Er slys skyndilegur utanaðkomandi atburður?

Nokkrar umræður hafa verið um niðurstöður úrskurðarnefndar almannatrygginga og dómstóla sem fallið hafa launagreiðendum í hag í málum er varða vinnuslys og stöðu starfsmanna gagnvart bótum úr slysatryggingum.  Dæmi eru um að starfsmenn hafi ekki fengið bætur t.d. vegna bakmeiðsla þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að slysið hafi orðið af völdum „skyndilegs utanaðkomandi atburðar“.  Samkvæmt lögum um almannatryggingar (27 gr. nr. 100/2007) teljast slysatryggingar taka til vinnu, iðnnáms, björgunarstarfa, hvers konar íþróttaæfinga, íþróttasýninga og íþróttakeppna, enda sé sá sem fyrir slysi verður tryggður, en með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.  Hvernig „skyndilegur utanaðkomandi atburður“ er metinn felur því í sér, samkvæmt úrskurðarnefnd almannatrygginga og dómstólum, að ef starfsmaður heldur á þungri byrði og meiðist við það í baki þá telst það vera „innan mein“ eða vegna „venjulegrar notkunar“ en ekki „skyndilegur utanaðkomandi atburður“.  Úrskurðarnefnd almannatrygginga og dómstólar hafa því lagt það til grundvallar úrskurðum sínum að eitthvað óvænt og utanaðkomandi þurfi að gerast í atburðarásinni til að um bótaskylt slys geti verið að ræða í skilningi laga um almannatryggingar.

Í ljósi þessa er ástæða til að hvetja starfsmenn til að gæta varúðar t.d. þegar þungum byrðum er lyft og kalla til aðstoð eða nota lyftubúnað því samkvæmt gengnum úrskurðum þá eru starfsmenn á eigin ábyrgð við þær aðstæður.