Fróðlegar umræður á þingi IN um þróun hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar, ögranir alþjóðavæðingarinnar og flótta iðnaðarframleiðslunnar til austurs
Um miðjan júní var haldið í Reykjavík fyrsta þing IN, eða „Industrianställda i Norden“ sem eru Samtök starfsfólks í norrænum iðnaði. Gestgjafar voru Samiðn og Starfsgreinasambandið en þingið sóttu yfir 70 fulltrúar frá 22 starfsgreina-félögum sem áður mynduðu Norræna málmiðnaðarsambandið og Norræna iðnaðarsambandið. Auk norrænu fulltrúanna sátu þingið forsvarsmenn Evrópusamtaka starfsfólks í málmiðnaði, efna- og orkuiðnaði og forystumenn alþjóðasamtaka verkafólks í sömu greinum auk fataiðnaðar.
Þinginu lauk með umræðum þar sem sex framkvæmdastjórar Evrópu- og alþjóða-samtaka iðnverkafólks sátu í pallborði og ræddu um framtíðarsýn verkalýðshreyfing-arinnar og þær ögranir sem alþjóðavæðing-in kallar yfir verkafólk heimsins. Áður kom þó í ræðustól Kjell Björndalen sem hefur lengi verið í forystu fyrir norrænu iðnverkafólki en hefur nú látið af formennsku og er að eigin sögn „að nálgast síðasta söludag“.
Björndalen sagði að á þeim 20 árum sem hann hefði starfað á alþjóðavettvangi hefði orðið mikil breyting á starfsemi samtaka iðnverkafólks. Í stað þess að vera eins konar ályktanakvörn hefðu þau breyst í virk samtök sem hafa umtalsverð áhrif á þróun mála í iðnaði Evrópu og heimsins alls. Enn væri nóg að starfa því stéttarfélögin þyrftu að taka mið af nýrri heims-mynd þar sem iðnaðarframleiðslan færist til Kína og í vaxandi mæli einnig Indlands. Þetta kallaði á náið samstarf á alþjóðavettvangi sem gengi þvert á landamæri starfsgreina.
Fjögur meginverkefni
Fyrstur framkvæmdastjóranna sex tók til máls Reinhard Reibsch frá Evrópusam-tökum starfsmanna í námu-, efna- og orkuiðnaði, skammstafað EMCEF, en þau hafa aðsetur í Brussel. Að hans sögn fer drjúgur tími samtakanna í að styrkja hinn evrópska samruna með starfi á vettvangi Evrópusambandsins. Til þess að gera starf-ið skilvirkt og markvisst hefði sambandið ákveðið að einbeita sér að fjórum sviðum:
Að miðlun upplýsinga til aðildarfélaga um evrópsk og alþjóðleg málefni sem varða verkalýðshreyfinguna. Nauðsynlegt sé að félögin geti fylgst með því sem er að gerast, bæði á sviði kjaramála og félagsmála.
Að samræmingu á stefnu verkalýðsfélaga. „Við vitum að það er stundað að etja félögum saman og þar sem nú eru í gildi um 250 kjarasamningar á okkar starfs sviði er nauðsynlegt að samræma stefnuna. Meðal viðsemjenda okkar eru mörg af stærstu fyrirtækjum Evrópu og samningar við þau hafa mikil áhrif, ekki bara á kjör verkafólks um alla álfuna heldur einnig stefnu Evrópuríkja í félags- málum,“ sagði Rebsch.
