Pípulagningamenn í Noregi fá leiðréttingu

Íslenskir pípulagningamenn sem starfað hafa undanfarið í Noregi á vegum íslensks undirverktaka Pípulagnaverktakar ehf við byggingaverkefni á Fornebu og tóku laun samkvæmt íslenskum launatöxtum, fá nú laun í samræmi við norska félaga sína eftir að niðurstaða komst í deilu á milli systursamtaka Samiðnar í Noregi (Fellesförbundet) f.h. starfsmannanna og Pípulagnaverktaka ehf og annarra verktaka sem að verkinu stóðu.  Í lok september vöktu fjölmiðlar í Noregi athygli á málinu sem snérist um félagsleg undirboð íslenskra píplagningamanna sem starfa í Noregi og launakjör þeirra, en að mati félaganna samræmdist launasamsetning íslenska verktakafyrirtækisins ekki norskum lögum.   Félag iðn- og tæknigreina (FIT), sem flestir starfsmennirni eru aðilar að, leitaði til Samiðnar eftir aðstoð við að finna ásættanlega úrlausn á málinu fyrir starfsmennina. Trúnaðarmenn FIT hjá Pípulagnaverktökum í Noregi voru virkjaðir og leitað aðstoðar hjá Fellesförbundet. Trúnaðarmennirnir áttu síðan marga fundi með lögmönnum og fulltrúum fyrirtækisins í Noregi og norska vinnueftirlitinu, sem og fulltrúum FIT og Samiðnar hér á Íslandi.  Að lokum leiddu þessar viðræður til þess að nú hefur verið skrifað undir samning sem tryggir starfsmönnum Pípulagnaverktaka ehf  tímalaun í dagvinnu frá 200 til 220 NKR (4400 IKR) eftir starfsreynslu og verða kjör þeirra leiðrétt aftur í tímann. Þetta er glæsilegur árangur og vert að óska starfsmönnunum Pípulagnaverktaka ehf til hamingju með samstöðuna því að án hennar hefði þessi árangur aldrei náðst.  Líkur eru á að niðurstaða málsins verði öðrum íslenskum verktakafyrirtækjum sem starfa eða hyggja á starfsemi í Noregi víti til varnaða, því félagsleg undirboð líða stéttarfélögin ekki enda minnir þetta mál um margt á vandamál sem við Íslendingar þekkjum frá þenslutímabilinu hér á landi þegar verktakafyrirtæki réðu til sín erlenda starfsmenn á mun lægri kjörum en hér tíðkuðust.

Hér má sjá frétt NRK um málið.

fornebu_norge
Píulagningamenn í Noregi fagna niðurstöðu málsins