Ísland er að fjarlægjast Norðurlöndin

Það er einnig áhugavert að skoða samanburðinn eftir starfsstéttum en þá kemur í ljós að laun þeirra sem lokið hafa háskólanámi eru 82% af meðaltali ESB en laun iðnaðarmanna eru 8% hærri hér á landi. Hið sama á við um þá sem ekki eru með framhaldsskólanám en þeir eru með 3% hærri laun en meðaltalið innan ESB. Laun iðnaðarmanna og sérhæfðs iðnverkafólks eru fjórðungi hærri en ESB-meðaltalið og raðast hæst íslenskra starfsstétta í samanburði við önnur lönd eða í 9. sæti.
Sé horft til vinnutíma kemur í ljós að vinnutími á Íslandi er næst lengstur og eru greiddar 182 vinnustundir að meðaltali á mánuði en tæplega 157 í Danmörku en meðaltalið innan ESB eru 167 greiddar vinnustundir. Þrátt fyrir þetta hefur vinnutími á Íslandi stysts um 5 vinnustundir á mánuði frá árinu 2002 . Yfirvinnustundir sem hlutfall af greiddum vinnustundum er hæst á Íslandi eða 8% en hefur lækkað úr 11% frá árinu 2006 en hlutfallið er almennt milli 1 og 3%.
Þetta er áhugaverður samanburður og gott fyrir verkalýðshreyfinguna að hafa til viðmiðunar. Það sem vekur mesta athygli er hvað Ísland dregst mikið aftur úr í samburði við Norðurlöndin bæði með tilliti til launa og vinnutíma.
Samanburðurinn er ekki svartnætti en ljóst að íslenska verkalýðshreyfingin verður að endurskoða sínar áherslur bæði hvað varðar kaupmátt launa og vinnustundir. Það hlýtur að verða ein af megin áherslum hreyfingarinnar að stytta viðveru á vinnustöðum og auka kaupmátt launa. Ísland má ekki sætta sig við mun lakari lífskjör en er almennt gerist á Norðurlöndunum og ljóst samkvæmt þessari stuttu samantekt að munurinn er orðinn allt of mikill og er að aukast.
Það væri einnig áhugavert í þessu samhengi að skoða samanburð á lífeyri til elli- og örorkulífsþega og þeirra sem þurfa að lifa á bótum.