Starfshópur um efnahagsforsendur nýrra kjarasamninga?

Á formannafundi ASÍ sem haldinn var í dag til undirbúnings endurnýjun kjarasamninga í lok nóvember, ræddi Gylfi Arbjörnsson forseti ASÍ m.a um nýja skýrslu sem tekin var saman að lokinni kynnisferð til Norðurlandanna sem farin var til upplýsingaöflunar um undirbúning að kjarasamningsgerð á Norðurlöndunum. Þrátt fyrir að ýmislegt sé sameiginlegt með þessum löndum þá er ekki um samræmdar aðferðir að ræða og sagði Gylfi margt hægt að læra af nágrönnum okkar og þá sérstaklega hvernig staðið er að undirbúningi og eftirfylgni með samningum t.d. er varðar sameiginlega upplýsingagjöf um hagstærðir.  Hann kynnti minnisblað sem sáttasemjari hefur tekið saman en þar er sett fram hugmynd um að skipaður verði starfshópur sem safni haldgóðum upplýsingum um kjaramál og efnahagsforsendur sem nauðsynlegar eru við undirbúning kjarasamninga. Hann kallaði eftir viðhorfum formannanna til þess að ASÍ yrði aðili að slíku samstarfi og einnig hvort þeir hefðu mótað sér skoðun á því hvort gera ætti samning til skamms tíma eða stefna að langtíma samningi.
Í umræðum komu fram jákvæð viðhorf til þess að gerast aðili að slíkum starfshópi sem lið í undirbúning kjarasamninga.  Einnig kom fram í umræðunni að sú mikla óvissa sem upp er í efnahagsmálum og hvert ný ríkisstjórnin stefnir gerir það að verkum að það er síður áhugavert að gera langtímasamning. Hins vegar kom skýrt fram að markmiðið ætti að vera að koma á stöðugleika í efnahagsmálum og skapa aðstæður fyrir vöxt kaupmáttar á næstu misserum.  Ákveðið var að næsti fundur formannanna verði í byrjun september og stéttarfélögin kalli eftir viðhorfum félagsmanna sinna fyrir fundinn.