1.maí

Á baráttudegi launafólks 1.maí verða hátíðarhöld verkalýðsfélaganna með hefðbundnum hætti undir slagorðinu „Aukum atvinnu – bætum kjörin.“  Safnast verður saman á Hlemmi kl. 13 og lagt af stað í kröfugöngu niður Laugaveginn kl. 13:30 undir öflugum lúðrablæstri Lúðrasveitar verkalýðsins og Lúðrasveitarinnar Svans.  Útifundur hefst síðan á Austurvelli að göngu lokinni, þar sem flutt verða ávörp og hljómsveitin Dikta flytur nokkur lög.  Stéttarfélögin bjóða síðan flest til kaffisamsætis fyrir félagsmenn sína og munu Félag iðn- og tæknigreina og Fagfélagið bjóða félagsmönnum og fjölskyldum þeirra í 1.maí kaffi í Kiwanissanum við Engjateig. 

1.maí ávarp verkalýðsfélaganna

Baráttudagur launafólks er að þessu sinni haldinn í skugga meira atvinnuleysis en Íslendingar hafa séð áratugum saman. Nálægt fimmtán þúsund manns eru nú án atvinnu í landinu og þúsundir manna hafa þar að auki flutt af landi brott til að sjá sér og fjölskyldum sínum farborða. Þrengt hefur verið að velferðarkerfinu svo að ekki má mikið út af bera til að við missum þá kjölfestu sem íslenskar fjölskyldur þurfa á erfiðum tímum.  Við skulum standa um það vörð. Flestir launamenn hafa orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu, minnkandi starfshlutfalli og skerðingum á réttindum og kjörum. Fjöldi fólks hefur tapað húseignum sínum. Fjöldi fyrirtækja hefur orðið gjaldþrota og flest sveitarfélaga landsins eru mjög illa stödd fjárhagslega. Sjálfur ríkissjóður hefur gripið til harðra aðgerða til að ná tökum á fjármálum ríkisins. Á slíkum tímum er samtryggingarkerfi almennings ómetanlegt.

Mikið áhyggjuefni er að aðeins einn af hverjum tíu landsmönnum ber nú traust til Alþingis. Það er umhugsunarefni fyrir það fólk sem þar situr. Samfélag fólks þarf að byggja á trausti og stjórnvöld þurfa að koma fram af trúverðugleika til að byggja það upp. Samtök launamanna eru tilbúin til að leggja sitt af mörkum til að endurreisa traust  í samfélaginu, efla það og styrkja.
Í skugga vantrausts þrífast meinvörpin. Svört atvinnustarfsemi og skattsvik virðist vera orðin að meini í samfélagi okkar. Á þeim tímum sem íslensk þjóð þarf helst á samstöðu og samtryggingu að halda, nýta sumir sér ástandið til að taka frá sameiginlegum rekstri samfélagsins. Á þessu verður að taka. Ennfremur verður að loka fyrir möguleika á kennitöluflakki fyrirtækja og stjórnenda þeirra með tilheyrandi skaða og kostnaði fyrir allt samfélagið.
Það eru vonbrigði að  þrátt fyrir að nú sé hátt á þriðja ár liðið frá hruni, þá örlar lítt á þeirri nýju samfélagsgerð sem vonir stóðu til að risu úr rústum græðgisvæðingarinnar. Rannsóknarskýrsla Alþingis dró fram mikilvæga þætti sem úrskeiðis höfðu farið í aðdraganda hrunsins, lýsti mistökum og vanrækslu og því hvernig kerfið í heild sinni brást.

