Miðstjórn ályktar um atvinnu- og efnahagsmál

Á fundi miðstjórnar Samiðnar sem haldinn var á Ísafirði 11. og 12.september voru samþykktar eftirfarandi ályktanir um atvinnumál og efnahagsmál:

Ályktun um atvinnumál

Miðstjórn Samiðnar skorar á stjórnvöld að grípa nú þegar til aðgerða til að koma í veg fyrir fyrirsjáanlegt  atvinnuleysi á næstu misserum. Í því sambandi er mikilvægt að verklegum framkvæmdum á vegum hins opinbera verði flýtt næstu tvö árin s.s. viðhaldi opinberra bygginga og uppbyggingu samgöngumannvirkja. 
Mikilvægt er að allri óvissu um fjármögnun á íbúðarhúsnæði verði eytt og framtíð Íbúðarlánasjóðs verði tryggð í núverandi mynd og honum verði gert kleyft að skuldbreyta húsnæðislánum  einstaklinga. Miðstjórnin hafnar því að jafn mikilvægur þáttur í framfærslukostnaði almennings  eins og fjármögnun húsnæðis verði alfarið sett í hendur á markaðsráðandi öflum og bendir á þróunina á bandarískum húsnæðismarkaði  í því sambandi en þessa dagana er það opinbera að yfirtaka einkarekna íbúðarlánasjóði  ekki síst til að verja hagsmuni lántakenda. 
Miðstjórnin telur  mikilvægt að framhald verði á uppbyggingu   nýrra orkuvera til að skapa áhugaverðar aðstæður fyrir áframhaldandi atvinnuuppbyggingu.  Jafnframt  verði þess gætt að framkvæmdatími sé með þeim hætti að framkvæmdirnar valdi ekki óstöðugleika  í íslensku efnahagslífi.   Miðstjórnin  hvetur til þess að ferlar við mat á  umhverfisþáttum í tengslum við  verklegar framkvæmdir verði endurskoðaðir með það að markmiði að þeir verði markvissari, matstími styttur og ekki verði gripið inn í verkferla sem framkvæmdaleyfi er fyrir.
Miðstjórnin varar við þeirri þróun að útboðsverk á vegum opinberra aðila fari í auknum mæli til erlendra verktaka án þess að allar forsendur séu metnar. Við mat á tilboðum er mikilvægt að tekið sé tillit til heildarkostnaðar m.a eftirlit og að laun starfsmanna og fagréttindi séu sambærileg og eru  á íslenskum vinnumarkaði.  Þá er ótalinn sá virðisauki sem fellur til þegar verk eru framkvæmd af íslenskum aðilum.    Við þær aðstæður sem nú ríkja í bygginga- og mannvirkjagerð er mikilvægt að staðið sé þannig að útboðum  að íslensk verktakafyrirtæki standi jafnfætis þeim erlendu. 

Ályktun um efnahagsmál

Miðstjórn Samiðnar lýsir yfir miklum vonbrigðum með þróun efnahagsmála og undrast aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda. Fyrir  ári  síðan var mikill uppgangur á Íslandi, öflug útrás fyrirtækja  og  vaxandi kaupmáttur  launatekna.  Nú einkennist ástandið af svartsýni og samdrætti, kaupmáttur launa er í frjálsu falli,  mikið atvinnuleysi er yfirvofandi, óðaverðbólga er að festast í sessi, forsendur kjarasamninga eru brostnar og  vaxtastig með því hæsta sem þekkist .   Við þessu ástandi verður að bregðast  með samstilltu átaki ríkisstjórnar, stjórnarandstöðu, sveitarstjórna og aðila vinnumarkaðarins með það að markmiði að koma á stöðugleika í íslensku efnahagslífi.  Samiðn leggur áherslu á að verkalýðshreyfingin hafi frumkvæði og forystu í þeirri vinnu.  Mikilvægt er að vandinn verði vel skilgreindur og aðgerðir beinist að því að bregðast við  núverandi ástandi,  ekki síst í gengismálum. Jafnframt er mikilvægt að horft verði til framtíðar og gripið   til aðgerða sem  tryggja að Íslendingar  búi við  sambærileg  skilyrði og þekkist í nágrannalöndunum hvað varðar  verðbólgu, gengismál og vexti.  Um leið og miðstjórnin ítrekar kröfur  um samstöðu gegn núverandi ástandi  skorar hún á alla aðila  að ganga hreint til verks og taka efnahagsmálin úr þeirri herkví sem þau hafa verið í undangengin misseri,   ekki síst umræðuna um stöðu krónunnar og ábyrgð banka og fjármálastofnana. Ekki verður séð að hægt sé að skapa stöðugleika í íslensku efnahagslífi nema til  komi  stöðugleiki í gengismálum.