Stjórnvöld standi við stöðugleikasáttmálann

Á fundi miðstjórnar Samiðnar sem lauk í dag var samþykkt ályktun þar sem þess er krafist að stjórnvöld standi við gefin loforð í tengslum við stöðugleikasáttmálann sem undirritaður var við endurskoðun kjarasamninga í júní s.l.  Miðstjórnin krefst þess að stjórnvöld leggi fram tillögur til lausnar þeim vanda sem blasir við í bygginga- og mannvirkjagerð í vetur verði ekkert að gert, að mati miðstjórnar er tíminn að renna út ef hefja á framkvæmdir fyrir veturinn.

Ályktunina í heild:
Miklar vonir voru bundnar við gerð stöðugleikasáttmála á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda og sérstaklega þá þungu áherslu sem  lögð var á endurreisn  atvinnulífsins.
Mikil samstaða var um hefjast strax handa m.a  við  undirbúning verklegara framkvæmda og í því sambandi lýstu lífeyrissjóðirnir því yfir  að þeir væru tilbúnir til samstarfs. Gengið var út frá að unnið yrði hratt svo hægt væri að hrinda í framkvæmd nýjum verkefnum fyrir komandi  vetur.   Þrátt fyrir að ítrekað hafi verið kallað eftir tillögum  frá ríkisstjórninni um verkefni sem  hægt væri að hefjast handa við,  bólar ekkert á þeim og tíminn til undirbúnings verkefnum sem hægt væri að fari í á komandi vetri  að renna út.
Við blasir  algjör verkefnaþurrð  hvað varðar verklegar framkvæmdir og vaxandi atvinnuleysi meðal starfsmanna í bygginga- og mannvirkjagerð.
Miðstjórnin lýsir yfir miklum vonbrigðum með vinnubrögð stjórnvalda og minnir á að fyrirheitin í stöðuguleikasáttmálanum um aðgerðir til að bregðast við vaxandi atvinnuleysi og samdrætti var ein af forsendum þess að kjarasamningar voru framlengdir án verulegra breytinga á kaupliðum.
Miðstjórnin krefst þess  að ríkisstjórnin leggi nú þegar fram raunhæfar tillögur um endurreisn íslenskt atvinnulífs, jafnframt hvetur miðstjórnin aðila vinnumarkaðarins til að standa þétt saman  um framkvæmd stöðugleikasáttmálans og tryggja að  staðið verði við gefin loforð.