1.maí – Verjum kjörin!

Á baráttudegi launafólks 1.maí verða hátíðarhöld verkalýðsfélaganna með hefðbundnum hætti undir slagorðinu „Verjum kjörin.“  Safnast verður saman á Hlemmi kl. 13 og lagt af stað í kröfugöngu niður Laugaveginn kl. 13:30 undir öflugum lúðrablæstri Lúðrasveitar verkalýðsins og Lúðrasveitarinnar Svans.  Útifundur hefst síðan á Ingólfstorgi að göngu lokinni, þar sem flutt verða ávörp og hljómsveitin Sprengjuhöllin flytur nokkur lok, auk þess sem Internationalinn verður sunginn í lok fundar.  Einstök félög bjóða síðan til kaffisamsætis fyrir félagsmenn sína og munu Félag iðn- og tæknigreina og Trésmiðafélag Reykjavíkur bjóða félagsmönnum og fjölskyldum þeirra til 1.maí kaffis í Ými við Skógarhlíð. 

1. maí ávarp Alþjóðasamtaka verkafólks (ITUC )

1. maí 2008 koma milljónir manna saman um heim allan og fagna þeim árangri sem náðst hefur í starfi verkalýðshreyfingarinnar á vegferð sem spannar meira en heila öld.

Grundvallargildi um jafnrétti, réttlæti, mannlega reisn og frið sem verkalýðshreyfingin hefur haft að leiðarljósi eru jafn þýðingarmikil í dag og þegar konur og karlar bundust böndum í árdaga fyrir bættum kjörum verkafólks. Þessi mikilvægu gildi liggja til grundvallar bæði Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess frá árinu 1948.

Staðreyndir tala hins vegar sínu máli og því miður eru þau grundvallarmannréttindi sem þessar mikilvægu samþykktir byggja á langt í frá hluti af daglegum veruleika stórs hluta mannkyns. Að vinna við mannsæmandi aðstæður er þannig einungis fjarlægur draumur fyrir meirihluta jarðarbúa. Miljónir barna sækja vinnu daglega í stað þess að stunda nám og grundvallarréttindum er haldið frá launafólki og það undir hæl siðlausra atvinnurekenda og stjórnvalda sem beita kúgun sem stjórntæki. Þá eykst ójöfnuður bæði innan ríkja og milli þeirra á sama tíma og lítill minnihlutahópur safnar að sér ótrúlegum auðæfum á kostnað annarra.

Gjaldþrot þeirrar stefnu við stjórn heimsmálanna sem byggir á aðferðum hins frjálsa markaðar hefur ekki verið jafn augljóst í marga áratugi. Fjármálamarkaðir margra ríkja standa frammi fyrir miklum vanda og sem fyrr er það launafólk sem ber meginþungan af því ástandi sem ríkistjórnir um heim allan hafa skapað með aðgerðaleysi gagnvart því verkefni að setja um þessa starfsemi skýrar og ábyrgar leikreglur.

Í ár bætast 100 milljónir manna í þann stóra hóp sem hefur ekki aðgang að nægum mat. Matvælaskortur er alþjóðlegt vandamál sem ógnar grunn þáttum samfélaganna og ekki bætir úr skák sú skaðlega stefna sem fylgt hefur verið á heimsvísu. Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, e.t.v. stærsta viðfangsefni í sögu mannkyns, mega sín lítils í samanburði við það risavaxna verkefni að snúa þessari þróun við. Þá er langt í land að takast muni að hrinda í framkvæmd markmiðum Sameinuðu þjóðanna sem samtökin settu sér á nýrri öld um að draga úr fátækt, hungri, sjúkdómum, ólæsi, eyðileggingu umhverfisins og mismunun í garð kvenna.

Við höfum tækin til að takast á við þessi stóru viðfangsefni en því miður skortir pólitískan vilja til að bjóða byrginn þeim valdamiklu hagsmunahópum sem standa í vegi fyrir framþróun. Samtök launafólks standa hvarvetna gegn sérhagsmunum. Þau berjast fyrir því að félagslegar áherslur og sjálfbær þróun séu í kjarna opinberrar stefnumótunar en sæti ekki afgangi.

Verkalýðshreyfingin krefst grundvallarbreytinga á því hvernig haldið er á stjórn heimsmála, hún krefst þess að mannsæmandi störf verði kjarni nýrrar alþjóðavæðingar, að alþjóðlegar stofnanir svari raunverulegum þörfum fólks og hverfi af þeirri röngu braut sem fylgt hefur verið fram til þessa.

Á þessu ári, á degi mannsæmandi vinnu þann 7. október, munu stéttarfélög um heim allan standa að sameiginlegu ákalli fyrir réttindum launafólks á alþjóðavísu. Verkalýðshreyfingin mun þar byggja á þeim samtakamætti sem hefur verið lykillinn að árangri hennar. Í krafti samstöðunnar getum við tekist á við og leyst þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir um heim allan. Við munum sýna fram á að mannsæmandi vinna er lykilinn að því að binda enda á fátækt og að tryggja jafnræði milli karla og kvenna. Við munum einnig sýna samstöðu okkar gagnvart jaðarhópum í okkar samfélögum. Baráttan fyrir betri heimi er og verður okkar leiðarljós og enn og aftur sýnir launafólk um heim allan samstöðu í verki til að þessi sýn geti orðið að veruleika.