Í febrúar hækkaði verðlag í landinu meira en gerst hefur í einum mánuði frá því í lok ársins 2008 og verðbólga jókst verulega. Þessar verðhækkanir eru almennar og koma fram í flestum vöruflokkum. Þrátt fyrir að krónan hafi styrkst verulega frá áramótum má rekja um 1,4% af 1,64% verðlagshækkun í febrúar til hækkana á innfluttum vörum.
LAUNAHÆKKUNUM VELT ÚT Í VERÐLAGIÐ
Það er því deginum ljósara að verslunin í landinu hefur þvert á yfirlýsingarnar við framlengingu kjarasamninganna ákveðið að velta launahækkunum af fullum þunga og meira til út í verðlagið.
Það er engu líkara en að með þessu séu atvinnurekendur að vísa markmiðum um langtíma stöðugleika í efnahagslífi landsins út í hafsauga og segja samtökum launafólks stríð á hendur. Ríki og sveitarfélög er þarna engin undantekning. Gjaldskrárhækkanir eru nánast hömlulausar og öllu ausið á verðbólgubálið.
Verkalýðshreyfingin getur ekki litið fram hjá þessu ábyrgðarleysi atvinnurekenda þegar kemur að því að undirbúa viðræður um kjarasamninga síðar á þessu ári. Að óbreyttu blasir við að túlka þessa skriðu verðhækkana á þann hátt að verið sé að kalla eftir átökum á vinnumarkaði í haust.
UNNIÐ GEGN VERÐLAGSEFTIRLITI
Á sama tíma og þessum hækkunum er velt út í verðlagið hafa flestar af stærstu verslanakeðjum landsins orðið uppvísar að því að koma í veg fyrir að haldið sé uppi eftirliti með verðlagi. Þær hafa vísað starfsfólki verðlagseftirlits ASÍ á dyr í verslunum sínum.
Það er rétt að hvetja launafólk til að bregðast harkalega við framgöngu verslunarinnar, fylgjast vel með verðlagi og vera á verði gagnvart verðbreytingum í verslunum.
LOKSINS AÐGERÐIR GEGN KENNITÖLUFLAKKI
Fram hefur komið í fjölmiðlum að búið sé að leggja frumvarp til laga um aðgerðir gegn kennitöluflakki fyrir þingflokka ríkisstjórnarflokkanna.
Kennitöluflakk og svört atvinnustarfsemi er meinsemd í íslensku atvinnulífi sem skerðir réttindi launafólks, vinnur gegn eðlilegri samkeppni, stuðlar að óeðlilegum undirboðum og kemur í veg fyrir að ríkið fái þær skatttekjur sem vera ber.
FIT og verkalýðshreyfingin öll hefur lengi hvatt stjórnvöld til að setja lög sem tryggi að opinberir eftirlitsaðilar hafi í sínu vopnabúri nægilega öflug viðurlög gagnvart þeim aðilum sem verða uppvísir að kennitöluflakki og svartri atvinnustarfsemi. Fréttir af frumvarpinu, sem nú bíður meðferðar, benda til að verið sé að koma til móts við þessar óskir verkalýðshreyfingarinnar.
Það er mikið hagsmunamál að slíkt frumvarp nái fram að ganga. Þess vegna hvetjum við alþingismenn til að afgreiða frumvarpið án tafar svo að opinbert eftirlit með kennitöluflakki og svartri atvinnustarfsemi geti skilað raunverulegum árangri.
Hilmar Harðarson, formaður FIT