Sá sem bjargar einu barni bjargar mannkyninu

Spes-samtökin eru alþjóðlegur félagsskapur fólks sem hefur það að markmiði að bæta lífsskilyrði barna sem búa við erfiðar aðstæður, eru mörg hver munaðarlaus og hafa fáa möguleika í lífinu. Í mörgum tilvikum er það jafnvel svo að möguleikar þeirra á að halda lífi fram á fullorðinsár eru takmarkaðir. Tilgangur og markmið samtakanna endurspeglast að nokkru leyti í nafninu, en Spes er latneskt orð sem þýðir von á íslensku. Tilgangurinn birtist jafnframt í einkunnarorðum samtakanna, en þau eru: Sá sem bjargar einu barni bjargar mannkyninu. Njörður P. Njarðvík, prófessor emeritus, er stofnandi og forvígismaður samtakanna, ásamt konu sinni Beru Þórisdóttur og fleiri hjónum. Við ræddum við Njörð á heimili hans nýverið og spurðum fyrst um það hvernig Spes hefði komið til.

„Þetta byrjaði þannig að við hjónin fórum fyrst til Afríku árið 1998. Við fórum þá til þriggja landa, Kamerúns, Tógós og Fílabeinsstrandarinnar. Í Tógó kynntumst við svolitlum hópi af fólki, en einkum og sér í lagi hjónum sem við bjuggum hjá. Hann er Tógómaður en konan frönsk. Við fórum að spjalla saman um að ástandið væri slæmt og hvort við gætum prófað að gera eitthvað. Þetta hófst þannig fyrir hálfgerða tilviljun. Síðan eigum við hjónin vinahjón í Lyon í Frakklandi, sem ólust upp í Senegal. Það voru því þessi þrenn hjón sem þróuðu hugmyndina um Spes áfram og undirbjuggu stofnun samtakanna, en við vorum síðan tólf sem byrjuðum. Það má því segja að samtökin hafi orðið til fyrir tilviljun, en þannig gerast nú oft hlutirnir í lífinu.“

350 manna vígsluathöfn

Undirbúningi stofnunarinnar fylgdi mikil skriffinnska. Samtökin eru alþjóðleg, starfa eftir frönskum lögum og hafa aðsetur í París. Félagið var stofnað árið 2000, þannig að meðgangan var frá 1998. Samtökin þurftu síðan að fá leyfi til að starfa í Tógó. „Þetta er ekki þannig að hver sem er geti komið og sagt: Hér er ég – hvar eru börnin?“ segir Njörður. „Sem betur fer. Þegar við vorum búin að fá leyfi til að starfa, þá fórum við að velta fyrir okkur hvernig við ættum að byrja. Við komumst fljótlega á þá skoðun að það þýddi lítið að fara að leita til fólks og fara fram á fjárstuðning fyrir börn út á eitthvað sem við ætluðum að gera. Við yrðum að byrja á að sýna eitthvað.
Þess vegna brugðum við á það ráð að taka á leigu lítið einbýlishús í Lomé, höfuðborg Tógós. Við byrjuðum þar með átta börn í apríl 2001. Við ákváðum að hafa litla vígsluathöfn og létum boð út ganga í hverfinu um hvort fólk vildi ekki koma og samgleðjast okkur.“
Það komu 350 manns. Þetta vakti mikla athygli og það var fjallað um þetta í blöðum í Tógó. „Þremur dögum síðar vorum við kölluð fyrir þáverandi forseta landsins. Hann vildi vita hvaða fólk væri hér á ferð og hvað við ætluðum okkur. Þá sögðum við honum að við værum að semja um að kaupa lóð til að byggja framtíðarheimili. Þegar hér var komið stoppaði hann mig og sagði nei! Ef þið ætlið að fara að hjálpa börnunum okkar, þá er það minnsta sem við getum gert að láta ykkur hafa lóð til að byggja á. Ég vissi ekki hvernig ætti að taka þessu – hvort við ættum að taka þessu alvarlega.“
Tveggja metra varnarmúrar
Þremur mánuðum síðar barst bréf þar sem tilkynnt var um úthlutun hálfs hektara í úthverfi Lomé. Þá var maður byrjaður að byggja þarna í leyfisleysi. Hann var búinn að steypa sökkul og reisa veggi. Það var ákveðið að ganga til samninga við hann og honum var greitt það sem hann hafði lagt út og síðan var lokið við húsið. „Áður en menn hefjast handa við að byggja hús þurfa þeir að reisa tveggja metra háan múr umhverfis svæðið sem þeir ætla að byggja á. Þetta er heilmikil framkvæmd og kostar talsvert fé. Múrinn er fyrst og fremst í öryggisskyni.“
Lokið var við að byggja þetta fyrsta hús og þangað var flutt með 20 börn í október 2003. Þá var hægt að bæta við 10 börnum, því það gátu verið 30 börn í þessu húsi. „Við fengum síðan til liðs við okkur tógóskan arkitekt til að skipuleggja með okkur svæðið. Hann vildi hafa til hliðsjónar hefðbundinn arkitektúr þeirra frá miðöldum – hálfgert turnhús. Þetta eru dálítið dýrari hús en ef við reistum bara ferkantaða kassa, en þau eru um leið miklu fallegri.“ Að sögn Njarðar hafa nú verið reist sjö hús á svæðinu og börnin orðin 87 á þessum tiltölulega stutta tíma.
