Trúnaðarmenn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, RSÍ, Eflingar, VM, BHM og Samiðnar hjá Orkuveitu Reykjavíkur hafa sent frá sér eftirfarandi ályktun vegna ákvörðunar um arðgreiðslur til eigenda:
Sameiginlegur fundur trúnaðarmanna starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur lýsir undrun sinni á ákvörðun stjórnar OR um að greiða eigendum arð á sama tíma og fyrirtækið skilar 73 milljarða tapi. Fyrir liggur ákvörðun um að skerða laun starfsmanna um 400 milljónir kr. og starfsmenn féllust á að fresta umsömdum launahækkunum í mars s.l. vegna slæmrar rekstrarstöðu OR. Samkvæmt ákvörðun stjórnar OR er gert ráð fyrir að greiða um 800 milljónir í arð og er hann því fjármagnaður til helminga með fyrirhuguðum launalækkunum. Trúnaðarmenn hjá OR mótmæla harðlega þessari ákvörðun stjórnar um arðgreiðslur og telur hana ganga þvert á þann samstarfsvilja sem starfsmenn fyrirtækisins hafa sýnt m.a. með því að fallast á launalækkanir og með frestun umsaminna launahækkana í mars s.l. Með þessari ákvörðun stjórnar OR er kominn upp trúnaðarbrestur milli starfsmanna og stjórnar fyrirtækisins, sem er mjög alvarlegt á sama tíma og viðræður eru að hefjast milli launamanna, samtaka atvinnurekenda og ríkisstjórnarinnar um stöðugleikasáttamála. Forsenda fyrir gerð stöðugleikasáttmála er að allir spili með ekki síst fyrirtæki í almenningseign. Trúnaðarmenn starfsmanna krefjast þess að hætt verði við ákvörðun um arðgreiðslur ella verði launalækkanir starfsmann dregnar til baka.