Góðir gestir.
Fyrir nákvæmlega 20 árum komu forustumenn Sambands byggingamanna, Málm- og Skipasmiðasambands Íslands, Málarafélags Reykjavíkur og Félags garðyrkjumanna saman á Hótel Sögu og samþykktu að ganga í eitt samband Samiðn – samband iðnfélaga. Þetta hafði að sjálfsögðu átt langan aðdraganda og undanfarinn var m.a. stofnun Sameinaða lífeyrissjóðsins. Markmiðið var að sameina sem flesta iðnaðarmenn í eitt samband. Frá stofnun hafa félög verið að ganga í Samiðn og úr Samiðn. Ef við tökum þetta á bókhaldslegum forsendum þá hafa heldur fleiri farið út en inn. En félagslega hafa þeir draumar að sameina iðnaðarmannastéttir innan eins sambands ekki gengið eftir. Þegar ég var að leita mér fanga við undirbúning þingsins las ég glefsur úr nokkrum ræðum sem fluttar voru í aðdraganda og við stofnun Samiðnar. Þær gengu eðli málsins samkvæmt út á skipulag iðnaðarmannafélaga og ASÍ í heild sinni. Þær eiga allar við enn þann dag í dag og það eina sem þarf að lagfæra í þeim er að taka þarf tillit til breyttra samfélagslegra aðstæðna, breyting hefur orðið á menntun, vinnusvæðum og tækni hefur fleygt fram.
Við þurfum alltaf að skoða okkar gang í verkalýðshreyfingunni í heild. Skipulagið er og á að vera einn af þeim málaflokkum sem við endurskoðum reglulega. Við þurfum alltaf að endurspegla þarfir okkar félagsmanna og miða skipulagið við það hvernig við náum bestum árangri fyrir þá, ekki hvað hentar best þeim sem sitja í stjórnum félaganna hverju sinni. Á þessum tuttugu árum sem Samiðn hefur starfað vil ég fullyrða að við höfum haft ávinning af starfinu umfram það að vera í fleiri samböndum. Ég ætla líka að fullyrða að með starfi okkar höfum við haft áhrif á allt okkar umhverfi, hvort sem um er að ræða innan verkalýðshreyfingarinar eða á stjórnvöld, langt umfram stærð okkar. Það hefur sýnt sig í allri okkar vinnu eftir hrun bæði innan ASÍ og ekki síður gagnvart okkar viðsemjendum.
Kjarasamningar frá hruni hafa verið í anda samstöðu og varnarbarátta. Við iðnaðarmenn héldum okkur til hlés framan af í launamálum, vildum hafa innistæðu fyrir launahækkunum en lögðum höfuðáherslu á atvinnumál, að sem flestir okkar félagsmenn hefðu vinnu. Við sóttum fram á réttindasviðinu og höfum þar náð töluverðum árangri. Við fórum fram með kröfu um að kennitöluflakkarar yrðu stoppaðir. Við fórum fram með kröfu um samfélagslega ábyrgð aðalverktaka á undirverktökum, svokallaða keðjuábyrgð og ábyrgð verkkaupa á verktaka þegar um undirboð er að ræða. Við fórum líka fram með samræmt matskerfi fyrir opinberar framkvæmdir þegar kemur að því að velja verktaka. Við förum betur yfir efndir þessara krafna og fleiri þegar skýrsla stjórnar verður kynnt hér á eftir svo ég hlífi ykkur við endurtekningum. En þessar kröfur komust í farveg því við notuðum samtakamáttinn, önnur aðildarsamtök innan ASÍ tóku undir með okkur og við náðum eyrum bæði stjórnvalda og viðsemjenda okkar, sama og gerðist þegar við náðum inn í samninga lögunum um vinnustaðaskírteinin. Það er ekki allt í höfn varðandi þessar kröfur en við verðum að vona að ný ríkisstjórn standi við samninga fyrri ríkisstjónrar. Með þessum kröfum erum við að tryggja starfsöryggi okkar félaga.