Varð til á skrifstofu í Evrópu
Tógó er með fátækari löndum í Afríku, ekki þó það allra fátækasta. Meðaltekjur manna eru sem svarar einum dollar á dag, 360 dollarar á ári. Það er ekki hungur, ef menn hafa smá-blett, þá geta þeir ræktað. Það er því talsverður sjálfsþurftarbúskapur í landinu. Ástandið er verst í borgunum, eins og annars staðar í Afríku. Fólk sækir í borgirnar og það er um 40% atvinnuleysi. Sumir hafa hænur eða geitur og rækta ávexti. „Bestu ávextir sem ég hef bragðað eru ávextirnir í Tógó. Fólk þarf ekki mikið. Þarna fer hiti yfirleitt ekki niður fyrir 27 gráður yfir nóttina og það er jafn hiti allt árið. Það eru tvö regntímabil og það eru ekki þurrkar í Tógó. Þar eru hins vegar ekki náttúruauðæfi. Það eina sem flokkast þannig er fosfat, sem er notað í tilbúinn áburð. Það er flutt úr landi og unnið annars staðar. Síðan rækta menn baðmull, kaffi, kakó og ávexti. Þarna búa um 6 milljónir og landið er 56 þúsund ferkílómetrar, langt og mjótt, um helmingur af flatarmáli Íslands. Eins og mörg önnur lönd er það búið til á skrifstofu í Evrópu. Landið var helmingi stærra, þýsk nýlenda, en þegar Þjóðverjar misstu allar nýlendur sínar í stríðslok árið 1918 skiptu Frakkar og Bretar landinu með reglustiku. Þetta er franski hlutinn. Það sem þeir hugsuðu aldrei um er að heimasvæði þjóðanna liggja ekki frá norðri til suðurs heldur frá austri til vesturs. Syðst í landinu er þjóð sem býr í fjórum ríkjum, talar sama tungumál og hefur líka menningu. Í miðju Tógó eru hásléttur og þar býr annað fólk og í norðurhlutanum eru savannahéruð. Í Tógó eru fimm meginþjóðflokkar. Fólk í norðurhluta Tógó og í suðurhlutanum skilur ekki hvort annað og talar frönsku sín á milli. Ættflokkarnir hafa mikil áhrif í stjórnmálum, en það er ekki ófriður á milli manna.“
Í Tógó var fyrsta valdaránið framið 1963, tveimur árum eftir að landið fékk sjálfstæði. Núna er þarna lýðræðisleg stjórn. Forsetinn er kosinn beinni kosn-ingu, eins og í Bandaríkjunum. Það er algjör aðskilnaður framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Forseti skipar ríkisstjórn og ráðherra má ekki sitja á þingi. Á þinginu urðu mikil umskipti í kosningum í október í fyrra. Nú eru einungis þrír flokkar á þingi en höfðu verið margir og mörg flokksbrot og núna er stjórnmálaástandið tiltölulega stöðugt.
