Verðbólgan var þannig um 5,5% að meðaltali frá 2001 til loka júní árið 2008. Ef horft er til næstu 5-10 ára gera fjárfestar á fjármálamarkaði ráð fyrir því að þessi verðbólga muni endurtaka sig. Við þessu verður að bregðast því að öðrum kosti má gera ráð fyrir því að vandinn magnist enn frekar.
Ég er sannfærður um að það mun ekki takast að ná utan um þetta vandamál með sífelldum vaxtahækkunum Seðlabankans. Nær væri að nýta reynsluna frá 1990 þegar breið samstaða náðist um það átak að kveða verðbólguna niður með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins, stjórnvalda og Seðlabanka. Það var gert með því að festa gengi krónunnar á þann hátt að gengið var stillt af miðað við eðlilega afkomu, sjálfbærni og samkeppnisstöðu okkar útflutnings- og samkeppnisgreina. Aðilar vinnumarkaðarins sömdu síðan á þeim grundvelli, þannig að kjarasamningar röskuðu ekki efnahagslegum forsendum þessarar stefnu. Í kjölfarið tókst að lækka hér verðbólgu úr 25-30% niður í 2-2,5% líkt og í nágrannalöndunum.
Frá þessari stefnu þurftum við að hverfa um aldamótin, þegar sambland óagaðrar hagstjórnar og spákaupmennsku með krónuna leiddi til þess að tekin var upp ,,fljótandi gjaldmiðill með verðbólgumarkmiði.“ Almennt eru hagfræðingar sammála um að fastgengisstefna er vart framkvæmanleg undir skilmálum frjálsra fjármagnsflutninga nema viðkomandi þjóð hafi mikinn gjaldeyrisforða. Nú er hins vegar ljóst að hér eru fjármagnsflutningar ekki frjálsir og við verðum að horfast í augu við að einhvers konar höft verða á starfsemi fjármálafyrirtækja um nokkurt skeið.
Eins og áður sagði hefur Seðlabankinn lagt fram ítarlega skýrslu um valkosti okkar í gengis- og peningamálum. Þar kemur fram að til lengdar stöndum við frammi fyrir tveimur valkostum. Annað hvort að halda áfram með okkar sjálfstæðu mynt eða tengjast stærra myntsamstarfi þar sem aðild að ESB og upptaka evru er raunhæfasti kosturinn. Á meðan kostir og ókostir þessara tveggja leiða eru kannaðir blasir við að nýta beri gjaldeyrishöftin til næstu 5-8 ára til að taka hér aftur upp fastgengisstefnu og ná þannig tökum á verðbólgunni.
Samhliða verðum við að endurskoða fyrirkomulag húsnæðislána hér á landi með það að markmiði að neytendur fái að njóta þess í sínum vaxtakjörum, að fjárfestar á fjármálamarkaði líta á húsnæðislán sem tiltölulega örugga fjárfestingu og eru reiðubúnir að kaupa fasteignatryggð húsnæðisbréf á miklu hagstæðari kjörum en bæði Íbúðalánasjóður og bankar eru tilbúnir til. Þetta kallar á lagasetningu sem tryggir að hagsmunir neytenda og fjárfesta verði í fyrirrúmi en ekki banka og fjármálastofnana. Danska húsnæðislánakerfið er þannig kerfi.
Með þessu tvennu má lækka verulega húsnæðiskostnað íslenskra heimila þannig að hefðbundin fjölskylda hafi ráð á því að búa í venjulegu húsnæði. Um þetta var fjallað á 40. þingi ASÍ og ályktað.
Gylfi Arnbjörnsson,
forseti ASÍ