Við vorum einnig að tryggja starfsöryggi okkar félaga þegar við settum fram kröfuna um að breyta lögum um starfsmannaleigur í það horf, að starfsmannaleigustarfsmenn væru á sömu launum og nytu sambærilegra starfskjara og launamenn notkunarfyrirtækis. Þetta eru aðeins örfá atriði sem við höfum unnið áfangasigra i í undanförnum tveimur kjarasamningum. Við erum að byggja upp réttindakerfi og umgjörð til framtíðar.
Nú að loknum kosningum varð til nýtt pólitískt landslag sem við þurfum að venja okkur við. Gömlu hrunflokkarnir eru með góðan meirihluta á alþingi og ég geri ráð fyrir að þeir muni mynda ríkisstjórn. Ég ætla ekki að reyna að útskýra hegðan íslenskra kjósenda að kjósa aftur yfir sig þau öfl sem stuðluðu að stærsta efnahagslega hruni og mestu eignatilfærslu íslandssögunnar. Mikil yfirboð voru í kosningaslagnum, flokkarnir kepptust við að kannast ekki við fortíð sína og skiptu að hluta til út fólki því til sönnunar. Ef til vill var þetta skárra en ekkert fyrir þá sem höfðu fengið nóg af svikum og ráðaleysi fyrri ríkisstjórnar en það er bara að æra óstöðugan að geta í af hverju þessi staða kom upp. Hún er svona og við þurfum að taka mið af því. Einhvern tíma verður mynduð ríkisstjórn og þegar málefnasáttmáli hennar liggur fyrir þurfum við að skoða stöðuna. Mikið hefur verið rætt um nauðsyn þess að koma á þjóðarsátt til að halda áfram uppbyggingu samfélagsins. Ég mun leggja til við ykkur góðir þingfulltrúar að við förum með opinn huga í skoðun á slíkum sáttmála. Sá sáttmáli mun ekki byggjast á því að við minnkum skuldir allra um 20% eða fyrsta efnahagsaðgerð verði að lækka skatta á fyrirtæki. Hann mun heldur ekki byggjast á því að einhver starfsstétt eða aldurshópur eigi meira bágt en aðrir og því þurfi að leiðrétta þá sérstaklega áður en sáttin verði gerð. Hann byggist heldur ekki á því að það eigi að vera til tvö lífeyrissjóðskerfi í landinu til langframa. Stöðugleiki þarf að byggjast á gjaldmiðli sem við getum treyst, sem meðal banki eða vogunarsjóður getur ekki veðjað á móti og fellt eða eins og komið hefur í ljós að teknar voru gengistryggingar með matadorpeningum á móti raunverulegum verðmætum síðan var spilað á gengið og það ýmist fellt eða styrkt og alltaf töpuðu raunpeningarnir.
Mín sýn byggist á að allt laust fé ríkissjóðs verði notað til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og þar með lækka vaxtaklafann sem farinn er að hefta eðlilega starfsemi innviða samfélagsins. Mín sýn byggir líka á að þeim hópum sem verst eru settir verði hjálpað, hvort sem erfiðleikar þeirra byggja á íbúðarkaupaskuldum, húsnæðisskorti, eða þeir sitji í fátæktargildrunni vegna tekjutenginga almannatryggingakerfis og lífeyrissjóðskerfis. Mín sýn byggist einnig á að byggja upp heilbrigðiskerfi án biðlista og menntakerfi sem ekki er með innbyggt 30% brottfall nemenda.
Að byggja upp samfélag sem unga fólkið trúir á og vill festa sig í til frambúðar. Að félagsmenn okkar sem eru erlendis fái aftur trú á íslensku samfélagi og komi til baka. Að við verðum samkeppnisfær við það besta sem við höfum fyrir augunum á okkur daglega. Að það verði næg atvinna fyrir vinnufúsar hendur. Við gerum þetta ekki allt á einni viku en út á það gengur sáttmáli að við höfum framtíðarsýn sem allir vinna að. Til þess þarf samtakamátt.
