Sýnum meistaratakta í verki – höfnum fúski

Þrátt fyrir að nóg framboð sé á iðnmenntuðum mönnum velja fyrirtæki að notast við ófaglært fólk í allt of miklum mæli. Fækkun starfa í hruninu hafði þau áhrif að um þriðjungur félagsmanna Byggiðnar eru nú í Noregi og víðar um heim. Margir hafa sótt í önnur störf og nú þegar aðeins er farin að rísa sól koma þeir ekki til baka. Fyrirtækin sem í þenslunni notuðust við ófaglærða halda því áfram þrátt fyrir atvinnuleysi faglærðra manna og í mörgum tilfellum virðast fyrirtækin hreinlega engan áhuga hafa á að fá til sín iðnaðarmenn með full réttindi. Afleiðingarnar eru að kvartanir vegna skemmda eða galla á nýbyggðu húsnæði hafa aldrei verið fleiri. Nú ætla menn ekkert að læra af þessari reynslu og halda áfram að viðhalda fúskinu. Á vinnustöðum eru faglærðir menn að stýra ófaglærðum mönnum í verkum sem ættu að vera unnin af fagmönnum. Meiri virðingu virðast menn nú ekki bera fyrir menntun sinni og sérþekkingu og vinna þannig gegn eigin hagsmunum. Iðnmeistarar, sem sjálfir hafa lagt á sig meira nám til að öðlast aukin réttindi í greininni, virðast ekki hafa skilning á að orðspor heillar stéttar er í húfi þegar fagmennskan er látin lönd og leið. Ef við höldum áfram á þessari braut blasir við gengisfelling fagsins, við erum í raun að segja að sú menntun, reynsla og þekking sem við höfum áunnið okkur gegnum tíðina, skiptir engu máli. Það er raunveruleg hætta á að við glutrum alveg niður þeim réttindum sem við höfum í dag. Eins má segja að ákveðið siðrof hafi orðið milli okkar iðnaðarmanna og viðskiptavina okkar. Getur viðskiptavinurinn treyst því að sú þjónusta sem hann kaupir af okkur standist eðlilegar gæðakröfur? Það er erfitt og verulega ljótt ásýndar ef við eigum að fara að verja okkur og verk okkar í gegnum dómstólana. Réttarvernd kaupandans er sem betur fer mikil og ábyrgð okkar meiri.
nnn
Nú um þessar mundir er verið að endurskoða iðnaðarlög. Við forustumenn iðnaðarmanna höfum lagt ríka áherslu á að viðhalda löggildingu starfsins í sem flestum iðngreinum. Þar teljum við neytendavernd vega þungt, öryggismál og aðbúnaðarmál einnig en ekki síst til að tryggja gæði án þess að hleypa upp kostnaði með íþyngjandi eftirliti. Traust á fagmennskuna á að vera útgangspunktur endurskoðunarinnar. Lögin verða að vera þannig úr garði gerð að brot á þeim hafi afleiðingar sem hræða. Því verða fyrirtæki sem ætla að vera til á morgun en ekki hugsa bara til kvöldsins að taka höndum saman og hlúa að fagmennskunni. Það er ekki nóg að auglýsa „fagmennskan í fyrirrúmi, þekkingafyrirtæki eða meistarataktar í verki.“ Þetta þarf að vera til staðar í raun.
Á sama tíma og við sniðgöngum fagmennskuna í störfum okkar uppskerum við illt umtal. Svo erum við steinhissa á því að ungt fólk sæki ekki í námið. Satt best að segja er það ekki girnilegur kostur fyrir unga fólkið að mennta sig til starfa þar sem fyrirmyndirnar, faglærðu mennirnir sjálfir, bera ekki meiri virðingu fyrir sínum eigin störfum. Hver vill læra iðnstörf með þessar fyrirmyndir?
Nú er svo komið að viðhorfsbreytingar er þörf og sú breyting verður að hefjast hjá okkur sjálfum. Ef við ætlumst til þess að aðrir beri virðingu fyrir okkar menntun, þekkingu og reynslu verðum við sjálfir að átta okkur á hvers virði þessir þættir eru. Við verðum að standa saman í því að kveða fúskið niður og ávinna okkur aftur traust viðskiptavina okkar. Jafnframt þurfum við að hefja iðnnám til vegs og virðingar því engin stétt getur lifað án endurnýjunar. Við þurfum að sjá til þess að viðhorf til iðnnáms breytist á þann veg að nemendur séu stoltir af að vera í slíku námi, iðnnám á að vera kostur öflugra nemenda sem hafa brennandi áhuga á að mennta sig í faginu.
Við viljum sjá endurreisn iðnaðarmannsins. Það er engin tilviljun að stærstur hópur þeirra sem hafa farið til útlanda í von um betri kjör eru vel menntaðir íslenskir iðnaðarmenn. Erlend fyrirtæki sjá gullið í þessum mannskap en við eigum að einbeita okkur að því að byggja upp þessa auðlind til eigin nota, ekki til útflutnings.

Finnbjörn A. Hermannsson,
formaður Byggiðnar og Samiðnar

Pistillinn er úr nýjasta Fréttabréfi Byggiðnar – sjá nánar.