Að hagsmunavörslu gagnvart þróun mála í Evrópusambandinu. „Við þurfum að standa á varðbergi gagnvart því sem þar er að gerast og snertir hagsmuni félagsmanna okkar, taka afstöðu til breytinga og móta stefnu á fjölmörgum sviðum.“
Síðast en ekki síst að samstöðuverkefn- um af ýmsu tagi. „Þau eru kannski ekki jafn-brýn á Norðurlöndum og áður, þar sem lífskjörin hafa batnað,“ sagði Rebsch, „en víða í nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins er staðan ekki eins góð og þar eru stéttarfélög enn að berjast fyrir tilverurétti sínum. Þau þarf að styðja.“
Skortur á orku og hráefnum
Peter Scherrer frá Evrópusamtökum járniðnaðarmanna, EMF, tók næstur til máls og ræddi stöðu járniðnaðar í Evrópu. „Eitt af því sem helst mæðir á evrópskum járniðnaði í nánustu framtíð er skortur á hráefnum, og hans er raunar farið að gæta nú þegar á sumum sviðum, til dæmis í ál- og stáliðnaði. Við sjáum merki þess að fyrirtækin eru farin að leita leiða til að tryggja sér aðgang að hráefni og ekki síður orku, við vitum að olía er ekki óendanleg. Orkuskortur er ef til vill ekki vandamál hér á landi, en víða annars staðar eru við-vörunarbjöllur farnar að gjalla.
Ef við lítum á stálfyrirtækin sjáum við að þau hafa lengi stundað það að flytja stál heimshorna á milli. Með hækkun olíuverðs eykst flutningskostnaður og þar með er þetta ekki eins arðbært lengur. Þessi þróun tengist einnig umhverfismálum. Þau setja iðnfyrirtækjum áður óþekktar skorður og kalla á nýja stefnu í málefnum iðnaðarins.
Þessi þróun verkar sem hvati á samtök iðnverkafólks að móta sér stefnu í málefn-um atvinnugreinarinnar og taka virkan þátt í því að móta framtíð hennar.
Félögin þurfa einnig að hafa meiri afskipti en áður af mótun starfsmanna- stefnu fyrirtækjanna. Þar reynir oft á samstöðuna þegar fyrirtækin eru að breyta uppbyggingu sinni, sameinast, leggja niður störf eða færa þau milli landa. Við getum ekki látið okkur nægja að takast á við neikvæðar afleiðingar breytinganna heldur verðum við að hafa áhrif á það hverjar breytingarnar verða. Fyrirtækin verða æ stærri og fjölþjóðlegri, sem gerir þörfina fyrir alþjóðlega starfsemi stéttarfélaga brýnni. Við getum ekki sætt okkur við það að heilar iðngreinar hrynji heldur eigum við að reyna að hafa áhrif á þróunina,“ sagði Scherrer.
Í lokin varaði hann við þeirri þróun sem nú væri farið að bera nokkuð á að tækniþekkingin elti framleiðsluna austur á bóginn. Hingað til hefðum við getað huggað okkur við að Evrópa stæði framarlega í tækniþekkingu en þetta væri að breytast. Nú væru ýmsar hátæknivörur, til dæmis frá Nokia/Siemens og Alcatel, ekki lengur byggðar á evrópskri tækniþekkingu. Þetta væri þróun sem brýnt væri að bregðast við.
Sjálfbær þróun
Manfred Warda frá Alþjóðasamtökum starfsfólks í efna-, orku- og námuiðnaði og almenns verkafólks, ICEM, ræddi um samruna verkalýðsfélaga sem hann sagði að hefði verið nokkuð ör á síðustu árum og sæi ekki fyrir endann á þeirri þróun. Þetta væri af hinu góða því samruni stuðlaði að breiðari samstöðu og samstarfið sem auð-veldar hreyfingunni að takast á við alþjóðavæðinguna og þau nýju verkefni sem henni fylgja.
Þvínæst sneri Warda sér að verkefni sem samtök hans hafa sett á oddinn í starfi sínu en það er að stuðla að sjálfbærri þróun. „Sumir eru þeirrar skoðunar að öll iðnaðarstarfsemi sé íþyngjandi fyrir umhverfið og því ekki sjálfbær. Þessum röddum þurfa menn að gefa gaum og stuðla að því að iðnfyrirtæki og stjórnvöld gangi í það verk að endurskipuleggja iðnaðarstarfsemina og gera hana sjálfbæra. Ef við gerum það ekki fljótlega er hættan sú að þetta verði enn kostnaðarsamara,“ sagði hann.
