Frá formanni

Kjaramálin

Nú um áramót renna kjarasamningar út hjá þeim sem starfa eftir kjarasamningum Samiðnar við SA, meistarafélögin og Bílgreinasambandið. Samiðn hefur verið að undirbúa sig undir þá nú í allt haust. Formaður fór á félagsfundi hjá þeim aðildarfélögum sem þess óskuðu og haldin var fjölmenn ráðstefna til undirbúnings, sem gerð er grein fyrir hér í blaðinu. Það sem fram kom á þessum fundum er að mjög er misskipt lífsins gæðum. Heilu landshlutarnir hafa setið eftir í launaþróun og einnig einstakir hópar innan okkar vébanda á suðvesturhorninu. Meðal-talshækkun launa síðustu 12 mánuði er 8,1%. Félagsmenn hafa einnig miklar áhyggjur af því að erlendir starfsmenn sem hingað koma og eru með öðruvísi próf en við, og í fæstum tilfellum sveinspróf, eru settir á verkamannalaun en vinna iðnaðarmannavinnu. Hér er um klár félagsleg undirboð að ræða. Unga fólkið kvartar undan húsnæðisverði. Þeir sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð er það í flestum tilfellum um megn. Leigumarkaðurinn er þessu fólki ekki kostur heldur þar sem leiguverð er dónalega hátt á höfuðborgar-svæðinu. Þetta er sá veruleiki sem við þurfum að horfast í augu við í komandi kjarasamningum.

 

Verðbólgan á hraðri uppleið

 

Við þurfum líka að horfast í augu við að skuldsetning heimilanna hefur aldrei verið meiri. Ofan á þetta allt er 5,2% verðbólga á ársgrunni og yfir 10% ef miðað er við síðustu þrjá mánuði. Stefna ríkisstjórn-arinnar í hagstjórninni hefur verið að treysta á þyngdarlögmálið. Það sem fer upp kemur aftur niður. Verðbólgan á hraðri uppleið. Húsnæðisverð hefur rokið uppúr öllu valdi og leigumarkaðurinn með. Þetta hlýtur að koma aftur niður, bara spurning um harða eða mjúka lendingu. Kjarasamningarnir taka mið af þessu öllu. Mín sýn á samningana er að annað-hvort náum við saman um tillölulega einfalda samninga á stuttum tíma og um stuttan tíma eða við verðum að semja flókna samninga til vors. Mín sýn er einnig að nú eigum við að banka uppá hjá ríkisstjórninni fyrr en áður þar sem við erum að semja um kaupmáttaraukningu og þá skiptir miklu hvernig skattamálum verður fyrirkomið, hvernig vextir verða, hvaða verðbólgu við megum búast við, hvort vaxtabótakerfið verður eitthvað lagfært og hvort unga fólkinu verður gert kleift að koma sér í öruggt húsaskjól. 

Gagnvart atvinnurekendum verður það forgangskrafa að treysta öryggisnetið með sérstakri hækkun launataxtanna og að þeir endurspegli nýjan raunveruleika í mismunandi menntun og færni. Það þarf einnig að leiðrétta laun þeirra sem setið hafa eftir á síðasta kjarasamningstíma og vinna eins og kostur er gegn aukinni misskiptingu í samfélaginu. Svo það er verk að vinna. 

Maður þarf að hugsa eins og björgunarsveitarmennirnir: „Við búum okkur undir það versta en vonum það besta.“

 

Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Samiðnar