Verðum að treysta því að þjóðarskútunni sé stýrt af einhverju viti

Finnbjörn Hermannsson formaður Samiðnar segir kaupmáttaraukningu meginstefið í kröfugerð Samiðnar
– Það kemur skýrt fram í okkar kröfugerð, sem við kynntum atvinnurekendum fyrir skemmstu, að við leggjum höfuðáherslu á almennar launahækkarnir með það fyrir augum að tryggja aukinn kaupmátt okkar félagsmanna. Auk þessarar meginkröfu okkar erum við með langan lista yfir ýmis mál sem við viljum ræða við atvinnurekendur og ríkisvaldið við gerð nýs kjarasamnings, segir Finnbjörn A. Hermannsson formaður Samiðnar í samtali við blaðið en núgildandi kjarasamningur Samiðnar rennur út um áramótin.

– Við erum á þessari stundu ekki með neinar tölur um það hvað við viljum sjá miklar hækkanir á okkar töxtum, þær líta dagsins ljós þegar líður tekur á samningsgerðina. Fyrst í stað ætlum við að fara yfir sviðið með atvinnurekendum og heyra hvað þeir ætla sér að bjóða. Við höfum ekki ennþá fengið viðbrögð þeirra við kröfum okkar. Menn virðast þó vera sammála um að semja til skamms tíma að þessu sinni. Það eru blikur á lofti í efnahagsmálum þjóðarinnar, verðbólgan mælist nú hærri en gerst hefur lengi og meðan það ástand ríkir er ekki ráðlegt að gera kjara-samning til langs tíma, segir Finnbjörn sem telur ekki ólíklegt að Samiðn leggi til að samningstíminn verði í mesta lagi eitt og hálft ár.
– Við ætlum þó að skoða það að hafa samningstímann lengri ef aðilar verða ásáttir um að setja inn uppsagnarákvæði sem má nýta ef forsendur samningsins bresta, segir hann, og vonar að nýr samn-ingur liggi á borðinu áður en núverandi samningur rennur út.
– Við höfum sjaldan verið eins vel undirbúin fyrir samningaviðræður og nú. Þing Samiðnar samþykkti í vor að efna til kjaramálaráðstefnu þar sem kröfugerðin yrði undirbúin. Ráðstefnan var haldin á Selfossi um miðjan október og sóttu hana 70 fulltrúar, trúnaðarmenn og stjórnir allra aðildarfélaga Samiðnar. Fulltrúarnir lögðu á sig mikla vinnu á þessari ráðstefnu við að móta þær kröfur sem Samiðn hefur nú lagt fram, segir Finnbjörn, og er afar sáttur við þá vinnu sem fór fram á Selfossi.
– Á ráðstefnunni var farið yfir alla þætti núverandi kjarasamnings og þeir vegnir og metnir. Öllum steinum velt við. Menn skoðuðu orlofsmál, veikindarétt, starfsréttindi og endurmenntun, svo fátt eitt sé nefnt. Niðurstöðurnar úr þessum umræðum eru það veganesti sem miðstjórn Samiðnar hafði síðan til að byggja á sína kröfugerð, segir Finnbjörn og bætir við að hann hafi jafnframt farið á félagsfundi hjá mörgum aðildarfélögum til þess að heyra hljóðið í félagsmönnum.
Bæði á þeim fundum og einnig á ráðstefnunni á Selfossi hefur komið fram að félagsmenn Samiðnar skiptast í tvo hópa hvað varðar launakjör. Annars vegar eru það þeir sem búa og starfa hér á suðvestur-horninu og svo hinir sem kjósa að búa og starfa annars staðar. Það verður að segjast eins og er að hlutskipti þessara hópa er misjafnt. Fyrrnefndi hópurinn býr við mun betri kjör en sá síðarnefndi, sem virðist í flestum tilfellum aðeins bera úr býtum taxtakaup eins og það lítur út hverju sinni. Launaskriðið á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni hefur verið hins vegar verið meira á undanförnum árum. Við viljum reyndar meina að það launaskrið hafi að einhverju leyti farið framhjá iðnaðarmönnum ef marka má niðurstöður síðustu könnunar frá kjararannsóknanefnd, áréttar Finnbjörn. – Við ætlum í komandi kjara-samningum að breyta þessari mynd. Annars vegar viljum við jafna launamuninn á milli þessara hópa með því að berjast fyrir umtalsverðum leiðréttingum á launa-töxtum. Hins vegar stefnum við að því að bæta félagsmönnum okkar upp það sem þeir hafa farið á mis við í því launaskriði sem verið hefur.