Hann sagði að verkalýðshreyfingin hefði ýmis tæki til þess að hafa áhrif á þróun iðnaðarstarfsemi. „Eitt þeirra er fólgið í vexti fjárfestingarsjóða en þar leika eftirlaunasjóðir verkalýðshreyfingarinnar æ stærra hlutverk. Þetta á einkum við um Bretland og Bandaríkin. Þessir sjóðir eru ekki þekktir fyrir að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi í fjárfestingum sínum heldur miðast þær fyrst og fremst við skammtímahagnað. Þessu gæti verkalýðshreyfingin breytt.
Í þessu samhengi má ekki gleyma félagslegu hliðinni en þar hljótum við að stefna að því að sem flestir búi við það sem kallað hefur verið „mannsæmandi vinnuaðstæður“ og byggist á því að tryggja starfsfólki starfsmenntun, starfsöryggi og góða og örugga vinnustaði.
Í Kína er nú verið að ræða nýja vinnumálalöggjöf. Þar eru mörg fyrirtæki undir þrýstingi um að leyfa starfsemi verkalýðsfélaga á vinnustaðnum og því hafa bandarísk fyrirtæki mótmælt. Við gerum okkur vonir um að evrópsk fyrirtæki sýni því meiri skilning. Þarna kemur líka til sög-unnar ákveðinn ágreiningur innan hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar. Evrópsku félögin vilja koma á viðræðum við stjórnendur fyrirtækjanna sem þau vonast eftir að leiði til þess að starfsemi stéttarfélaga verði viðurkennd. Bandarísku félögin vilja hins vegar knýja fyrirtækin að samninga-borðinu og láta þau skrifa undir samning um viðurkenningu félaganna áður en við-ræðurnar hefjast. Í haust verður haldin ráðstefna í Washington þar sem viðurkenning á rétti verkalýðsfélaga verður rædd.
Í lokin vil ég nefna átökin á milli norðurs og suðurs um gæði heimsins en þar tel ég lífsspursmál fyrir verkalýðshreyfinguna að beita sér af fullu afli fyrir jafnari skiptingu lífsgæðanna og uppbyggingu stéttarfélaga í þróunarríkjunum. Ef við gerum það ekki getum við ekki tekið á helstu úrlausnarefnum mannkyns, á borð við sjálfbæra þróun og hlýnun loftslags. Ef okkur stendur á sama um fátækt fólks í þróunarlöndunum getum við ekki gert kröfu til þess að það leggi sitt af mörkum til þess að draga úr útblæstri. Það er erfitt að taka á þeim vanda meðan fólk sveltur í heiminum,“ sagði Manfred Warda.
Ljótar sögur úr austri
Neil Kearney frá Alþjóðasambandi verkafólks í vefjar-, fata- og skinnaiðnaði, ITGLWF, var ekkert að skafa utan af hlutunum, enda naut hann þess að vera eini frummælandinn sem talaði á móðurmáli sínu.
„Í morgun vorum við að ræða vanda-mál sem tengjast iðnréttindum félagsmanna okkar. Það er gott og blessað hér í íslensku kyrrðinni. Ég var hins vegar að koma frá Kambódíu þar sem við hittum kollega sem voru að berjast fyrir því að verkamenn sem höfðu misst vinnuna yrðu endurráðnir. Leiðtogar þeirra voru hund-eltir af byssumönnum sem höfðu einnig auga með okkur allan tímann sem við vorum þarna. Þetta var greinilega gert til að ógna.
Þar áður var ég á Indlandi þar sem tvö mál bar á góma. Annað snerist um konu í Bangalore sem vann í verksmiðju fram á síðustu mínútu meðgöngu vegna þess að hún vildi ekki missa af mánaðarlegum bónus fyrir góða mætingu en hann nam tveim evrum (um 170 kr.). Þegar hríðirnar hófust átti hún í vandræðum með að fá frí og samstarfsfólki hennar var bannað að fylgja henni heim. Hún eignaðist barnið rétt utan við verksmiðjuhúsið, klippti sjálf á naflastrenginn en missti svo barnið sem datt á steinlagða gangstétt og dó. Í sömu borg veiktist ung kona í vinnunni en var neitað um frí. Hún var slegin og það var öskrað á hana. Á endanum fór hún inn á klósett og hengdi sig.