Við skulum líka gera okkur grein fyrir að margir sakna tímanna fyrir hrun. Næg atvinna, bullandi kaupmáttur og óheftur aðgangur að lánum. Við áttum allt sem hægt var að hengja aftan í jeppann eða að minnsta kosti höfðum yfirráðarétt yfir því. Og þeir í úrvalsdeildinni keyptu hlutabréf á lánum, og fengu arð út á uppblásinn efnahagsreikning fyrirtækja. Ég óttast að 2007 hugsunargangurinn sé ekki langt undan.
En við ætlum að einhenda okkur í að byggja til framtíðar samfélag sem er með innistæðu fyrir því lífi sem það býður upp á og því þurfum við að vera vel á verði. Ég segi að 2007 tíminn sé liðinn á íslandi. Sagan verður heldur ekki endurskrifuð eins og tilraunir hafa verið gerðar um og talað um „svokallað“ hrun. Það varð hrun og við eigum eftir að gjalda þess um langan tíma. En við eigum að líta til framtíðar.
Gefum komandi ríkisstjórn, hver sem í henni situr tækifæri, vinnum að heilindum með henni svo fremi sem okkur sé stætt okkar hagsmuna vegna.
Til að hægt sé að koma á sátt allra þurfa að vera til gegnsæjar reglur. Þegar hringiðan byrjar að það þurfi að leiðrétta fyrst mig svo getum við farið í þjóðarsátt er leikurinn tapaður. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða kennara, geislafræðinga, okkur, verslunina að ætla að taka til sín aðeins meira í álagningu, skipafélögin, bankana eða sveitarfélög með aðeins hærri leikskólagjöldum svo einhver dæmi séu nefnd. Við erum ein heild og ef við ætlum að komast af við hvort annað þarf samheldni og traust.
Ath með að nefna sterka verkalýðshreyfingu og aðrar kröfur okkar félagsmanna en til stjórnmálaflokka…
Hér á þessu þingi ætlum við að undirbúa okkur málefnalega í þá málaflokka sem skipta okkur hvað mestu máli. Við ræðum kjaramálin, hvað þarf til að vinna að þjóðarsátt, hvernig við komum á stöðugleika, fyrirsjáanleika, hvernig við tryggjum kaupmátt með krónunni, gjaldmiðli sem öll stærstu fyrirtækin eru ónæm fyrir og taka ekki þátt í herkostnaðinum við að vera með örmynt. Við ætlum að ræða um menntamál, hvers vegna ekki hefur verið brugðist við kalli atvinnulífsins um fjölgun í iðn – og tæknigreinar. Hvers vegna ungt fólk hefur okkar greinar ekki sem fyrsta val þegar kemur að því að velja sér starfsvettvang. Við ætlum að ræða um lífeyrissjóðsmál, hvernig við getum tryggt okkur mannsæmandi lífeyri í ellinni eða ef eitthvað bjátar á. Þá munum við einnig ræða um atvinnumál og hvernig þessi frægu hjól eiga að snúast. En síðast en ekki síst ætlum við að ræða ímynd iðnaðarmannsins. Þar liggur nánast allt undir. Hver er ásýnd almennings á okkur, hver er okkar sjálfsmynd, af hverju er hún svona, af hverju flykkist ungt fólk ekki í iðngreinar, erum við sem hreyfing að gera réttu hlutina á réttum stöðum á réttum tíma. Þetta verða allt mjög spennandi viðfangsefni. Ég veit að mörg okkar aðildarfélaga hafa haldið undirbúningsfundi fyrir sína þingfulltrúa svo þeir koma vel nestaðir af hugmyndum og tillögum sem við ætlum síðan að setja í tillögur og verkefnaform.
Ég veit að við eigum eftir að eiga hér tvo vinnusama daga. Ég hvet ykkur þingfulltrúar að leggja ykkur alla fram, ekki liggja á skoðunum ykkar, hlusta á aðra til að komast að niðurstöðu í álitamálum og vera með okkur í sigurliðinu að loknu þingi því ég er þess fullviss að við vinnum öll.
Með þessum orðum segi ég 7. þing Samiðnar, Sambands iðnfélaga sett.
Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Samiðnar