Samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi í júní síðastliðnum (breyting á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða) þá ber öllum launagreiðendum að greiða 0,13% af heildarlaunum allra starfsmanna sinna til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs frá og með 1. september 2011 – þ.e. miða skal við iðgjaldastofn septembermánaðar 2011. Fram að þessum tíma hefur einungis verið kveðið á um greiðsluskyldu í kjarasamningum en nú nær hún til allra launamanna samkvæmt lögum þar með talið til sjálfstæðra atvinnurekenda og þeirra sem ekki eru félagsmenn stéttarfélaga.
Launagreiðendum ber að standa skil á iðgjaldinu til viðkomandi lífeyrissjóðs með sama hætti og gildir um lífeyrisiðgjald og munu lífeyrissjóðir síðan ráðstafa gjaldinu til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs.
Iðgjaldið veitir launamönnum réttindi til þjónustu hjá VIRK – Starfsendurhæfingarsjóði ef heilsubrestur veldur skertri starfsgetu. Markmiðið er að auka getu til virkrar þátttöku á vinnumarkaði og draga þannig markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, starfsendurhæfingu og öðrum úrræðum.
Málsgreinin í ofangreindum lögum er varðar iðgjald launagreiðenda til VIRK er svohljóðandi:
Iðgjald launagreiðanda, þ.m.t. þeirra sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs skal vera 0,13% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. 3. gr. og skal reiknast í fyrsta sinn af iðgjaldsstofni septembermánaðar 2011. Iðgjaldið veitir réttindi til þjónustu VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs. Launagreiðanda skv. 1. málsl. er skylt að standa skil á iðgjaldinu til viðkomandi lífeyrissjóðs með sama hætti og gildir um lífeyrisiðgjald, sbr. 2. mgr. 7. gr. Lífeyrissjóðir ráðstafa iðgjaldinu til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og skal fara eftir þeim ákvæðum sem almennt gilda í þeim innheimtusamningum sem gerðir hafa verið milli aðila
Sjá nánar www.endurhaefingarsjodur.is