Þriggja þrepa kauptaxtar

Finnbjörn segir að ein af kröfum Samiðnar sé að kauptaxtakerfið verði endurskoðað.
– Við viljum koma á þrískiptu kauptaxtakerfi sem endurspeglar veru-leikann á vinnumarkaðnum. Í fyrsta lagi yrði samið um kauptaxta fyrir iðnaðarmenn sem sýnt geta fram á sveinspróf eða sambærilega menntun. Í öðru lagi yrði búinn til taxti fyrir menn sem geta sýnt fram á menntun í iðninni en hafa ekki lokið sveinsprófi, og í þriðja lagi viljum við taxta fyrir sérhæfða aðstoðarmenn. Með þessu viljum við tryggja að menn fái greitt eftir menntun og reynslu, segir Finnbjörn. Hann segir að í kröfugerð Samiðnar megi finna ýmis fleiri atriði sem snúa að launa-kjörum félagsmanna, svo sem kröfu um aukið stjórnunarálag, um endurskoðun á kaflanum um vaktavinnu og um að kauptaxtar iðnnema verði teknir til endurskoðunar.

Veikindaréttur

– Það eru ekki bara launin sem við viljum ræða við atvinnurekendur heldur margt fleira, svo sem um veikindarétt. Þar viljum við betri skilgreiningu á staðgengilslaun-um, sem hafa áhrif á hvað menn fá borgað í veikindum sínum, og jafnframt viljum við skýrari reglur um hvernig launamaður tilkynnir veikindi sín. Einnig viljum við ræða áfram um breytingar á veikinda- og slysarétti en þau mál hafa verið töluvert í umræðunni að undanförnu og komið upp róttækar hugmyndir um breytingar á því sviði.
– Það kom fram ákveðin krafa á ráð-stefnunni á Selfossi um að endurmennt- unarmál okkar yrðu tekin til endurskoðun-ar, segir Finnbjörn. – Við teljum nauðsynlegt að tryggja að menn sæki endurmenntun og héldu sér við faglega. Við teljum því nauðsynlegt að okkar félagsmenn eigi kost á að stunda endurmenntun á launum. Við viljum kanna hug atvinnurekenda til þess að semja um þetta. Hingað til hafa menn þurft að nýta frítíma sinn til þessa en því viljum við breyta og teljum að það sé hagur bæði atvinnurekenda og félagsmanna okkar.
Finnbjörn segir sí- og endurmenntun iðnaðarmanna afar brýnt mál. Eins og vinnumarkaðurinn hefur þróast hér á landi að undanförnu skiptir það miklu í samkeppninni um störfin að menn haldi sér vel við og geti sýnt fyrsta flokks vinnu. Að undanförnu hefur verið mikið rætt um gæði vinnunnar, sérstaklega í byggingariðnaðinum og við teljum það nauðsynlegt að okkar félagsmenn séu í fararbroddi þegar kemur að faglegri þekkingu og faglegum vinnubrögðum. Annars er hætta á því að við verðum undir í samkeppni við ódýrt vinnuafl erlendis frá sem nú á greiðan aðgang að vinnumarkaðnum hér, segir Finnbjörn, og bætir við að Samiðn hafi lengi barist fyrir því og geri nú um það kröfu að tekin verði upp vinnustaðaskilríki fyrir alla starfsmenn, til dæmis á byggingarstað, þar sem meðal annars komi fram starfsheiti hvers og eins. – Við viljum með þessu auðvelda vinnustaðaeftirlit, því eins og alþjóð veit hefur mikið borið á því að undanförnu að menn sem hafa ekki tilskilin réttindi hafa verið að ganga í störf iðnaðarmanna. Slíkt vinnustaðakort er ekki síður neytendavernd, því mikið er um að menn séu að vasast í hlutum sem þeir hafa ekki vit á og gefi sig út sem fulllærða á viðkomandi sviði. Þá teljum við félagsmenn okkar einnig betur í stakk búna að hafa skoðun á því hvort þeir eru tilbúnir að vinna með viðkomandi starfsmönnum ef þeir hafa ekki tilskilda menntun.
Finnbjörn segir margt fleira að finna í kröfugerð Samiðnar og nefnir sérstaklega orlofsmálin.
– Við munum leggja áherslu á að félagsmenn okkar fái lengra orlof. Nú er það svo að sumir þeirra hafa allt að 28 daga orlofsrétt og við ætlum að beita okkur fyrir því að allir félagsmenn Samiðnar fái sambærilegan rétt. Einnig þarf að gera orlofs-tímann sveigjanlegri. Það er komin upp sú staða á Íslandi að fjölskyldur standa frammi fyrir því tvisvar á ári að taka sér frí vegna þess að skólum barna þeirra er lokað. Við viljum laga orlofsréttinn að þessari staðreynd þannig að foreldrum sé auðveldað að mæta þessu ástandi. Einnig viljum við taka upp viðræður við atvinnurekendur um vetrarfrí en það hefur færst í vöxt að ýmsar stéttir fá slíkt frí og við viljum taka þátt í þeirri þróun, segir Finnbjörn. Hann segist lítið vita um samningsvilja atvinnurekenda.

