Í þessu máli var tekist á um tvö megin atriði, annars vegar greiðsluábyrgð Impregilo á vangreiddum launum til Monteiro og hins vegar hvort miða ætti við ákvæði ráðningarsamnings um að greiða honum laun sem trésmiðs eða verkamanns.
Samkvæmt ráðningarsamningi við starfsmannaleiguna Select var maðurinn ráðinn sem trésmiður en starfaði aldrei sem slíkur og fékk ekki laun samkvæmt kjarasamningi trésmiða. Hæstiréttur féllst ekki á rétt hans til trésmiðalauna þar sem hann vann ekki þau störf og lagði ekki fram vottorð um að hann hefði réttindi sem trésmiður en eftir því var aldrei óskað. Taldi Hæstiréttur fullnægjandi að trésmiðurinn fengi verkamannalaun í samræmi við lágmarkstaxta nýgræðings á vinnumarkaði.
Hins vegar féllst Hæstiréttur á meginkröfu Samiðnar um að Impregilo hafi ábyrgð gagnvart því að tryggja starfsmönnum erlendra starfsmannaleiga lágmarkskjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Þessari ábyrgð hafði Impreglio mótmælt í málinu og vísað á portúgölsku starfsmannaleiguna. Impregilo ber því fjárhagslega ábyrgð á því að allir þeir erlendu starfsmenn sem hér starfa fái greidd laun í samræmi við íslensk lágmarkskjör. Það er staðfest með dómi Hæstaréttar að á þriggja mánaða starfstíma mannsins voru kjör hans í hverjum mánuði undir lágmarkskjörum.
Niðurstaða dómsins er sú að Impregilo hafi brugðist þessari fjárhagslegu ábyrgð sinni og ber að skoða það í ljósi þess að hundruð erlendra starfsmanna hafa unnið á Kárahnjúkum á þeim þremur árum sem verkið hefur staðið yfir. Þennan dóm ber einnig að skoða í ljósi niðurstöðu Félagsdóms í svokölluðu Sóleyjarbyggðarmáli frá 7. júlí s.l. þar sem segir að notendaábyrgð feli í sér að notendafyrirtæki sem notar sér starfskraft erlendra starfsmanna ber ábyrgð á því að þeir njóti lágmarkskjara samkvæmt íslenskum kjarasamningum.
Í ljósi þessara tveggja dóma liggur fyrir að notendafyrirtæki geta ekki þvegið hendur sínar og vísað ábyrgð á erlend fyrirtæki sem senda starfsmenn hingað til lands hvað varðar að tryggja starfsmönnum lágmarkskjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum.