Vinnugleði Þjóðverjanna til eftirbreytni

Einar Mikael Sverrisson trésmiður brá sér í starfsþjálfun á vegum Leonardo-verkefnisins til Þýskalands áður en hann lauk trésmíðanámi. Hann segir hér frá reynslu sinni.

– Það sem kom mér kannski mest á óvart var hvað Þjóðverjarnir eru vinnusamir og hvað þeir hafa mikla ánægju af vinnunni. Hins vegar kom mér það ekki á óvart hvað vinnan var vel skipulögð, og allt sem að henni sneri, segir Einar Mikael Sverrisson trésmiður sem fór fyrir nokkru til Þýskalands og starfaði þar í mánuð hjá litlu byggingarfyrirtæki í bænum Ingelheim skammt sunnan við Frankfurt.
– Ég sótti um að komast í starfsþjálfun erlendis í gegnum Leonardo-verkefnið sem er á vegum Evrópusambandsins og er ætlað ungu fólki sem vill öðlast starfsþjálfun í löndum innan EES-svæðisins. Ég var svo heppinn að hljóta náð og fékk starf hjá þessu þýska fyrirtæki, en ég hafði sett Þýskaland sem land númer tvö á eftir Danmörku þangað sem mig langaði mest, þar sem ég ætla mér að reyna að komast í framhaldsnám, segir Einar sem útskrifaðist sem sveinn nú í janúar.
Þeir sem hljóta Leonardo-styrk fá 600 evrur í ferðastyrk og 150 evrur á viku í vasapening. Hverjum og einum er svo í sjálfsvald sett hvort hann krefst launa fyrir þá vinnu sem innt er hendi.
– Ég mat það svo að ekki væri grundvöllur fyrir launagreiðslum til mín fyrir þann tíma sem ég var í vinnu, en fyrirtækið niðurgreiddi fyrir mig húsnæðið. Viðtökurnar í Þýskalandi voru fínar. Fyrirtækið sem ég fékk vinnu hjá sérhæfir sig í byggingu timburhúsa. Þeirra sérsvið er þó aðallega í þökum og stigum. Alls störfuðu 15 smiðir hjá þeim, þar af einn nemi, segir Einar og bætir við að í Þýskalandi sé sérhæfingin mikil. Þeir smiðir sem hann vann með eru sérhæfðir í þessari vinnu og voru til dæmis allsendis ófærir um að skreppa í uppslátt, hvað þá að snúa sér að innréttingarvinnu.
– Ég var nokkuð brattur þegar ég fór út og taldi líklegt að ég gæti miðlað nokkuð af minni reynslu úr íslenskum byggingariðnaði, sem ég hef verið viðloðandi frá því ég var strákur. Annað kom á daginn. Þjóðverjarnir eru með allt það nýjasta bæði í verkfærum og efni. Þarna sá maður ýmis verkfæri sem ekki þekkjast hér og einnig efni. Ég kynntist til að mynda lengstu skrúfum sem ég hef séð, allt að 60 sentimetra löngum. Til þess að koma þessum skrúfum fyrir þarf sérstakar borvélar, segir Einar sem telur sig hafa lært töluvert á því að starfa með Þjóðverjunum þennan tíma. Ekki síst af því hvað allt var vel skipulagt og hvernig menn settu sér takmark á morgnana um að ákveðnum verkum skyldi lokið að kvöldi.
– Þetta er hægt þar sem allt er tilbúið áður en ráðist er í sjálfa framkvæmdina. Allar teikningar liggja fyrir og allt efni, og búið að ákveða hverjir gera hvað. Það kom nánast ekki fyrir að þessi markmið næðust ekki, segir Einar, og telur að íslenskir verktakar geti mikið lært af þessum vinnubrögðum. – Því miður er það svo, segir hann, að hér á landi er oft hafist handa áður en til dæmis teikningar eru tilbúnar.

Ekkert sérstök laun

– Þýskir smiðir eru misvel launaðir, segir Einar, – allt eftir því hversu flinkir þeir eru. Almenn laun trésmiða eru þó lægri þar en hér, um 10 evrur á tímann. Verðlag segir hann hins vegar vera hagstæðara. Þeir þýsku smiðir sem hann vann með vildu ólmir koma til Íslands að vinna þegar hann sagði þeim frá launum sem hér eru greidd, en hættu snarlega við þegar þeir fréttu hvað bjórinn kostaði.
Aðspurður um hvernig honum hafi gengið að eiga í samskiptum við vinnufélaga sína sagði hann að tungumálaörðugleikar hafi vissulega sett mark sitt á þau samskipti.
– Það kunni aðeins einn starfsmaður lítilræði í ensku. Ég er ágætur tungumálamaður og einsetti mér að læra þýsku eins fljótt og ég gæti og notaði meðal annars kvöldin í það nám. Þetta gekk svona ágætlega en vissulega kom það niður á öllum samskiptum að geta ekki tjáð sig almennilega við þessa menn, segir Einar sem lætur þess getið að hann hafi verið heppinn með leigusalann – hann hafi talað fína ensku og reynst honum vel í alla staði.
Einar hefur lengi átt sér þann draum að komast erlendis til starfa. – Ég tel að allir sem vinna við verklegar framkvæmdir hafi gott af því að bregða sér af bæ og kynnast því hvernig aðrar þjóðir standa að sínum framkvæmdum. Þá fyrst uppgötvar maður hvað við höfum það í rauninni gott hér. Það var nokkuð íþyngjandi til dæmis að þurfa að sitja í bíl kannski tvo tíma á leið í vinnu, segir Einar og nefnir sem dæmi að annar meistarinn hjá fyrirtækinu ók rúmlega tveggja tíma leið á vinnustað á hverjum degi. Alls fjóra tíma á dag!
– Ég hefði verið lengur ef kærastan hefði ekki togað í mig, segir Einar og hlær, og bætir við að hann eigi vafalaust eftir að reyna fyrir sér erlendis aftur, annaðhvort við vinnu eða nám.