Mikil umræða hefur verið að undanförnu um erlenda starfsmenn á Íslandi. Félagsmenn Samiðnar hafa manna helst fundið fyrir þeim áhrifum sem koma erlendra verkamanna hefur haft á vinnumarkaðinn. Áhrifin hafa birst með mörgum og misjöfnum hætti.
Stjórnvöld ákváðu eins og menn muna að ráðast í stærstu virkjun sem gerð hefur verið á Íslandi og byggja jafnframt álver á sama tíma. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið lét gera mannaflaspá fyrir verkefnin, fyrst 1999 og endurskoðaði þá spá síðan 2003. Í þeirri skýrslu var gert ráð fyrir að á mesta þenslutímanum á svæðinu gæti íslenskur vinnumarkaður mannað um 60% af verkefninu en erlent vinnuafl þyrfti í um 40% starfa. Svo var tekin ákvörðun um stækkun álvers á Grundartanga, virkjanir á Hellisheiði og Reykjanesi. Ríkisstjórnin ákvað að hækka íbúðarlán í 90% hámark og bankarnir fylgdu á eftir inn á íbúðarlánamarkaðinn. Niðurstaðan varð mesta sprengja í framkvæmdum sem sögur fara af. Allir ætluðu að græða. Því vantaði verkafólk í allar gerðir starfa og mest í byggingarframkvæmdir og störf tengd þeim. Starfsmannaleigur spruttu upp og ímyndunaraflið var notað til hins ýtrasta að sveigja frá íslenskum lögum. Íslensk stjórnvöld gerðu engar ráðstafanir til að mæta þessum nýju aðstæðum með skýrari reglum á vinnumarkaðnum. Þar sem vinnuaflið kom frá ríkjum sem stóðu lakar en Ísland hvað varðar laun, aðbúnað, vöruvöndun og öryggismál átti að flytja það lakasta sem fannst í viðkomandi löndum hingað og margir hverjir töldu að það væri löglegt og siðsamt. Hugsunin var svipuð og ef þeir sem flytja inn bíl á erlendum númerum teldu að hámarkshraði gilti ekki fyrir þá og hvorki stöðvunarskylda né skoðunarskylda. Þeir mættu haga sér eins og bandittar í umferðinni. Slíkt var ástandið á tímabili.
Þrotlaus vinna
Með þrotlausri vinnu verkalýðshreyfingarinnar hefur komist lag á vinnumarkaðinn. Við endurskoðun kjarasamninga keyptum við lög um starfsmannaleigur af ríkisstjórninni gegn framlengingu samninga. Gegn sama gjaldi keyptum við af ríkisstjórninni lög um starfsemi erlendra þjónustufyrirtækja. Í þeim var skýrð staða starfsmanna slíkra fyrirtækja þegar þeir eru við störf hér á landi. Þá voru skyldur notendafyrirtækis einnig skýrðar. Einnig er kveðið á um eftirlit yfirvalda á vinnustöðum og viðurlög við brotum. Einnig var á sama tíma gert samkomulag við SA um að koma því á að þeir sem vinna á byggingarvinnustöðum skuli bera á sér sérstök persónuskilríki til að auðvelda vinnustaðaeftirlit. Þá var samið um að gera sérstakt átak gegn gerviverktöku og setja reglur um opinber innkaup. Einnig að sporna við svartri atvinnustarfsemi, duldum launagreiðslum og brotum á reglum um virðisaukaskatt. Þetta er sérstaklega gert til að jafna samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem eru með allt sitt á hreinu og vilja keppa á jafnréttisgrundvelli. Sem betur fer eru þau í miklum meirihluta.
Notkunarfyrirtækin
Á þessum umbrotatímum síðustu fimm árin hafa félög innan Samiðnar þurft að draga fyrirtæki fyrir bæði félagsdóm og héraðsdóm vegna ýmissa brota á lögum, reglugerðum og kjarasamningum. Við höfum lagt í mikinn herkostnað til að verja kjör þeirra erlendu starfsmanna sem hingað hafa komið og þá í leiðinni okkar eigin kjör. Miðstjórn Samiðnar tók fljótlega þá afstöðu þegar vandamálin hrönnuðust upp vegna þessa mikla innflutnings erlendra starfsmanna að víglínan ætti að vera notkunarfyrirtækin en ekki þeir erlendu starfsmenn sem hingað komu alls ókunnir íslenskum lögum og kjarasamningum. Við teljum að þannig eigi að halda á. Við horfum ekki fram hjá því að veruleg vandamál hafa komið upp vegna spennuástandsins en við höfum verið að vinna í þeim eins og að framan greinir.
Nú er framundan að treysta enn betur þau lög og reglur sem gilda á vinnumarkaðnum. Næst þarf að mínu mati að styrkja neytendahliðina og gæðamál. Fyrirtæki eiga ekki að komast upp með að setja fólk með litla sem enga þekkingu í flókin iðnaðarmannastörf, hverrar þjóðar sem þeir eru. Fyrirtæki geta ekki skotið sér á bak við þau rök að enga iðnaðarmenn sé að hafa því við erum með vinnumarkað sem telur hundruð milljóna.
Þar komum við að kjarna málsins. Framundan eru kjarasamningar. Við þurfum að leggja í mikla forvinnu við að undirbúa okkur sem best því það ástand sem við höfum upplifað að undanförnu stendur að mínu viti áfram næstu ár þótt ég líti á þetta sem tímabundið ástand. Einnig þurfum við að horfa til þess tíma þegar spennunni linnir. Þá þurfa allar öryggisgirðingar að vera í lagi. Þetta verður verkefni næstu kjarasamninga. Fyrirtæki komast ekki upp með að lækka laun í okkar greinum með því annars vegar að mismuna fólki eftir þjóðerni í launum og hins vegar að nota ófaglært fólk í fagstörf.
Finnbjörn A. Hermannsson formaður Samiðnar