Félagið hefur forræði
yfir börnunum
Fljótlega var stofnað dótturfélag Spes í Tógó. Félagið vinnur á sama grundvelli og önnur Spes-félög, öll vinna er sjálboðavinna og þátttakandinn greiðir allan kostnað af þátttöku sinni í starfinu. Dótturfélagið var ekki síst stofnað til að geta gengið frá forræði barnanna heima í Tógó, því öll börnin sem dvelja hjá Spes eru á forræði samtakanna. Þegar nýtt barn kemur er gengið formlega frá því við félagsmálayfirvöld í Tógó að samtökin fái forræði yfir barninu. Þau eru ekki öll munaðarlaus, sum eiga móður eða föður sem hefur ekki tök á að sjá fyrir þeim af einhverjum ástæðum. Að sögn Njarðar er talsvert um kynferðislega misnotkun í Tógó eins og víðar og stundum verða mjög ungar stúlkur barnshafandi án þess að hafa líkamlegan eða andlegan þroska til þess. Meðganga og fæðing fara oft mjög illa með þessar ungu stúlkur og þær ráða ekki við að sjá um börn. Þeim er oft útskúfað. Algengt er að konur deyi af barnsförum. Svo var um þriggja barna móður fyrir nokkru og faðirinn missti konuna sína og var einn eftir með fjögur börn. Þau eru öll hjá Spes núna. Þegar annað foreldra er á lífi er flutningur forræðis til Spes gerður með samþykki foreldris, sem skrifar undir pappíra þess efnis. „Í sumum tilvikum halda foreldrar sambandi við barnið eftir að það kemur til okkar. Við höfum ekkert á móti því, síður en svo. Við viljum hafa samskipti barnanna við aðra, utan veggja Spes, sem mest og best. Við viljum ekki að þetta sé lokuð stofnun eins og víða er, þar sem allt fer fram innan veggja stofnunarinnar. Strax og börnin hafa aldur til fara þau á leikskóla með öðrum börnum. Þegar þau eru komin á skólaaldur fara þau í barnaskóla í hverfinu. Allt frá því að börnin okkar fóru að sækja barnaskólann höfum við stutt hann. Til þess liggja tvær ástæður. Önnur er sú að með öllum þessum börnum aukum við á byrði skólans. Hins vegar er okkur umhugað um að skólinn verði eins góður og hægt er.“
Bæta ástandið í grunnskólanum
Njörður segir skólann í hverfinu hafa verið í slæmu ástandi. Byrjað hafi verið á því að hjálpa til við að reisa múr umhverfis skólann, ekki síst til að koma í veg fyrir að börnum sé hreinlega stolið. Í Tógó er stolið um 2000 börnum á ári, kerfisbundið. Þau eru síðan flutt úr landi. Þess eru dæmi að börnum hafi verið stolið úr þessum skóla. Síðan var rætt við skólastjóra, kennara og foreldra barnanna í skólanum og spurt hvað kæmi að bestum notum fyrir skólann. „Það fyrsta sem þau nefndu var rafmagn. Síðan sömdum við um að við sæjum um að leggja rafmagnið, en þau tækju síðan við. Við viljum að fólkið leggi eitthvað fram líka. Við gáfum þeim 200 borð og skóla og reistum hús með þremur skólastofum. Í Tógó byggja sveitarfélögin skólana en ríkið greiðir kennurum. Um leið og við vorum búin að byggja þrjár stofur komu þrír nýir kennarar. Þá fækkaði börnum í hverjum bekk en í fyrsta bekk eru þó ennþá næstum 100 börn í bekkjardeild. Nú ætlum við að reisa á þessu ári og næsta sex nýjar stofur. Í þetta verkefni setjum við 60.000 evrur. Þetta er auðvitað að hluta til stuðningur við okkar börn, en samfélagið allt nýtur góðs af því og samtökin njóta mikillar velvildar vegna þessa. Það hefur komið upp umræða um að setja börnin í einkaskóla, en við höfum viljað að þau færu í almenna skóla. Það er hluti af því að þau séu þátttakendur í samfélaginu og aðlagist, því hjá okkur verða þau ekki til eilífðar.“
Hvað eru börnin gömul sem hjá ykkur eru?
