Súsanna Vilhjálmsdóttir formaður Félags hársnyrtisveina segir að endur-menntunarmál stéttarinnar séu komin á beinu brautina. Græn námskeið í haust.
– Það hefur verið baráttumál okkar hjá Félagi hársnyrtisveina í mörg ár að koma skikki á endurmenntunarmálin. Við náðum samstöðu með meisturum við gerð síðustu kjarasamninga um að taka upp endurmenntunargjald og í framhaldi af því höfum við nú gert samkomulag við fræðslusetrið Iðu um að þeir taki að sér minnst þrjú námskeið fyrir hársnyrtisveina í haust, segir Súsanna Vilhjálmsdóttir formaður Félags hársnyrtisveina.
– Þetta samstarf við Iðuna er tilraunaverkefni til eins árs og eftir það metum við árangurinn, segir Súsanna sem telur að nú sé bjart framundan í endurmenntunarmálum hársnyrtisveina en fram að þessu hefur fátt verið um fína drætti í þeim efnum. Helst að umboðsmenn hársnyrtivarnings hafi boðið fram námskeið sem tengjast vörum þeirra.
– Fyrsta námskeið sem við bjóðum snýst um um rekstur „grænnar stofu“ – sem er heiti á hársnyrtistofum sem nota umhverfisvæn hársnyrtiefni. Við verðum vör við að áhugi íslenskra hársnyrta á að kynna sér notkun þessara efna er að aukast, og á það bæði við um sveina og meistara. Áhuginn er ekki síst tilkominn vegna þrýstings frá viðskiptavinum, en að sögn þeirra sem starfa úti á markaðnum gerist það æ oftar að viðskiptavinir spyrjast fyrir um umhverfisvæna hársnyrtivöru. Fólk er orðið meðvitað um allt umhverfi sitt, hvað það lætur ofan í sig og hvað gert er við ruslið, og það vill ekki lengur að hár þess sé meðhöndlað með kemískum efnum, segir Súsanna sem hefur kynnt sér vel notkun umhverfisvænna efna í hársnyrtingu.
– Við fáum Johan Galster efnaverkfræðing frá Danmörku hingað til lands og heldur hann fyrirlestur um notkun grænna efna í hársnyrtingu. Hann hefur víðtæka þekkingu á þessu sviði og það er mikill fengur að fá hann hingað til lands til að fræða okkar fólk, segir Súsanna sem vonar að félagsmenn sínir taki þessu tilboði vel. Hin tvö námskeiðin sem í boði verða snúast annars vegar um litun og hins vegar um herraklippingu.
– Við ætlum að bjóða stutt námskeið sem standa frá klukkan hálf-níu til hálf-ellefu á morgnana. Við höldum að félagsmenn okkar séu betur upplagðir til að setjast á námskeið í upphafi dags en að loknum erfiðum vinnudegi. Einnig sjáum við fyrir okkur að fólk geti farið til vinnu strax að loknu námskeiði og byrjað strax að nýta sér þá þekkingu sem það hefur aflað sér, segir Súsanna. – Nú er það undir félagsmönnum komið hvernig til tekst. Við vonum að sveinar taki þessu vel og komi með hugmyndir að námskeiðum, og að þeir sem eru að fást við nýja hluti verði tilbúnir að miðla þeirri reynslu til annarra. Þannig gerist þetta í hársnyrtifaginu, segir Súsanna Vilhjálmsdóttir formaður Félags hársnyrtifræðinga.