökum.
Ákvæði þessi undanþiggja ekki trúnaðarmenn mætingaskyldu, viðveru og venjulegri skyldu til að stimpla tímakort við upphaf og lok hvers vinnudags.
Um trúnaðarmenn vísast að öðru leyti til rammasamnings ASÍ og VSÍ frá 22. júní 1977.
Námskeið í hjálp í viðlögum skal haldið árlega á kostnað Landsvirkjunar
Starfsmönnum skal gefinn kostur á að sækja námskeið og kynnisferðir sem koma þeim að gagni í starfi. Í þeim tilvikum að starfsmenn sæki slík námskeið eða kynnisferðir með samþykki vinnuveitanda, skulu starfsmenn halda föstum launum sínum á meðan, á sama hátt og um veikindadaga væri að ræða.