Þannig er heimurinn í raun og veru. Vinnan er ekki alltaf mannsæmandi. Því miður helst þetta í hendur við kreppu í hinni alþjóðlegu verkalýðshreyfingu. Í öllum heimsálfum fækkar fólki í stéttarfélögum og hér í norðri þar sem allt gengur vel er hreyfingin sjálfhverf, við týnum okkur í smáatriðum heima fyrir í stað þess að hugsa um hag verkalýðsins á heimsvísu.
Á sama tíma er tvennt í gangi sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Annars vegar er það aukinn samruni verkalýðsfé-laga sem er í sjálfu sér ágætt ef það eykur styrk þeirra. En gallinn er sá að í þessum samruna verða þeir sterkari oft ofan á en þeir veikari vilja gleymast. Það á ekki hvað síst við um iðnverkafólk í smærri fyrir-tækjum og farandverkafólk.
Á hinn bóginn er það gagnstæða að gerast í þróunarríkjunum, þar skiptast félögin upp í æ smærri einingar. Í Kambódíu eru 27 félög fyrir 300.000 starfsmenn í fataiðnaði. Í Bangladesh eru 118 félög í greininni. Með sama áfram- haldi verður stofnað verkalýðsfélag utan um hvern einasta verkamann.
Þessi þróun hittir ekki síst fyrir fata- og vefjariðnaðinn. Hann er starfræktur í 160 löndum og framleiðslan fer mest til út-flutnings inn á 30 markaði þar sem samkeppnin er afar hörð. Opinberar tölur um starfsmenn í þessum geira eru 30 milljónir en eflaust er annar eins fjöldi óskráður að störfum í Kína og Indlandi einum saman. Raunverulegur fjöldi á heimsvísu er sennilega um 150 milljónir. Í Tyrklandi, sem liggur að landamærum Evrópusambands- ins, er sagt að 600 þúsund manns starfi í greininni en rétta talan er fjórar milljónir. Til þess að geta gengið í stéttarfélag verða menn að vera skráðir svo þar standa ansi margir utan þeirra.“
Stækkum einingarnar
„Vefjar- og fataiðnaður hefur löngum verið reyrður í regluverk sem hefur lagt ýmsar hömlur á viðskipti með afurðirnar. Árið 2005 tók gildi samningur þar sem þessum hömlum var að mestu aflétt í nafni við-skiptafrelsis. Eftir það hefur fataiðnaður þurrkast út í mörgum löndum þriðja heimsins, einkum í löndum Afríku og Rómönsku Ameríku þar sem tugir þúsunda starfa hafa horfið. Í Tyrklandi eru 100 þúsund störf horfin.
Mörg þessara starfa hafa verið flutt til austurhluta Evrópu en þar er nú orðinn skortur á starfsfólki vegna þess hve margir hafa flust búferlum til vesturhlutans. Nú er verið að flytja verkafólk frá Kína og öðrum Asíuríkjum til Rúmeníu til að vinna í fataiðnaði.
Þetta leiðir til þess að verslunin og alls konar milliliðir ráða ferðinni í iðngreininni en iðnfyrirtækin gegna orðið aukahlutverki. Við í verkalýðshreyfingunni erum vön því að vinna með iðnrekendum en það dugir ekki lengur. Við þurfum að snúa okkur að versluninni því þar ráðast kjör fólksins okkar. Í stað þess að binda okkur við framleiðslufyrirtækin þurfum við að ná til allrar keðjunnar sem endar í stór-mörkuðum Vesturlanda. Markmið okkar er að allir búi við mannsæmandi kjör í sínu starfi. Þess vegna er sjálfbær þróun það sem koma skal, hún byggist á staðbundnum lausnum á staðbundnum vanda.
Kína er sérstök ögrun því þar er nú hægt að framleiða 75% alls fatnaðar sem heimurinn þarfnast. Þar eru aðeins 3% starfsmanna í útflutningsiðnaði og einkafyrirtækjum félagar í stéttarfélögum og
flestir þeirra eru stjórnendur á sínum vinnustað. Við reynum að vinna beint með verkafólkinu sjálfu og erum bjartsýnir á að það beri árangur. Við bindum ákveðnar vonir við að viðskiptafrelsið auðveldi okkur að styrkja stéttarfélögin þegar fram líða stundir.