„Elsta barnið er að verða 13 ára. Í byrjun tókum við einungis börn undir þriggja ára aldri, en höfum stundum vikið frá því, til dæmis þegar um systkin er að ræða. Nýlega tókum við á móti fjórum systkinum þar sem það elsta var sex ára. Við erum með samning við barnalækni sem kemur á hverjum laugardegi, annaðhvort hann eða aðstoðarfólk. Síðan höfum við samning við barnasálfræðing sem er tvisvar sinnum hálfan dag í viku. Þegar börnin eldast vakna alls kyns spurningar – af hverju er ég hér? Öll hafa þessi börn átt erfiða byrjun í lífinu. Okkur finnst skipta máli að geta brugðist við þessum spurningum og aðstæðum sem upp kunna að koma af kunnáttu og fagmennsku.“
Mikill hluti teknanna frá Íslandi
Eins og fram hefur komið eru börnin nú 87 og 36 þeirra eiga íslenska styrktarforeldra. Þótt samtökin séu alþjóðleg er stór hluti teknanna frá Íslandi. Tekjur síðasta árs voru um 450 þúsund evrur og þar af komu um 325 þúsund frá Íslandi. Samtökin hafa notið mikils velvilja margra íslenskra fyrirtækja, samtaka og einstaklinga, eins og fram kemur á heimasíðu þeirra, wwwspes.is. „Það var par að gifta sig nýverið, þau báðust undan gjöfum en báðu fólk um að gefa Spes. Þetta voru 400 þúsund krónur. Skólakrakkar á Austurlandi gáfu okkur 100 þúsund, þannig að það er margt hægt að gera og velviljinn er mikill.“
Auk þessara fjármuna kemur fé úr styrktarmannakerfinu. Síðan hafa samtökin í sumum tilvikum gert samstarfssamninga við Þróunarsamvinnustofnun um afmörkuð verkefni. „Þeir hafa borgað helming í húsi og við höfum sent þeim nákvæma reikninga fyrir kostnaði við húsið. Húsin eru boðin út í upphafi, hvert svefnhýsi sem er fyrir 25–30 börn kostar um 77 þúsund evrur.“
En hvernig er styrktarmannakerfið?
„Það kostar 77 evrur á mánuði að vera styrktarforeldri, en það er talsvert meira en í flestum öðrum samtökum sem starfa á sambærilegum vettvangi. Sveiflur á gengi krónunnar hafa því mikil áhrif hér á landi og þróunin undanfarið er áfall fyrir okkur og fyrir styrktarforeldra. Þetta eru um 9000 krónur á mánuði eins og gengið er núna. Af þessum 77 evrum fara 10 í menntunarsjóð barnsins. Þegar börnin fara frá okkur, um 18 ára aldur, hafa þau því ákveðinn höfuðstól til að mennta sig fyrir. Af því að við höfum ekki neina beina fyrirmynd að starfinu, heldur byggjum það að mestu leyti frá grunni, þá erum við ekki búin að skilgreina nákvæmlega hvað gerist þegar börnin verða 18 ára. Við erum að vinna að því að börnin eignist vinafjölskyldu, líkt og gert er með flóttamenn hér, til að hjálpa þeim að aðlagast og sjáum fyrir okkur að svona sambandi verði komið á þegar barn er 14 ára.“
Hvernig er sambandi styrktarforeldra við börnin háttað?
„Við viljum að það sé samband á milli styrktarforeldra og barns, en það er allur gangur á því hvernig það gengur fyrir sig. Sumir fara í heimsókn, aðrir senda myndir og gjafir. Við getum ekki skipað fólki að fljúga til Tógó, en þess eru dæmi að styrktarforeldrar fljúgi þangað einu sinni á ári og við Bera hittum okkar strák tvisvar á ári. Hann kallar okkur pabba og mömmu, en yfirleitt kalla börnin styrktarforeldrana afa og ömmu.“
Þar sem samtökin hafa forræði yfir börnum hlýtur að vera gott samband við stjórnvöld.
„Já, félagsmálayfirvöld í Tógó hafa náið eftirlit með rekstri allra aðila sem starfa á þessu og skyldum sviðum, hjálparstofnunum og munaðarleysingja-hælum. Þeir hafa lokað slíkum stofnunum. Við erum áfram um að þetta eftirlit sé virkt. Við höfum verið heppin með starfsfólk og við höfum lagt áherslu á að vera með fagfólk, til dæmis sálfræðing, sem er trúnaðarmaður barnanna. Ég er stundum spurður að því hvernig ég hafi fundið allt þetta fagfólk. Það var bara ekki þannig, fólkið fann mig. Þetta er yfirleitt menntað fólk, fólk sem við köllum hér millistéttarfólk. Formaður Spes í Tógó er prófessor í læknisfræði og þarna er fyrrverandi aðstoðarbankastjóri, einn er lögfræðingur, annar fæðingarlæknir, félagsráðgjafi og fleira. Þetta er góður hópur.“
Ótengt trúarbrögðum
Spes er ótengt trúarbrögðum. Njörður er þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt, ekki síst í ljósi þess að þrenn megintrúarbrögð eru í landinu. „Við lítum ekki á það sem hlutverk okkar að skipta okkur af því hvað börnin vilja trúa á. Þessi hugmyndafræði var öll þróuð í samvinnu við heimamenn. Það er okkar grundvallarstefna að börnin verði góðir þegnar á forsendum síns eigin lands og eigi að geta fengið menntun sem hugur þeirra og geta stendur til. Auðvitað gengur þeim misjafnlega vel í skóla, en það á að vera opið. Við tryggjum þeim aðgang að almennri menntun og síðan fara 10 evrur á mánuði í menntunarsjóðinn. Við vitum eiginlega ekki almennilega hvað það dugar langt. Elsta barnið er ekki nema 13 ára. Við vitum ekki heldur hvað styrktarforeldrarnir vilja gera þegar barnið er orðið 18 ára. Vilja þeir hætta, eða vilja þeir halda áfram að styðja barnið?“
Njörður er spurður um næstu skref.
