Samstarf um rekstur á BB-verkefninu

Nýverið var gengið frá samkomulagi milli Samtaka iðnaðarins, Samiðnar og Vinnueftirlits ríkisins um rekstur BB-verkefnisins sem á sér um tveggja ára forsögu þar sem sömu aðilar ráku það um skeið. Verkefnið hófst sem kunnugt er með könnun sem SI og Samiðn létu gera meðal byggingar- og málmfyrirtækja á öryggis-, heilsu- og umhverfismálum fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra. SI og Samiðn vildu vinna áfram með niðurstöður könnunarinnar og leita leiða til að bæta það sem í ljós kom að betur mátti fara hvað þessi mál varðaði og leituðu eftir samstarfi við Vinnueftirlit ríkisins. Það samstarf varð til þess að komið var á fót verkefni sem nefnt var BB-verkefnið, Betri líðan – bættur hagur, og fól í sér að færa finnsk kerfi í öryggismálum á vinnustöðum yfir á íslensk fyrirtæki. Í verkefninu tóku jafnframt þátt nokkur fyrirtæki í byggingar- og málmiðnaði sem tóku að sér að prufukeyra kerfin.

Niðurstaða verkefnisins þótti það góð, þ.e. að segja kerfin þóttu reynast svo vel, að verkefnisstjórnin lagði til við Samtök iðnaðarins, Samiðn og Vinnueftirlitið að átakinu sem hófst með BB-verkefninu,yrði haldið áfram og þá með nýrri verkefnisstjórn. Hlutverk þeirrar stjórnar verður að vera tengiliður við finnska eigendur kerfanna og semja við aðila um að reka BB-verkefnið, halda utan um kerfin og kenna notkun þeirra. Verkefnisstjórnin hefur verið skipuð og sitja í henni Eyjólfur Bjarnason og Ingólfur Sverrisson fyrir hönd SI, Þórunn Sveinsdóttir og Sigfús Sigurðsson fyrir hönd Vinnueftirlitsins og Halldór Jónasson og Hermann Guðmundsson fyrir Samiðn. Fyrirhugað er að leita eftir samkomulagi við Iðuna – fræðslusetur um að halda námskeið um notkun kerfanna og sjá um rekstur BB-verkefnisins.
Samtök iðnaðarins hafa lýst yfir ánægju sinni með að þetta samkomulag sé í höfn og hvetja fyrirtæki til að taka upp aðferðafræðina sem felst í TR-mælinum og Elmeri, því hún er einföld og skilvirk. Reynsla Finnanna af notkun þessara kerfa hefur sýnt að slysum fækkar, rekstur vinnustaða batnar og fyrirtækin hagnast á notkun þeirra.
Eyjólfur Bjarnason