Samstaða

– Þeir eru núna að meta okkar kröfur og fara yfir þetta. Yfirlýsingar þeirra að undanförnu gefa ekki tilefni til bjartsýni en tíminn leiðir í ljós hvernig menn á þeim bæ eru stemmdir, segir Finnbjörn og
leggur áherslu á að verkalýðshreyfingin standi saman um ýmis meginmál. – Við höfum að undanförnu verið að stilla saman strengi, iðnaðarmennirnir innan ASÍ, og fara yfir sameiginleg mál. Mér sýnist að sá hópur sem samanstendur af okkur, Rafiðnaðarsambandinu, Matvís, bóka-gerðamönnum og VM geti náð saman um að berjast fyrir sameiginlegum málum. Ekki bara gagnvart atvinnurekendum
heldur einnig gagnvart ríkisvaldinu.
Finnbjörn segir að Samiðn vilji ræða ýmis mál við stjórnvöld. Aðkoma þeirra að samningagerðinni sé nauðsynleg til þess að greiða fyrir samningum.
– Við leggjum höfuðáherslu á skatta-mál, og þar vegur þyngst krafa okkar um hækkun skattleysismarka með því að hækka persónuafsláttinn. Við viljum að hann verði tengdur launavísitölunni þannig að hann hækki samhliða launa-þróun í landinu. Auk þess viljum við endurskoðun á skattlagningu lífeyris frá lífeyrissjóðunum, Það er náttúrlega óþol-andi að mismuna fólki eftir því hvernig það leggur fé til elliáranna. Sé borgað í lífeyrissjóð bera greiðslur fullan skatt en ef peningarnir eru lagðir í banka þarf bara að greiða fjármagnstekjuskatt sem er mun lægri, segir Finnbjörn, og bætir við að Samiðn hafi lengi barist fyrir því að lífeyr-isréttindi félagsmanna Samiðnar verði jöfn þeim rétti sem opinberir starfsmenn njóta. – Þessi mál viljum við ræða við ríkisvaldið, sem og ýmis mál sem varða almannatryggingarnar.
– Húsnæðismálin eru þó það sem við setjum á oddinn í viðræðum okkar við stjórnvöld. Þar stefnir í óefni fyrir ákveðna hópa, og á þeim vanda viljum við taka í viðræðum við stjórnvöld. – Okkar helstu kröfur í þeim efnum eru að greiðslubyrði af húsnæðislánum verði lækkuð, að þeir fái sérstaka aðstoð sem eru að kaupa íbúðarhúsnæði í fyrsta sinn, og að stuðn-ingur við félagsleg úrræði í húsnæðismálum verði aukin, þar á meðal með því að hækka húsaleigubæturnar, segir Finnbjörn, og áréttar að samstaða sé innan ASÍ um þessar kröfur.
En það sem ræða þarf hvað alvarlegast við ríkisvaldið er efnahagsstjórn þess. Ef við erum að loka kjarasamningum til ein-hvers tíma þarf að vera vissa fyrir því að þjóðarskútunni sé stýrt af einhverju viti, sem mér hefur sýnst skortur á að undanförnu. Við siglum hraðbyri að tveggja stafa tölu í verðbólgu og erum með hæsta matarverð á norðurhveli jarðar og auk þess okurvexti sem menn voru settir inn fyrir að taka fyrir um tuttugu árum. Þrátt fyrir góðan vilja og skátahugsun er ég ekki tilbúinn eina ferðina enn að sitja uppi með að félagsmenn ASÍ beri einir ábyrgð á stöðugleika í efnahagslífinu.