„Þegar við byrjuðum árið 2001 datt okkur ekki í hug að við yrðum komin svona langt sjö árum síðar. Við höfum ákveðið að láta peningana ráða hraðanum. Nú erum við komin á það stig að við erum komin langt með að fjármagna þorp númer tvö. Þar er stuðst við sömu teikningar og áður, þannig að verktakinn þekkir húsin sem hann er að byggja og er með 40 verkamenn í vinnu. Þetta á að geta gengið hratt. Við höfum fengið tilmæli um að fara til annarra landa, en höfum ekki enn tekið því. Þar hafa komið til greina Kamerún, þar sem við þekkjum fólk, og það hefur verið rætt við okkur um Senegal. Fjárhagslegar forsendur þar stóðust aftur á móti ekki. Það hefur verið rætt um Haítí, en ég hef verið hræddur við það. Það er í annarri heimsálfu og mikið mál að yfirfæra þetta módel þangað. Ég held að við einbeitum okkur að Tógó í nánustu framtíð.“
Sneri sér að barn-
eignum fyrir alvöru

Það er að skilja á Nirði að hann vilji koma starfseminni í Tógó á fastari grundvöll, áður en farið er að huga að „útrás“. Atburðarásin hefur verið hröð og mun hraðari en forvígismennirnir áttu von á.
Dyrabjallan hringir. Dóttursonur þeirra hjóna er kominn, íklæddur KR-búningi og fer ekki með veggjum. Það er ljóst að hann er á heimavelli hjá afa og ömmu, ekki síður en á KR-vellinum sem sést út um stofugluggann. Hann er nýbúinn að fá einkunnir í skólanum, eftir sjötta bekk, vitnisburðurinn óvenju glæsilegur. Þessum pilti standa greinilega margar dyr opnar.
Það er ljóst að til að taka þátt í þessu starfi þarf fólk að fórna ýmsu, ekki síst þeir sem eru í forystu. Það þarf sterkan vilja og mikinn áhuga á velferð barna. Þegar við spyrjum Njörð hvað hafi ýtt honum af stað segir hann: „Þegar ég fór á eftirlaun var ég stundum spurður að því hvað ég ætlaði að gera eftir að ég léti af störfum. Þá sagði ég stundum að nú ætlaði ég fyrir alvöru að snúa mér að barneignum.“ Kjörorð samtakanna, Sá sem bjargar einu barni bjargar mannkyninu, segja meira en mörg orð. „Ef allir gerðu þetta,“ segir Njörður, „þá væri barnavandamál í heiminum úr sögunni. Þetta kjörorð er fengið að láni og aðlagað úr sögunni sem sögð er í kvikmyndinni Schindler’s list, en þar stóð inni í hring sem honum var gefinn: Sá sem bjargar einu mannslífi … Þetta er upphaflega úr Talmúd, sem er trúarrit gyðinga. Annars kemur ævintýrið af Steini Bollasyni, sem Steingrímur Thorsteinsson þýddi á sínum tíma, stundum upp í hugann. Hann eignaðist allt í einu 100 börn með hjálp Guðs. Ég segi stundum að ég ætli að slá honum við áður en ég hverf héðan. Ég hugsa að við verðum komin yfir 100 börn á næsta ári. Mér finnst þá vera komið að ákveðnum tímamótum og eðlilegt að endurnýja í forystunni. Síðan erum við hjónin engin unglömb og það þarf að yngja upp.“ Blaðamaður er tregur til að fallast á þetta og spyr hvort það sé áhyggjuefni á þessari stundu. „Heldur þú að áttatíu og sjö barna afi hafi ekki stöðugar áhyggjur?“ spyr Njörður og kímir.

Nánari upplýsingar um samtökin og starfsemi þeirra er að finna á heimasíðu þeirra, www.spes.is, og á alþjóðlegu heimasíðunum www.spesworld.free.fr (frönsk) og www.scalphil.free.fr (ensk). Formaður Spes á Íslandi er Ólöf Nordal alþingismaður.