Margt bendir til að hér sé á ferðinni sama fégræðgin og varð okkur að fjörtjóni á árunum 2004 til 2007 og menn séu tilbúnir að endurtaka leikinn. Þegar þessir samningar eru skoðaðir er mikilvægt að hafa í huga að fyrir nokkrum misserum voru gerðir nauðasamningar þar sem kröfuhafar gáfu eftir mikla fjármuni til að bjarga fyrirtækinu. Nú má spyrja sig þegar staða fyrirtækisins er skoðuð hvort þar hafi verið gengið of langt í afskriftum og því væri eðlilegra að fyrirtækið legði sig fram um að skila þeim fjármunum sem töpuðust aftur til baka í stað þess að stinga ávinningnum í vasa nokkurra útvalinna yfirmanna.
Það er ljóst að það eru skammtímasjónarmið sem ráða hjá stjórnendum Eimskips þegar þeir ákveða að úthluta sjálfum sér gríðarlegum fjármunum í stað þess að almennir hluthafar njóti þess.
Það er von okkar allra að þau viðbrögð sem útboð Eimskips hefur fengið verði til þess að menn stoppi við og hugsi á hvaða leið við erum og stjórnendur spyrji sig; gengum við þessa leið til góðs síðast þegar við fórum hana? Höfum við ekkert lært af fortíðinni? Við þurfum öll að sameinast um að veita íslenskum fyrirtækjum aðhald og krefja þau um innleiðingu reglna um ábyrgar fjárfestingar og siðleg vinnubrögð. Við þurfum að sameinast um að fylgja því eftir við ákvarðanir um fjárfestingar að kalla eftir slíkum reglum og einangra þau fyrirtæki sem ekki eru tilbúin að tileinka sér ný vinnubrögð.