Í því atvinnuástandi sem er að skapast á íslenskum vinnumarkaði m.a í bygginga- og mannvirkjagerð telur miðstjórn Samiðnar mikilvægt að farið verði í auknar verklegar framkvæmdir á vegum sveitarfélaga, ríkisins og orkufyrirtækjanna. Mikilvægt er að reynt verði að tryggja áframhaldandi framkvæmdir í Helguvík og unnið verði af fullum krafti við undirbúningsframkvæmdir við álverið á Bakka og ljúka sem fyrst rannsóknum á orkugetu svæðisins.
Framkvæmdir við orkufrekan iðnað og uppbygging orkuvera geta skipt sköpum og dregið verulegu úr áhrifum kreppunnar og þannig flýtt fyrir bata íslensks í efnahagslífs. Þá er mikilvægt er að verktími og útboðseiningar verði skipulagðar með þeim hætti að það falli vel að íslenskum vinnumarkaði.