Frá formanni: Með ofnæmi fyrir fagurgala

Sagan um nýju fötin keisarans eftir H.C. Andersen hefur verið rifjuð upp oft nú að undanförnu. Sú saga var skrifuð fyrir eitt hundrað sjötíu og einu ári en hrun bankanna hefur fært íslensku þjóðinni sanninn um það að sú saga hefði getað verið skrifuð kringum bankaútrásina. Það sem var öðruvísi var að klæðskerarnir sem höfðu sannfæringarmáttinn um að keisarinn væri í fínum fötum voru fleiri en tveir og þeir töldu fleiri á að klæðast nýju fötunum en bara keisarann. Nú sitjum við öll meira og minna nakin eftir að upp komst að lítill hluti þjóðarinnar hafði látið blekkjast af klæðskerunum en þegar blekkingaleikurinn uppgötvaðist loks voru nánast allir klæddir úr. Það hafa flestallir tapað verðmætum á bankahruninu, en verst er að atvinnulífið er algerlega á hliðinni. Á einni nóttu hrundi byggingariðnaðurinn og hætta er á að fleiri atvinnugreinar fylgi í kjölfarið. Við getum velt fyrir okkur ef og hefði og hvernig gat þetta gerst? Sumu breytum við ekki en því sem við getum breytt og því sem við getum lagað eigum við að einbeita okkur að. 

Verjum réttindin 

Mikil hrina uppsagna hefur dunið á okkur, og auk þess hefur yfirvinna nánast þurrkast út. Í flestum tilfellum eru fyrirtæki að tryggja sig þar sem óljóst er um framtíð þeirra, verkefni hafa gufað upp og önnur vantar fjármögnun. Þrátt fyrir bágt ástand verðum við að gera þá kröfu að fylgt sé leikreglum á vinnumarkaði og við verðum að tryggja að ekki sé verið að misnota ástandið. Heyrst hefur að strax sé byrjað að neyða launamenn í undirverktöku, þar sem varpa á ábyrgð á verkefnastöðu, veikindarétti, uppsagnarfresti og greiðslu lágmarkslauna yfir á launamanninn. Þetta verðum við að uppræta strax í byrjun. Við getum heldur ekki gefið afslátt af aðbúnaðarmálum, vinnuvernd og öryggisþáttum. Þrátt fyrir að við séum að færast einhver ár til baka í lífskjörum með minnkandi kaupmætti verðum við að halda þeim ávinningi sem náðst hefur á öðrum sviðum. 

Verjum heimilin 

Með vaxandi atvinnuleysi, minnkandi yfirvinnu og þar með minnkandi heildartekjum er mikilvægt að staða heimilanna sé skoðuð sérstaklega. ASÍ hefur lagt á það áherslu, og gerði um það sérstaka samþykkt á síðasta ársfundi sínum, að staða heimila verði tryggð sem best. Mikilvægt er að verja mjög skuldsett heimili og tryggja öryggi þeirra í húsnæðismálum. Einnig þarf að tryggja að ekki skelli á hrina hækkana á nauðsynjavörum. Þegar gengið kemst á eðlilegt ról er verðhjöðnun eðlileg í þessu árferði. Samiðn hefur haft það sem baráttumál lengi að tekjutengja atvinnuleysisbætur í lengri tíma en gert er nú og einnig þarf að stórhækka tekjuþakið. Þrátt fyrir að það kosti ríkissjóð peninga er enn kostnaðarsamara að sundra fjölskyldum vegna fjárhagsvandræða. Horfast verður í augu við að velflestar fjölskyldur hafa hagað innkaupum sínum og fjárfestingum eins og ráðstöfunartekjur hafa leyft og það tekur lengri tíma en þrjá mánuði að gíra sig niður í að geta lifað af grunnatvinnuleysisbótum. Grunnur þess að fjárhag heimilanna sé borgið er að verðbólga komist niður í 2-3 stig og vextir fylgi á eftir. 

Verjum störfin 

Með bankahruninu hafa mörg fyrirtæki komist í greiðsluþrot, þrátt fyrir góða verkefnastöðu. Önnur misstu verkefnin á skömmum tíma, þar sem flestir brugðust við bankakreppunni með því að draga úr verklegum framkvæmdum eða hætta jafnvel alveg við og stöðva þær framkvæmdir sem hafnar voru. Þá eru til fyrirtæki sem búa við bága lausafjárstöðu vegna þess að allt eigið fé var dregið út úr fyrirtækinu og notað til „að vinna fyrir sér annars staðar“. Ráðgjöfin var: Taktu allt eigið fé fyrirtækis og kauptu hlutabréf eða verðbréf og fáðu arð af því en rektu fyrirtækið fyrir lánsfé, því það kemur skattalega betur út fyrir fyrirtækið. Því höfðu mörg fyrirtæki ekki borð fyrir báru þegar kreppti að og stöðvuðust nánast á fyrsta degi þar sem hlutabréfin og verðbréfin hurfu með bankahruninu. Allt þetta og meira til lagðist á eitt. Fjöldauppsagnir í áður óþekktum mæli skullu á félagsmönnum Samiðnar. Þessu verður að snúa við með innspýtingu fjármagns, í fyrsta lagi til þeirra verkefna sem eru hafin og í öðru lagi í ný verkefni sem útheimta mikinn mannafla en tiltölulega lítinn efniskostnað. Þar horfa menn til viðhaldsverkefna, nýbygginga og brúarsmíði svo eitthvað sé nefnt. Ljóst er að mörg fyrirtæki í okkar greinum komast ekki í gegnum þessa erfiðleika án aðstoðar. Því hafa verið settar fram hugmyndir um endurreisnarsjóð sem hafi það hlutverk að fjármagna fyrirtæki í greiðsluþroti, í einhverjum tilfellum endurskipuleggja eða sameina fyrirtæki sem hafa rekstrargrundvöll til að komast yfir erfiðleika næstu ára. Því öflugri sem fyrirtækin eru, þeim mun fyrr komumst við í gegnum þessar efnahagsþrengingar. 

