Samþykkt miðstjórnar um stöðu efnahagsmála

Kjarasamningarnir sem undirritaðir voru 17.febrúar s.l. voru ekki síst hugsaðir til að leggja grunn að efnahagslegum stöðugleika og til að tryggja kaupamátt til lengri tíma. Síðustu vikur hafa einkennst af miklum efnahagslegum óstöðugleika, hækkandi verði á nauðsynjavörum og spáð er vaxandi atvinnuleysi þegar kemur fram á haustið.  Miðstjórn Samiðnar lýsir yfir miklum áhyggjum af þessari þróun og varar við afleiðingum þess ef ekkert verður að gert. Miðstjórnin kallar eftir víðtæku samstarfi stjórnvalda og  aðila vinnumarkaðarins til að  koma á styrkri efnahagsstjórn sem tryggi stöðugleika og gott rekstrarumhverfi atvinnulífsins. Einnig krefst miðstjórnin þess að stjórnvöld grípi nú þegar til aðgerða og beiti öllum þeim tækjum sem þau ráða yfir til að koma í veg fyrir að hér skelli á atvinnuleysi með öllum þeim hörmungum sem því fylgir. Miðstjórnin bendir á að Ísland er ríkt samfélag sem á að geta staðið af sér skammvinna niðursveiflu, en aukið atvinnuleysi og hækkandi verðlag á nauðsynja vörum kemur verst niður á þeim sem lakast standa.