Með loftslagsvandann, þá er stærsta vandamál okkar sú staðreynd að með aukinni hlýnun andrúmsloftsins þarf fólk ekki lengur að klæðast fötum! Án gríns er mesti vandinn að við höfum ekki nógu mikla peninga til að starfa fyrir. Því má mæta með því að stækka einingarnar og fækka samböndunum. Árið 1995 var lögð fram tillaga um sameiningu allra samtaka iðnverkafólks í eina alheimshreyfingu sem síðan skiptist í deildir eftir iðngreinum. Sú tillaga var felld en hefði hún orðið að veru-leika værum við betur stödd nú,“ sagði Neil Kearney.
Alþjóðlegir rammasamningar
Síðastur frummælenda var Hiroshi Kamada frá Alþjóðasambandi járniðnaðarmanna, IMF. Hann ræddi einkum um þá erfiðleika sem verkalýðshreyfingin mætir í viðleitni sinni til að virkja starfsfólk til að sækja rétt sinn. Meðal þess sem ylli nokkr-um vandræðum væri sú þróun sem víða gætir að einskorða starf að málefnum starfsmanna við fyrirtækið eða vinnu-staðinn. Það kæmi í veg fyrir að hægt væri að taka á mikilvægum kjaramálum sem snerta allt verkafólk, svo sem þeim þáttum sem snúa að félagslegu öryggi.
Kamada ræddi einnig reynsluna af gerð alþjóðlegra rammasamninga við fjölþjóðleg fyrirtæki um kjör starfsmanna þeirra. Hún er afar misjöfn, að svo miklu leyti sem hægt er að fylgjast með henni. Þó væru dæmi um ágæta reynslu af slíkri samningagerð. Flestir samningarnir hafa verið gerðir við fyrirtæki af evrópskum uppruna og þaðan eru flestar sögurnar af góðum árangri. Þó hafa verið gerðir samningar með góðum árangri við fyrirtæki frá Rússlandi, Tyrklandi og Suður-Afríku. Hins vegar hafa bandarísk fyrirtæki verið afar treg til að gera slíka samninga. Það væri hins vegar tilgangslaust að gera samninga ef þeim væri ekki fylgt eftir, þá væru þeir varla pappírsins virði.
Sóknin til austurs
Að loknum framsöguerindum var rætt um ýmsa þætti í starfsemi hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar og sagðar reynslusögur. Fram kom að á vegum ICEM er nú í gangi verkefni sem snýst um að kortleggja áhrif þjónustusamninga og starfsmannaleigna víða um heim en því á að ljúka nú í árslok. Samruna félaga bar nokkuð á góma og voru flestir á því að hann væri af hinu góða ef rétt væri að honum staðið. Sameining tryggði öflugra tæki í baráttunni fyrir mannsæmandi kjörum og vinnuaðstæðum verkafólks.
Stefan Löfven formaður IN steig í pontu í lokin og tók saman það helsta sem fram hafði komið. Hann tók undir með Peter Scherrer að mikilvægt væri að hreyfingin fylgdist með þróun iðnaðarins. „Það er mjög mikilvægt að tryggja iðnaðinum viðunandi starfsskilyrði því án hans er ekki hægt að halda uppi velferðarkerfinu.“
Hann vitnaði í sögurnar sem Neil sagði frá Indlandi og Kambódíu og sagði að þær gerðu okkur reið því það væri engan veginn hægt að sætta sig við að fólk byggi við því-lík kjör. „Við megum ekki þegja um þetta heldur verðum við að skýra frá og lýsa andúð okkar á því sem við sættum okkur ekki við,“ sagði hann.
Lokaorðin voru þau að þrátt fyrir allar hinar neikvæðu afleiðingar af flutningi fyrirtækjanna til austurs boðaði sú þróun ákveðna framtíðarsýn sem ýtti undir bjartsýni. „Eftir því sem fyrirtækin sækja lengra til austurs fækkar þeim löndum þar sem lífskjör almennings eru slæm. Á endanum verður ekkert land eftir fyrir fyrirtækin að flýja til. Þá höfum við náð árangri,“ sagði Stefan Löfven.