Á kjaramálaráðstefnu Samiðnar sem haldin var s.l. haust kom fram sterkur vilji til samstarfs við önnur samtök iðnaðarmanna í komandi kjarasamningum. Þetta gekk eftir og hafa iðnaðarmenn haldið hópinn sem af er vetri með ágætum árangri. Iðnaðarmenn lögðu sameiginlega af stað í samningaviðræðurnar með mörg mikilvæg mál sem eru komin í höfn og sátt um ef samningar nást milli aðila um önnur mál. Þar má nefna kennitöluflakk, útboðsmál, gerviverktöku, flutning réttinda starfsmanna við gjaldþrot fyrirtækja og átak gegn skattsvikum.
Eftir alla þá miklu vinnu sem er að baki eru það mikil vonbrigði fyrir okkur í Samiðn að slitnað hafi upp úr samningaviðræðum á síðustu stundu. Iðnaðarmannasamfélagið lagði til á miðjum vetri þegar allt var stopp í samningaviðræðunum að gerður yrði skammtímasamningur sem síðan yrði hluti af 3 ára kjarasamningi þegar forsendur væru til staðar til að staðfesta hann. Hugmyndin var að greiddar yrðu út eingreiðslur strax og í framhaldinu kæmu prósentuhækkanir á kauptaxtana. Við höfum staðið í þeirri trú að samkomulag væri í höfn um þessa nálgun og allt okkar vinnulag síðustu vikurnar gekk út á það. Það kom okkur því mjög á óvart að SA skyldi ekki standa við þetta þegar fyrir lá s.l. föstudag að atvinnurekendur væru ekki tilbúnir að ganga frá langtímasamningi vegna sjávarútvegsmála. Höfnun SA s.l. föstudag eru svik á því efnislega samkomulagi sem legið hefur fyrir í margar vikur og er mjög alvarlegur trúnaðarbrestur milli SA og aðildarsamtaka ASÍ.
Þetta eru ekki eingöngu svik heldur mjög alvarlegur afleikur af hálfu SA því með skammtímasamningi hefði skapast gott hlé til að vinna að sátt um nýja stefnu í sjávarútvegsmálum. SA leggur allt undir vegna krafna frá LÍÚ, ekki bara kjarasamningsviðræðurnar heldur einnig tiltrú viðsemjenda okkar á erlendri grund sem stjórnvöld eru að ræða við þessa dagana svo koma megi í veg fyrir að höfnun Icesave verði til þess að íslenska þjóðin verði í ruslflokki um aldur og ævi.
SA var það ljóst þegar gengið var frá munnlegu samkomulagi um eingreiðslur fyrir mars, apríl og maí að uppi var ágreiningur milli SA og ríkisstjórnarinnar um sjávarútvegsmál og því hlýtur eitthvað fleira að liggja að baki því að SA hafni skammtímasamningi í anda þess sem búið var að ræða um.
Nú er það svo að hvorki ASÍ eða SA hafa verið kosin til að fara með framkvæmda- og löggjafavaldið í landinu en samtökin hafa einstaka stöðu til að eiga samtöl við ríkisstjórn og gera henni grein fyrir sinni sýn á hverjum tíma. Þessu fylgir mikil ábyrgð og er mikilvægt að gleyma því ekki að ríkisstjórn á hverjum tíma á að eiga síðasta orðið, hún á að bera hina pólitísku ábyrgð. Síðan gefst okkur tækifæri til að dæma verk hennar í næstu kosningum og fella ef okkur líkar ekki verk hennar.
Að slíta viðræðum um nýjan kjarasamning vegna þess að samningsaðilar geta ekki sætt sig við stefnu ríkisstjórnarinnar jaðrar við broti á 17 gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur en þar er kveðið á um að bannað sé að fara í aðgerðir til að þvinga stjórnvöld til að framkvæma athafnir sem þeim er ekki skylt að framkvæma.
Hins vegar er það skylda stjórnvalda á hverjum tíma að skapa atvinnulífinu þann ramma sem gerir fyrirtækjum landsins mögulegt að ná viðunandi árangri þ.á.m að móta stefnu í sjávarútvegsmálum og setja þeim sem þar starfa leikreglur sem taka tillit til eigenda auðlindarinnar og skapi þeim ásættanlegan arð. Sú óvissa sem ríkt hefur um sjávarútvegsmálin s.l. tvö ár er óheppileg og fyrir því má færa sterk rök að óvissan ein og sér sé farin að skaða bæði sjávarútveginn og samfélagið í heild.
Núverandi ríkisstjórn ákvað að taka mörg brýn mál á dagskrá og má í því sambandi nefna endurskoðun stjórnarskrár, ljúka við gerð rammaáætlunar vegna nýtingar á virkjunarkostum, endurskoðun sjávarútvegsmálanna og hefja aðild að ESB svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru allt mikilvæg mál sem skipta þjóðina miklu máli en jafnfram umdeild. Vandinn hefur verið hvað hægt hefur gengið og biðin skapað mikla óvissu um framtíðina. Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave hefur veikt ríkisstjórnina og skapað óvissu um styrk hennar til að ljúka þeim málum sem hún hefur sett á dagskrá.
Vegna óvissunnar hefði verið skynsamlegt að semja til stutts tíma og gefa ríkisstjórninni tækifæri til að vinna sig út úr stöðunni og láta reyna á næstu vikurnar hvort hún hafi vilja og styrk til að klára t.d sjávarútvegsmálin.
Nú er þjóðin að undirbúa sig fyrir páskahelgina og væntanlega er eins með kjarasamningsviðræðurnar, vinnan hefst ekki aftur fyrr en um miðja næstu viku. Mikilvægt er að fram fari endurmat á vinnubrögðum og hvernig aðkoman verður þegar viðræður hefjast á ný. Iðnaðarmenn eiga að setjast niður strax eftir páska og skoða í fullri alvöru hvort það felist ekki tækifæri í þeirra samstarfi og hvort þeir geti ekki endurvakið sínar tillögur um skammtímasamning sem yrði síðan í fyllingu tímans að 3 ára kjarasamningi. Það versta er að láta málin halda áfram í þeim farvegi sem þau eru nú í og fara þannig inn í sumarið. Launafólk á rétt á að fá launahækkanir strax og það er óásættanlegt að því sé skákað í pólitísku þrátefli ríkisstjórnarinnar og SA.
Með von um góða páskahelgi,
samninganefnd Samiðnar