Meðan almenningur finnur fyrir versnandi afkomu á hverjum einasta degi, þá virðist sem þeir sem báru ábyrgð á kreppunni, auðmenn, stjórnmála- og embættismennn, muni litla ábyrgð taka á afleiðingum gjörða sinna og sumir hverjir njóta afrakstur þeirra erlendis.
Það hugarfar sem einkenndi fjárglæframenn og áhættufíkla efnahagslífsins árin fyrir hrunið svífur enn yfir vötnum. Ennþá horfir almennt launafólk orðlaust á launatölur í skilanefndum og lögfræðistofum sem vinna fyrir hina föllnu banka þar sem skilanefndarmenn og lögmenn taka milljónir í mánaðarlaun. Ráðsmenn í Kjararáði skömmtuðu dómurum bligðunarlaust yfir hundrað þúsund í launauppbót á mánuði. Bankastjórar í hinum nýju bönkum sem endurreistir voru með skattfé almennings sáu ekkert athugavert við stórfelldar launahækkanir á sama tíma og launamál landsmanna eru í frosti. Ennþá er hér yfirstétt í landinu sem sér ekkert athugavert við ofurlaun meðan almennt launafólk býr við kjararýrnun og atvinnuleysi.
Samtök atvinnurekenda hafa dregið stórpólitísk mál eins og breytingar á lögum um fiskveiðistjórn inn í umræðu um kjaramál launafólks sem vitað var fyrirfram að myndi tefja alvöru umræðu um launalið kjarasamninganna. Framkoma atvinnurekenda í þessu máli er algerlega einstæð og fordæmalaus, enda vita þeir sem er að núna í aðdraganda nýrrar stjórnarskrár mun deilan standa um framtíðareign auðlinda landsins. Verkalýðshreyfingin hlýtur að krefjast afturvirkni launaliðar kjarasamninganna þegar atvinnurekendur hafa nú í marga mánuði tafið sjálfsagðar launabreytingar, með pólitískri íhlutun í landsmálum. Það er löngu tímabært að tryggja almannaeign á auðlindum landsins. 

Verkalýðshreyfingin krefst þess að;
o Afdráttarlaus ákvæði verði sett í stjórnarskrá um að allar auðlindir landsins séu sameign þjóðarinnar og bundið verði í lög hvernig arður samfélagsins af sameign sinni verði tryggður
o Gengið verði tafarlaust frá lausum samningum
o Að skapaðar verði forsendur fyrir nýjum störfum karla og kvenna svo viljugar hendur finni verk að vinna
o Að ekki verði höggvið að rótum velferðarkerfisins sem er öryggisnet okkar allra
o Að stuðlað verði að auknum jöfnuði í uppbyggingu samfélagsins þannig að tekið verði jafnt tillit til hagsmuna kvenna og karla á vinnumarkaði
Endursmíð velsældar á Íslandi byggist á endurreisn atvinnulífsins og varðstöðu um velferðina. Til þess að geta byggt upp atvinnuna á ný, þurfa atvinnufyrirtækin aðgang að fjármagni og skilyrði til endurreisnar. Verkefnin blasa við hvarvetna og það er hlutverk ríkis og sveitarfélaga að hvetja atvinnureksturinn áfram, hvort sem er í iðnaði, viðhaldi fasteigna eða í almennum atvinnurekstri. Þeir sem leggja stein í götu atvinnuuppbyggingar eru að viðhalda atvinnuleysinu og vonleysinu sem því fylgir.

Krafa verkalýðshreyfingarinnar á baráttudegi launafólks er um
o Að semja þegar í stað við launafólk um mannsæmandi laun
o Fulla vinnu fyrir allar vinnufúsar hendur í landinu
o Sérstakar aðgerðir gagnvart þeim sem búa við langtímaatvinnuleysi
o Að tryggja aðgang allra landsmanna að grunnþjónustu samfélagsins í heilbrigðis og menntamálum
o Að skattkerfi landsmanna verði við það miðað að hlífa barnafjölskyldum, lágtekjufólki og þeim sem höllum fæti standa
o Að Alþingi og ríkisstjórn fylgist með því að bankar og fjármálastofnanir fari ekki gegn vilja Alþingis um sanngjarna niðurfellingu skulda.
o Að ríkisvaldið skapi skilyrði með löggjöf fyrir eðlilegum húsaleigumarkaði  eftir að fjölmargt fólk hefur misst húseignir sínar eftir hrunið
o Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir auðlindum landsins
o Að það velferðarkerfi sem forfeður okkar byggðu upp verði ekki eyðilagt
o Að komið verði í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi, skattsvik og kennitöluflakk fyrirtækja

Á tímum erfiðleika og samdráttar er mikilvægast af öllu að þjóðin standi saman. Nú er ekki tími sérhagsmuna og þvermóðsku, nú er tími samhygðar og samstöðu. Verkalýðshreyfingin er reiðubúin til að leggja sitt af mörkum til að endurreisa landið úr efnahagslægðinni. Ábyrg samstaða mun skapa atvinnu og verja velferðar- og velmegunarsamfélagið sem Ísland á að vera.

Í dag er baráttudagur launafólks og við, fólkið sjálft, munum krefjast réttlætis og samhygðar fyrir okkur öll. Munum samt eitt; á meðan krafan er aðeins viðruð á tyllidögum er hún aðeins heillaóskaskeyti. Krefjumst. Ætíð. Alltaf.