Hvað gerðist? 

Það er ljóst við eitt stykki gjaldþrot heillar þjóðar að eitthvað hefur farið úrskeiðis. Það verður að skoða það vel og almenningur á ekki að líða að hér fljúgi um eintómir englar sem enga ábyrgð bera en eru í öllum lykilstöðum samfélagsins. Það er sama hvar borið er niður, allir voru hvergi og komu ekki nálægt röngum ákvörðunum – hvað þá saknæmu athæfi. Uppgjör verður að fara fram og það þarf að skilja á milli refsiverðra þátta og pólitískra afglapa. Mistök hafa verið gerð og gjaldþrot heillar þjóðar af gáleysi gæti verið niðurstaða dóms. Þeir þurfa að missa prófið til áframhaldandi stjórnarsetu sem afglöpin frömdu. Ef þeir standa ekki upp af sjálfsdáðum þurfa kjósendur að rétta þeim hjálparhönd til að taka réttar ákvarðanir. Hinir fá sinn dóm í dómsölum. Stutt er á milli þess að byggja upp réttlátt samfélag og bananalýðveldi. Ef ekki verður umpólun á siðgæði valdhafa og bankageirans gæti farið illa. Almenningur verður að fá að vita sannleikann hvernig sem hann lítur út. Mikilvægt er að byggja upp að nýju traust á alþingi og bankakerfinu. Mikið fé er án hirðis í augnablikinu meðan verið er að skipta þrotabúum bankanna og þeirra fyrirtækja sem rúlla. Gæta verður fyllsta öryggis og að heiðarleiki og sanngirni verði í fyrirrúmi. Traust verður ekki byggt upp nema með aðgerðum. Fólk er komið með ofnæmi fyrir fagurgala. 

Við lifum þetta af 

Viðbrögð stjórnvalda hafa verið fumkennd og án yfirsýnar. Þau hafa sýnt almenningi í landinu algera fyrirlitningu með því að segja ekki satt og rétt frá. Þau hafa ekki viljað samstarf við verkalýðshreyfinguna og lokað sig af með sínum fálmkenndu viðbrögðum. Ef ríkisstjórnin treystir ekki þjóðinni fyrir réttum upplýsingum um stöðu mála er engin leið fyrir þjóðina að treysta ríkisstjórninni. Ef ríkisstjórn sér ekki að eitthvað hafi verið rangt í gjörðum þeirra við heilt þjóðargjaldþrot er þeim ekki treystandi. Kjósa verður sem fyrst til að þeir komist að sem treysta sér í endurreisnarstarfið og almenningur ber traust til. „Eftirlitsiðnaðurinn“ hefur verið skammaryrði hjá þeim sem flogið hafa hæst að undanförnu. Til að aftur komist á leikreglur og sanngirni í samfélaginu þurfa eftirlitsstofnanir að virka. Hvort það heitir Fjármálaeftirlit, Samkeppnisstofnun, talsmaður neytenda eða Vinnueftirlit verða þessir aðilar að vera sýnilegir og tukta mann og annan til hlýðni ef farið er út af sporinu. Við verðum að fara hóflega inn í framtíðina. Við höfum orðið fyrir búsifjum og verðum að taka tillit til þess. Við verðum að gíra okkur niður í neyslunni og halda heimilisbókhald og velja og hafna eftir greiðslugetu. Við þurfum einnig að spara og fara vel með. Við getum byrjað á að æfa okkur í ráðdeild á jólagjöfunum í ár. Verum hófsöm. Febrúar kemur með gluggaumslögin sín. Við verðum að hlú hvert að öðru. Þeir sem missa vinnuna þurfa að vera virkir í samfélaginu. Förum á námskeið, verum félagslega virk og höldum sambandi við fyrrverandi vinnufélaga. Þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll á sama báti og eftir því sem við sýnum meiri samtakamátt, þeim mun fljótari verðum við að vinna okkur út úr vandanum. Og höfum enn og aftur í huga það sem kveðið var forðum. Það hefur sjaldan átt betur við en núna: 

Fúnar stoðir burtu vér brjótum .
Bræður! Fylkjum liði í dag!
Vér bárum fjötra, en brátt nú hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag. 

Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Samiðnar